Bót 36.000 hafa sótt um hlutabætur.
Bót 36.000 hafa sótt um hlutabætur. — Morgunblaðið/Eggert
Vinnumálastofnun vinnur nú að því að fá þá sem þiggja hlutabætur en eru ekki gjaldgengir í hlutabótakerfið lengur til að afskrá sig, að sögn Unnar Sverrisdóttur, forstjóra Vinnumálastofnunar.

Vinnumálastofnun vinnur nú að því að fá þá sem þiggja hlutabætur en eru ekki gjaldgengir í hlutabótakerfið lengur til að afskrá sig, að sögn Unnar Sverrisdóttur, forstjóra Vinnumálastofnunar.

„Ég er að vona að það muni skila heilmiklum árangri,“ segir Unnur en Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir allmiklum afskráningum úr hlutabótaleiðinni eða breytingum á bótahlutfalli til minnkunar. Á sama tíma má búast við töluverðum fjölda nýskráninga í almenna bótakerfið.

Unnur segir fyrirséð að skilyrði til hlutabóta verði hert í nýju frumvarpi ríkisstjórnarinnar vegna hlutabóta en stöndug fyrirtæki hafa nýtt sér hana þrátt fyrir að hún sé ætluð þeim sem eru í rekstrarvanda.

„Mér finnst þessi leið hafa virkað mjög vel. Það eru alltaf einhverjir svartir sauðir í mörgu fé en 6.700 fyrirtæki hafa nýtt sér hlutabótaleiðina,“ segir Unnur.

Vinnumálastofnun telur sig hvorki hafa heimild til að afhenda né birta lista yfir þau fyrirtæki sem gert hafa samkomulag við starfsmenn sína um minnkað starfshlutfall.

Stúdentar hafa um tíma krafist þess að þeir fái rétt til atvinnuleysisbóta eins og flestir aðrir þjóðfélagshópar. Í tilkynningu sem Landssamtök íslenskra stúdenta sendu frá sér í gær kemur fram að gera megi ráð fyrir því að um 7.000 stúdentar hafi enga atvinnu í sumar. Tillaga um að stúdentar fái bætur í sumar var felld á Alþingi á fimmtudag. ragnhildur@mbl.is