Enn einn fjáraukinn var kynntur til sögunnar á Alþingi í fyrradag. Hann er jákvæður fyrir einhverja, en sannarlega ekki fyrir alla. Sem 2. varaformaður fjárlaganefndar skrifaði ég undir nefndarálit fjáraukans með fyrirvara.

Enn einn fjáraukinn var kynntur til sögunnar á Alþingi í fyrradag. Hann er jákvæður fyrir einhverja, en sannarlega ekki fyrir alla.

Sem 2. varaformaður fjárlaganefndar skrifaði ég undir nefndarálit fjáraukans með fyrirvara. Ég vil nota þetta tækifæri til að greina frá því helsta sem mér þykir þar betur hafa mátt fara. Ég tel að þó breytingartillögur nefndarinnar séu um margt jákvæðar þá gangi þær ekki nógu langt í að tryggja stuðning við viðkvæmustu þjóðfélagshópana. Almannatryggingaþega, atvinnulausa og fátækar fjölskyldur.

Fólk sem bjó við fátækt fyrir heimsfaraldurinn er hvergi nefnt í þessum svokölluðu björgunaraðgerðum ríkisstjórnarinnar. Sá þjóðfélagshópur hefur rétt eins og aðrir nú orðið fyrir tekjumissi og útgjaldaaukningu. Gengi krónunnar hefur fallið um 17% gagnvart dollar frá áramótum. Í fjárlaganefnd hef ég barist undanfarið fyrir því að í stað þess að greiða einungis 20 þús. kr. eingreiðslu til öryrkja nú 1. júní nk., þá yrði þessi uppbót framlengd 1. hvers mánaðar næstu þrjá mánuði. Þetta færi til allra almannatryggingaþega sem hefðu ekki úr neinu öðru að spila en strípuðum greiðslum frá TR. En þrátt fyrir að til séu hundruð milljóna til að styrkja einkarekna fjölmiðla sem jafnvel eru í eigu auðmanna og beintengdir við stjórnmálaflokka þá er svarið NEI! Skilaboðin eru skýr. Fátækt fólk skiptir engu máli, það getur haldið áfram að éta það sem úti frýs. Það er með hreinum ólíkindum að þurfa að horfa upp á þetta misrétti og ótrúlega mannvonsku stjórnvalda gegn þeim sem mest þurfa á hjálp að halda.

Þá er í nefndaráliti gert ráð fyrir fjárframlögum til SÁÁ gegn því að samið verði um ráðstöfun þeirra við Sjúkratryggingar Íslands. Hér er um einskiptisaðgerð að ræða sem hugsuð er til að mæta hluta af því tekjutapi sem samtökin hafa orðið fyrir vegna Covid-19. Því er afar mikilvægt að greiðslan berist strax og milliliðalaust svo ekki verði um skerðingu á þjónustunni að ræða.

Nauðsynlegt er að styrkja enn frekar hjálparsamtök sem gefa fátæku fólki að borða, umfram þær 25 milljónir sem gert er ráð fyrir í nefndaráliti. Miðað við þau hundruð milljarða sem setja á í björgunaraðgerðir er ótrúlegt að ekki skuli vera gert ráð fyrir því að gefa svöngum að borða. Við verðum að tryggja að allir þeir sem gefa fólki mat geti starfað af fullum krafti á meðan við göngum í gegnum erfiðleikana.

Þá er dapurt að sjá að ríkisstjórnin ætlar ekki að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða til að koma í veg fyrir stórfelldar hækkanir á höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána. Nú þegar hratt er gengið á gjaldeyrisvaraforðann og gjaldeyristekjur í lágmarki er nauðsynlegt að setja 2,5% þak á vísitölu neysluverðs. Ellegar er hætta á að fjöldi landsmanna missi heimili sín líkt og í kjölfar efnahagshrunsins 2008.

Höfundur er alþingismaður og formaður Flokks fólksins.