Isabel Allende
Isabel Allende
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Miðstöð íslenskra bókmennta hefur tilkynnt um fyrri úthlutun ársins í styrki til þýðinga á íslensku.

Miðstöð íslenskra bókmennta hefur tilkynnt um fyrri úthlutun ársins í styrki til þýðinga á íslensku. Að þessu sinni var 13 milljónum varið í 35 styrki, sem er hækkun og fjölgun þýðingastyrkja frá fyrra ári, þegar tæpum 10 milljónum króna var úthlutað í 27 styrki. Er það gert til að bregðast við áhrifum kórónuveirufaraldursins á bókaútgáfu og störf höfunda og þýðenda. Þriðjungur styrkjanna fer til þýðinga barna- og ungmennabóka. Alls bárust 50 umsóknir og sótt var um rúmar 40 milljónir. Þýtt er úr ensku, frönsku, hollensku, ítölsku, latínu, spænsku, rússnesku og þýsku.

Meðal verka sem hlutu styrki eru Der Zauberberg eftir Thomas Mann sem Gauti Kristmannsson þýðir; Herkunft eftir Sasa Stanisic sem Elísa Björg Þorsteinsdóttir þýðir; The Enlightenment of the Greengage Tree eftir Shokoofeh Azar sem Elísa Björg Þorsteinsdóttir þýðir; Largo pétalo de mar eftir Isabel Allende sem Sigrún Á. Eiríksdóttir þýðir; La vita bugiarda degli adulti eftir Elena Ferrante sem Halla Kjartansdóttir þýðir; Illusions perdues eftir Honoré de Balzac sem Sigurjón Björnsson þýðir; Deo, regi, patriæ eftir Pál Vídalín sem Gottskálk Þór Jensson þýðir; Wunschloses Unglück eftir Peter Handke sem Árni Óskarsson þýðir; Die erstaunlichen Abenteuer der Maulina Schmitt 3: Ende des Universums eftir Finn-Ole Heinrich og Rán Flygenring sem Jón Stefán Kristjánsson þýðir; Understanding Comics: The Invisible Art eftir Scott McCloud og Mark Martin sem Védís Huldudóttir og Einar Már Valsson þýða; The Ice Monster eftir David Walliams og Tony Ross sem Guðni Kolbeinsson þýðir; Fantastic Mr. Fox eftir Roald Dahl og Quentin Blake sem Sólveig Sif Hreiðarsdóttir þýðir og Anne of Ingleside eftir E. M. Montgomery sem Sigríður Lára Sigurjónsdóttir þýðir.