Sjálfstætt tungumál Íslenskt táknmál er fyrsta mál u.þ.b. 250 innfæddra Íslendinga.
Sjálfstætt tungumál Íslenskt táknmál er fyrsta mál u.þ.b. 250 innfæddra Íslendinga. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Almenningur kannast við inngangsorð Víðis á upplýsingafundum þríeykisins undanfarið þegar hann kynnir frummælendur og bætir svo við eitthvað á þá leið að í dag sé það Árný sem túlkar. Íslenskt táknmál er eina minnihlutatungumálið á Íslandi sem nýtur beinnar viðurkenningar og verndar samkvæmt lögum. Því er sjálfsagt og eðlilegt að stjórnvöld hugsi fyrir táknmálstúlkun á opinberum vettvangi og ekki síst þegar um brýna fræðslu og leiðbeiningar er að ræða.

Almenningur kannast við inngangsorð Víðis á upplýsingafundum þríeykisins undanfarið þegar hann kynnir frummælendur og bætir svo við eitthvað á þá leið að í dag sé það Árný sem túlkar. Íslenskt táknmál er eina minnihlutatungumálið á Íslandi sem nýtur beinnar viðurkenningar og verndar samkvæmt lögum. Því er sjálfsagt og eðlilegt að stjórnvöld hugsi fyrir táknmálstúlkun á opinberum vettvangi og ekki síst þegar um brýna fræðslu og leiðbeiningar er að ræða.

Íslenskt táknmál er sjálfstætt tungumál og er alls ekki einhvers konar sérútgáfa af íslensku. Það var raunar ekki fyrr en í byrjun sjöunda áratugar síðustu aldar að augu erlendra fræðimanna tóku að opnast fyrir því að táknmál heimsins væru náttúruleg mál með eigin málfræði en ekki „táknuð raddmál“. Málfræðireglur íslensks táknmáls eru sem sé frábrugðnar íslensku, t.d. hvað varðar orðaröð eða táknaröð. Íslenskt táknmál er ekki alþjóðlegt mál, fremur en íslenska. Enda þótt íslenskt táknmál eigi margt sameiginlegt með dönsku táknmáli þá er munurinn eigi að síður of mikill til að hægt sé að gefa sér að sá sem kann íslenskt táknmál skilji til fulls danskt táknmál og enn síður t.d. breskt táknmál. Jafnvel alþjóðleg heiti eru mismunandi frá einu táknmáli til annars. Þannig er landsheitið Malta táknað í íslensku með öðru handformi, öðrum myndunarstað og annars konar hreyfingu en gert er í dönsku táknmáli; og í bresku táknmáli er landsheitið stafað m-a-l-t-a með fingrastafrófi.

Íslenskt táknmál er fyrsta mál u.þ.b. 250 innfæddra Íslendinga um þessar mundir. Nokkur erlend táknmál eru einnig notuð hérlendis meðal nokkurra tuga innflytjenda en margir þeirra hafa jafnframt tileinkað sér íslenskt táknmál og þannig stækkað og styrkt málsamfélag þess. Töluverður hópur heyrandi Íslendinga, líkast til a.m.k. 1.000 manns, kann íslenskt táknmál að einhverju leyti. Það eru einkum aðstandendur og kennarar heyrnarlausra, fræðafólk og túlkar.

Ekki eru nema örfáir áratugir síðan íslenskt táknmál var nánast „ósýnilegt“ í samfélagi okkar enda þótt um sé að ræða sjálfstætt málsamfélag innfæddra Íslendinga með eigin málmenningu, hefðir og rætur hérlendis. Íslenskt táknmál er hvergi notað að staðaldri nema á Íslandi. Það er því, líkt og íslenskan, meðal sérkenna og menningarverðmæta sem Íslendingum ber skylda til að rækta og varðveita. Í lögum um íslenska tungu og íslenskt táknmál, frá 2011, felst ákveðin viðurkenning á íslensku táknmáli. Sú réttarbót kostaði meira en tveggja áratuga baráttu og umræður. Í þriðju grein laganna segir meðal annars: „Íslenskt táknmál er fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og barna þeirra. Skulu stjórnvöld hlúa að því og styðja.“

Ari Páll Kristinsson aripk@hi.is