Gamalreyndur vinnufélagi minn vatt sér upp að mér í gær (hélt samt tveggja metra fjarlægð) og bað mig um að koma á framfæri skilaboðum frá vini sínum, Ellliða, með þremur L-um, sem væri með böggum hildar þessa dagana vegna ástandsins í enska...
Gamalreyndur vinnufélagi minn vatt sér upp að mér í gær (hélt samt tveggja metra fjarlægð) og bað mig um að koma á framfæri skilaboðum frá vini sínum, Ellliða, með þremur L-um, sem væri með böggum hildar þessa dagana vegna ástandsins í enska fótboltanum.

Með þremur L-um, hváði ég. Hvaða vitleysa er nú það?

Jú, sjáðu til. Í fyrsta lagi heldur hann með Leeds, sem er búið að vera besta liðið í B-deildinni í vetur, sér loksins fram á að komast aftur í úrvalsdeildina eftir sextán ára eyðimerkurgöngu, en á svo á hættu að tímabilið verði lýst ógilt og ekkert lið fari upp.

Í öðru lagi er Liverpool hans lið í úrvalsdeildinni. Strákarnir hans Klopp hafa haft gríðarlega yfirburði í vetur, eru með 25 stiga forystu og félagið hefur ekki orðið Englandsmeistari í þrjátíu ár. En svo verður tímabilið kannski strikað út.

Í þriðja lagi hreifst hann svo mjög af Leicester City þegar liðið varð enskur meistari árið 2016 að hann hefur haft sterkar taugar til þess síðan. Leicester hefur gengið frábærlega í vetur og er í dauðafæri til að komast í Meistaradeild Evrópu. En svo verður það kannski allt saman til einskis.

Ég óttast mjög um andlega heilsu Ellliða ef ekki verður hægt að ljúka þessu tímabili í enska fótboltanum, sagði félagi minn, sprittaði sig vel og vandlega og rölti síðan út í sólina með kaffibollann.

Ellliði kemst innan tíðar að því hvernig þetta endar hjá Leeds, Liverpool og Leicester, en breska ríkisstjórnin mun tilkynna næstu skref í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn á allra næstu dögum.