[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hilmar Örn Agnarsson er fæddur 9. maí 1960 í Reykjavík og ólst upp til tíu ára aldurs í Álfheimum og til unglingsáranna í Fossvogi.

Hilmar Örn Agnarsson er fæddur 9. maí 1960 í Reykjavík og ólst upp til tíu ára aldurs í Álfheimum og til unglingsáranna í Fossvogi. „Ég var í sveit á sumrin sem barn og unglingur á Hnjóti í Örlygshöfn, í byggðasafninu hjá Agli Ólafssyni,“ segir Hilmar. „Ég vann við garðyrkju á unglingsárum í Skógræktinni í Reykjavík og hafði unun af því. Það munaði litlu að ég færi í Garðyrkjuskólann eftir gagnfræðapróf frá Réttó, en þá var ekki tekið inn nema annað hvert ár svo ekki varð af því.“

Hilmar gekk í Langholtsskóla, Breiðagerðisskóla og Réttarholtsskóla. Hann hóf 10 ára að læra á orgel/harmóníum í Tónskóla Sigursveins. Eftir grunnskóla lá leiðin í Tónskóla Þjóðkirkjunnar til orgelnáms og í Tónlistarskólann í Reykjavík þar sem hann stundaði nám við Tónmenntakennaradeild skólans á árunum 1977-1983 og útskrifaðist þaðan sem tónmenntakennari. Árin 1985-1991 stundaði hann framhaldsnám í Hamborg í orgelleik og kórstjórn. Hann hefur sótt ýmis námskeið síðan, m.a. í tónheilun.

Hilmar hóf tónlistarferilinn snemma. „Fyrsta bandið var sveitaballabandið Frostrósir þar sem ég hafði meiri laun 16 ára en faðirinn sem ráðunautur!“ Hann var síðan bassaleikari í hinni goðsagnakenndu hljómsveit Þeyr.

Hilmar hóf organista- og kórstjóraferilinn í Þorlákshöfn eftir útskrift sem tónmenntakennari og lék við Þorlákskirkju, Strandarkirkju og Hjallakirkju í Ölfusi. Hann stofnaði Barnakór Þorlákshafnar og gaf út hljóðsnælduna Vor – Þorlákur. „Ég held að þetta sé fyrsti barnakirkjukórinn sem var stofnaður.“

Eftir útskrift frá Hamborg 1991 var Hilmar kallaður til Skálholts sem dómorganisti og kantor Skálholtskirkju og einnig Haukadals-, Bræðratungu- og Torfastaðakirkju. Hann stofnaði Barnakór Biskupstungna, Kór Menntaskólans að Laugarvatni, endurreisti Skálholtskórinn og stofnaði Kammerkór Suðurlands 1997 og stjórnar honum enn. Árin 2009-2012 var Hilmar dómorganisti í Kristskirkju og stjórnaði þar Kór Dómkirkju Krists konungs í Kristskirkju. Frá 2012 hefur hann verið organisti og kórstjóri við Grafarvogskirkju og stjórnað þar ungmennakórnum Vox Populi. Haustið 2011 stofnaði hann tónleikakórinn Söngfjelagið og hefur stjórnað honum til þessa dags. „Ég stjórna því þremur kórum í dag, en ég hef stofnað tíu-tólf kóra,“ segir Hilmar aðspurður. „Ég er með kóradellu.“

Hilmar hefur starfað með fjölmörgum listamönnum úr ólíkum listagreinum, innlendum sem erlendum. „Ég hef átt mikið og farsælt samstarf með Megasi og stýrði m.a. heildarfrumflutningi á lögum hans við Passíusálmana í tilefni 400 ára fæðingarafmælis Hallgríms Péturssonar árið 2014.“ Hilmar hefur gefið út fjölda geisladiska með kórum sínum og árið 2010 kom út Heilagur draumur með tónlist eftir breska tónskáldið sir John Tavener í flutningi Kammerkórs Suðurlands. Kórinn frumflutti verk eftir Tavener á minningartónleikum um hann í London sem vöktu heimsathygli.

Hilmar hefur haldið tónleika með með eiginkonu sinni, Björgu Þórhallsdóttur sópransöngkonu, og Elísabetu Waage hörpuleikara víða um land síðastliðin níu ár sem og víða í Evrópu. Hann hefur enn fremur unnið mikið starf með Björgu við tónlistarhátíðina Engla og menn í Strandarkirkju.

Næsta stóra verkefni Hilmars er söngleikurinn Galdur eftir Helga Þór Ingason, sem Söngfjelagið frumflytur í haust.

„Ég hef ennþá mikinn áhuga á garðyrkju. Við hjónin vorum að kaupa okkur hús við Hafravatn og því fylgir skrúðgarður. Þar er ég í essinu mínu og það þarf að toga mig í háttinn á kvöldin. Tónlist og garðyrkja fara vel saman, þetta er eiginlega sami hluturinn – annað garðrækt og hitt mannrækt – það eru mín stærstu áhugamál.“

Fjölskylda

Eiginkona Hilmars er Björg Þórhallsdóttir, f. 27.11. 1964, söngkona og hjúkrunarfræðingur. Þau eru búsett í Mosfellsbæ. Foreldrar Bjargar voru sr. Þórhallur Höskuldsson, f. 16.11. 1942, d. 7.10. 1995, sóknarprestur á Möðruvöllum í Hörgárdal og á Akureyri, og Þóra Steinunn Gísladóttir, f. 1.12. 1941, d. 27.12. 2016, sérkennari. Fyrrverandi eiginkona Hilmars er Hólmfríður Bjarnadóttir, f. 25.6. 1960, leiðsögumaður hjá Bændaferðum.

Synir Hilmars og Hólmfríðar eru 1) Georg Kári Hilmarsson, f. 8.1. 1982, doktorsnemi í tónsmíðum, búsettur í Boston. Maki: Erna Halldórsdóttir, f. 18.5. 1998. Dóttir þeirra er Urður Sesselía, f. 29.7. 2019; 2) Andri Freyr Hilmarsson, f. 14.7. 1987, nemi við HÍ í leikskólafræðum, búsettur í Reykjavík; 3) Gabríel Daði Hilmarsson, f. 30.6. 1997, umdæmisstjóri söludeildar hjá Schock, búsettur í Bæjaralandi í Þýskalandi.

Systkini Hilmars eru Guðjón Sverrir Agnarsson, f. 3.1. 1954, verkstjóri, búsettur Reykjanesbæ; Guðni Rúnar Agnarsson, f. 17.2. 1956, prestur í Näcka, Svíþjóð; systir sammæðra er Anna Björgvinsdóttir, f. 18.1. 1948, skrifstofustjóri, búsett í Reykjavík; systir samfeðra er Ulla Guðnason, f. 19.5. 1949, rithöfundur, búsett í Kaupmannahöfn.

Foreldrar Hilmars eru hjónin Fjóla H. Guðjónsdóttir, f. 7.9. 1926, handavinnukennari, og Agnar Guðnason, f. 13.2. 1927, ráðunautur og stofnandi Bændaferða. Þau eru búsett í Reykjavík.