Jónas Runólfsson fæddist 11. júní 1937. Hann lést 22. apríl 2020.

Útför Jónasar fór fram 8. maí 2020.

Elsku afi Jónas, okkur systrum þykir vænt um allar þær yndislegu stundir sem við fengum að eiga með þér. Það eru ótal margar minningar sem við munum geyma. Í okkar minningum varstu ávallt góður, kátur og málglaður. Það var alltaf stutt í spaug og glens.

Við áttum margar einstakar stundir þegar við fjölskyldan fórum saman til Limone á Ítalíu og auðvitað má ekki gleyma þeim skiptum sem þú komst með okkur til Flórída. Í Flórída breyttist þú ávallt í íþróttaálf og hikaðir ekki við að láta okkur draga þig í alls kyns vitleysu, allt frá því að koma út að hlaupa yfir í kajak- og snorklunarferðir með hákörlunum og öðru sem því fylgdi – sem við systur vorum misánægðar með.

Þegar við vorum yngri varstu duglegur að passa okkur og við lærðum margt af því að horfa á gular og rauðar myndir á Stöð 2 með þér. Hvað eftirminnilegast er þegar þú útskýrðir að það væri ekki alvörufólk sem hákarlarnir í Jaws væru að éta heldur bara barbídúkkur og tómatsósa til að gera það raunverulegra. Þetta hefur fylgt okkur áfram í gegnum árin og önnur okkar stígur ekki lengra en upp að hnjám út í sjó.

Þú sýndir okkur að það er aldrei of seint að læra eitthvað nýtt og lést ekkert hægja á þér með árunum heldur skelltir þér í ferðamálafræði og spænsku í Háskóla Íslands um það bil 80 ára gamall. Þú ætlaðir ekki að missa af framþróun í ferðamannaiðnaðinum.

Þessar og margar aðrar góðar minningar munu hlýja okkur um hjartarætur þegar við minnumst þín. Afi, þú varst með hjarta úr gulli, varst alltaf til staðar fyrir okkur og fjölskylduna og það eru forréttindi að hafa átt þig að sem afa.

Hvíldu í friði elsku afi, við munum sakna þín sárt.

Þínar afastelpur,

Elín Rós og Guðrún.

Elsku Jónas afi, við vorum svo lánsöm að eignast þig fyrir afa þegar dóttir þín Hulda kynnist pabba okkar, en fyrir áttum við ekki afa á lífi. Við viljum þakka þér fyrir góðar stundir og munum við sakna samveru þinnar, þá sérstaklega að eyða með þér jólunum og fara með þér í utanlandsferðir. Þú hafðir skemmtilegan húmor og höfðum við gaman af skondnu sögunum sem þú sagðir. Okkur eru sérstaklega minnisstæðar ferðirnar til Flórída. Þið Ingólfur voru góðir saman í að stytta ykkur stundirnar í verslunarmiðstöðvunum þar sem farið var á allar „skrifstofur þínar“ sem var dulmerki fyrir að prófa alla nuddstólana. Á seinni árum þínum tók Elísabet viðtal við þig fyrir skólaverkefni þar sem þú deildir skemmtilegum sögum úr lífi þínu, meðal annars um ævintýrin þín í Bandaríkjunum, áhugaverðu tímana sem þú starfaðir sem þjónn og annað brask sem þú stundaðir. Það var áhugavert að fræðast um líf þitt á yngri árum.

Elsku Jónas afi, takk fyrir allar dýrmætu stundirnar. Hvíldu í friði.

Elísabet Ásta

Guðjónsdóttir,

Ingólfur Hannes

Guðjónsson.

Afi hafði mörg áhugamál, það var alltaf mikið að gera hjá honum og hann hafði frá mörgu að segja. Hann var með alla nýjustu tækni á hreinu og vildi vera með nýjustu smáforritin í símanum sínum. Við héldum lítil pönnukökupartí saman, nú síðast í nýja húsinu hans ská á móti því gamla. Ein uppáhaldsutanlandsferðin okkar afa var ferðin til Mallorca, en seint að kvöldi var ákveðið að fara með flugi þá um nóttina.

Við hringdum í afa til að kanna hvort hann vildi koma með og þrátt fyrir stuttan fyrirvara sló hann til og skellti fötum í ferðatösku. Í ferðinni leigði afi bát handa okkur sem var með rennibraut sem hægt var að renna sér af ofan í heitan sjóinn.

Okkur þótti gaman að horfa á bíómyndir saman og eitt kvöldið horfðum við á myndina Tomb Raider með Angelina Jolie og þá sagði afi okkur skemmtilega sögu frá því þegar hann var við tökur á myndinni við Jökulsárlón.

Við eigum eftir að sakna afa mikið, erum þakklát fyrir góðu stundirnar okkar saman. Góða ferð, elsku afi.

Þín afabörn,

Kristín Guðjónsdóttir og Jónas Guðjónsson.