Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Evrópudómstóllinn lýsti því yfir í gær að hann einn hefði lögsögu yfir evrópska seðlabankanum.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Evrópudómstóllinn lýsti því yfir í gær að hann einn hefði lögsögu yfir evrópska seðlabankanum. Hafnaði dómstóllinn þar með alfarið niðurstöðu þýska stjórnlagadómstólsins, þar sem bæði bankinn og Evrópudómstóllinn voru gagnrýndir fyrir afstöðu sína gagnvart skuldabréfakaupum bankans.

Í tilkynningu dómstólsins sagði meðal annars að til þess að hægt væri að tryggja að lög Evrópusambandsins væru alls staðar túlkuð á sama hátt hefði dómstóllinn einn „lögsögu til að skera úr um að aðgerð stofnunar ESB sé í trássi við lög sambandsins“.

Þá sagði að skoðanamunur milli dómstóla hvers og eins aðildarríkis um lögmæti slíkra gjörða myndi vera líklegur til að setja hina lagalegu skipan sambandsins úr skorðum og draga úr réttaröryggi.

Úrskurður stjórnlagadómstólsins á þriðjudaginn var sérstaklega harðorður í garð Evrópudómstólsins, sem að sögn þýsku dómaranna hafði farið fram úr lagalegum heimildum sínum þegar hann fjallaði um mál seðlabankans, og hefði í raun gerst „afgreiðslustofnun“ fyrir bankann.

Þá áréttaði stjórnlagadómstóllinn þá afstöðu sína að aðildarríki sambandsins væru „ábyrg fyrir sáttmálum þess“, og að Evrópusambandið væri ekki sambandsríki.

Stjórnlagadómstóllinn gaf Seðlabanka Evrópu þrjá mánuði til þess að réttlæta stórtæk kaup sín á ríkisskuldabréfum vegna kórónuveirufaraldursins, ellegar yrði þýska seðlabankanum meinað að taka frekari þátt í magnbundinni íhlutun á vegum evrópska seðlabankans. Ólíklegt er hins vegar talið að evrópski bankinn vilji svara þýska dómstólnum beint, heldur muni þýski seðlabankinn fá það hlutverk, ef úrskurður stjórnlagadómstólsins stendur óhaggaður.

Munu aðrir ganga á lagið?

Embættismenn innan Evrópusambandsins, sem hafa tjáð sig við AFP-fréttastofuna, hafa lýst því yfir að þeir telji niðurstöðu þýska stjórnlagadómstólsins bjóða hættunni heim, og hvetji önnur ríki sem lent hafi upp á kant við Evrópudómstólinn til þess að ganga á lagið.

Er þar einkum horft til Póllands og Ungverjalands, en stjórnvöld í ríkjunum tveimur hafa gripið til meintra umbóta á réttarfari sínu, sem Evrópusambandið hefur litið á sem aðför að sjálfstæði dómstólanna þar. Sebastian Kaleta, aðstoðardómsmálaráðherra Póllands, fagnaði í vikunni niðurstöðu þýska stjórnlagadómstólsins á twitter-síðu sinni, og sagði Þjóðverja hafa varið fullveldi sitt.

Lýsti hann því einnig yfir að Pólverjar myndu gera slíkt hið sama og setja stjórnarskrá Póllands ofar túlkun Evrópudómstólsins.