Hjónin Robert Wagner og Natalie Wood saman í Hollywood.
Hjónin Robert Wagner og Natalie Wood saman í Hollywood. — AP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Andlát leikkonunnar Natalie Wood árið 1981 hefur ávallt verið sveipað hulu. Wood drukknaði við Catalina-eyju að næturlagi og enn er ekki vitað hvað gerðist. Í vikunni var frumsýnd heimildarmynd um leikkonuna, Natalie Wood: What Remains Behind.

Andlát leikkonunnar Natalie Wood árið 1981 hefur ávallt verið sveipað hulu. Wood drukknaði við Catalina-eyju að næturlagi og enn er ekki vitað hvað gerðist. Í vikunni var frumsýnd heimildarmynd um leikkonuna, Natalie Wood: What Remains Behind. Á bak við myndina er Natasha Gregson Wagner, dóttir Wood, sem var 11 ára þegar móðir hennar dó.

Mikið var fjallað um andlátið í fjölmiðlum. Wood hafði verið úti að skemmta sér um kvöldið ásamt manni sínum, leikaranum Robert Wagner, og leikaranum Christopher Walken og mun mikið hafa gengið á. Natasha segir að það vaki ekki fyrir sér að varpa ljósi á kvöldið sem móðir hennar lést heldur fjalla um líf hennar og afrek. „Við fórum ekki af stað undir þeim formerkjum að komast að því „hvað gerðist?“ því að við vitum hvað gerðist,“ segir Natasha í viðtali við The Guardian .

Í myndinni segir Robert Wagner, sem nú er níræður, frá atburðarásinni um nóttina, drykkjurifrildi við Walken, sem hafi leyst farsællega, en hann gengið einn til náða. Robert og Natasha geta sér til þess að Natalie hafi farið út til að binda árabát við hlið snekkjunnar Splendour, sem þau voru á. Við það hafi hún hrasað, rekið höfuðið í bátinn, fallið sjóinn og drukknað.

Niðurstaða lögreglunnar í Kaliforníu var sú á sínum tíma að Natalie hefði dáið af slysförum.

Rannsókn málsins var hins vegar hafin á ný 30 árum síðar eftir að skipstjóri snekkjunnar bar vitni um að hann hefði heyrt rifrildi um kvöldið. Árið eftir var dánarvottorðinu breytt og talað um „drukknun og aðra óráðna þætti“ sem dánarorsök.

Árið 2018 var málið tekið upp að nýju vegna nýs vitnisburðar og var sérstaklega tekið fram að áhugi lögreglu beindist að Robert Wagner. John Corina lögregluforingi sagði þá að hann væri þess fullviss að hún hefði ekki dottið í sjóinn af sjálfsdáðum. Corina lést í fyrra og hefur lítið frést af rannsókninni eftir það.

Systir Natalie, Lana Wood, er sannfærð um að henni hafi verið hrint í sjóinn og grunar Robert Wagner. Hún á í deilum við fjölskylduna og vildi ekki koma fram í myndinni.

Catalina er eyja undan ströndum Kaliforníu og tilheyrir Los Angeles-sýslu. Í safni á eyjunni má sjá myndir af Natalie Wood og fleira frægu fólki á borð við Charlie Chaplin, sem fór þar í frí, og Marilyn Monroe, sem átti heima þar í bænum Avalon í nokkra mánuði ásamt fyrsta eiginmanni sínum, James Dougherty.

Fyrr á öldum var eyjan bækistöð sjóræningja og smyglara. Árið 1919 keypti tyggjókóngurinn William Wrigley eyjuna og reisti þar spilavíti og kvikmyndahús, sem síðar varð fyrsta bíóið til að sýna hljóðmyndir.

Natalie Wood og Robert Wagner fóru þangað iðulega, meðal annars í seinni brúðkaupsferð sína. Þau giftust fyrst 1957, skildu 1962 og gengu svo aftur í hjónaband 1972.

Natalie Wood var barnastjarna og byrjaði að leika fimm ára. Hún varð heimsfræg fyrir leik sinn í myndinni Rebel Without a Cause með James Dean og var aðeins fimmtán ára þegar hún hlaut tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir bestan leik í aukahlutverki fyrir frammistöðu sína í myndinni. Alls urðu tilnefningarnar til Óskarsverðlaunanna þrjár á ferlinum. Wood var aðeins 43 ára þegar hún lést.