Fjóla Gunnarsdóttir fæddist í Bakkagerði, Reyðarfirði, 14. maí 1935. Hún lést á heimili sínu í Hafnarfirði 14. apríl 2020.

Foreldrar Fjólu voru Gunnar Bóasson útvegsbóndi frá Stuðlum í Reyðarfirði, f. 10.5. 1884, d. 28.7. 1945, og seinni kona hans, Margrét Stefanía Friðriksdóttir, f. á Mýrum í Skriðdal 7. 7. 1899, d. 4.5. 1975.

Fjóla var sautjánda í röð nítján systkina. Faðir hennar missti fyrri konu sína, Unu Sigríði Jónsdóttur, f. 11.6. 1884, d. 4.1. 1922.

Eldri systkini Fjólu: Sigurbjörg, f. 1907, d. 1963, Jón, f. 1908, d. 1961, Lára, f. 1909, d. 1996, Sólborg, f. 1910, d. 1991, Ásgeir, f. 1912, d. 1985, Anna, f. 1913, d. 1958, Hjalti, f. 1914, d. 1986, Páll, f. 1916, d. 1916, Páll, f. 1917, d. 2007, og Ingvar, f. 1919, d. 1991.

Yngri systkinin: Una Sigríður, f. 1924, d. 2018, Sigrún, f. 1925, d. 2005, Aðalheiður, f. 1927, d. 2018, Friðrik, f. 1929, d. 1938, Reynir, f. 1931, d. 2010, Bóas, f. 1932, d. 2015, Ragnhildur, f. 1937, d. 2017, og Sólveig, f. 1944.

10. maí 1954 giftist Fjóla Pétri Valdimarssyni, f. 22.7.1932, frá Eskifirði. Foreldrar hans voru Valdimar Indriði Ásmundsson og Eva Pétursdóttir. Fjóla og Pétur eignuðust sjö börn:

Pétur Már, f. 4.1. 1955, maki Arndís Bjarnadóttir. Börn: Pétur Bjarni og Eva María, maki Smári D. Hallgrímsson, börn Franz Logi og óskírð dóttir.

Eva, f. 12.4.1956, maki Mogens U. Andersen, barnsfaðir Abdel Naby. Barn: Fjóla.

Anna Margrét, f. 9.9. 1958, d. 1.2. 2000, maki Páll S. Kristjánsson. Börn: Kristján, barnsmóðir Birna Ingadóttir. Börn: Ása Margrét og Símon. Ása, f. 16.8. 1983, d. 4.5.1999.

Gunnar, f. 8.7. 1960, maki Margrét Ólafsdóttir. Börn: Pétur, maki Hjördís Guðrún Brynjarsdóttir. Börn: Gunnar Atli, Bóas Óli og Andri Fannar. Ólafur, maki Maja Raabye Füchsel. Börn: Frans Magnus, Viktoria og Hugo Boas. Bóas, maki Camilla Bai. Börn: Siva Viola og Silke Viola. Fjóla

Valdimar f. 9.10. 61, maki Ingibjörg Jóhannesdóttir. Börn: Fanndís Huld, maki Dagbjartur Ketilsson. Börn: Hróar Indriði og Agnes Eva. Ásdís Dröfn, maki Skúli Pálsson. Börn: Alex Örn og Sandra Ósk. Pétur Indriði.

Jón Emil, f. 13.3. 1970. Börn: Loki og Sif.

Heiðdís, f. 3.5. 1972, maki Hreiðar Bjarni Hreiðarsson. Börn: Fanney Sól, Hreiðar, Þórdís Anna og Pétur Snær.

Fjóla ólst upp í Bakkagerði og lauk fullnaðarprófi frá Barnaskóla Reyðarfjarðar og síðan landsprófi frá Laugum í Reykjadal 1953.

Fyrstu hjúskaparárin bjuggu Fjóla og Pétur á Akureyri. Að loknu vélvirkjanámi Péturs fluttu þau til Reykjavíkur árið 1957. Fjóla flutti út til Danmerkur 1960 með skipi frá Neskaupsstað með Gunnar 6 vikna gamlan, Önnu Margréti 2 ára, Evu 4 ára og Pétur Már 5 ára. Pétur hafði farið á undan í nám í tæknifræði í Odense sem hann lauk 1963 og fluttu þá aftur til Akureyrar og bjuggu þar til 1994.

Fjóla fór í tækniteiknaranám árið 1973 og lauk því tveimur árum síðar. Hún vann við það með eiginmanni sínum á skrifstofu þeirra í Þrastalundi á Akureyri.

Árið 1994 fluttu Fjóla og Pétur til Odense og bjuggu þar til ársins 2000 er þau fluttu aftur til Íslands og settust að í Hafnarfirði.

Fjóla verður jarðsungin frá Reyðarfjarðarkirkju á morgun, 10. maí 2020, klukkan 14. Í ljósi aðstæðna verður athöfnin í kyrrþey en streymt verður úr kirkjunni á facebooksíðu Reyðarfjarðarkirkju.

Slóð á streymið: https://www.facebook.com/reydarfjardarkirkja. Stytt slóð: https://n9.cl/soksv. Slóðina má einnig nálgast á www.mbl.is/andlat.

Yndislega ástarblóm.

Nú þegar ég kveð þig í hinsta sinn í þessari jarðvist þakka ég þér fyrir öll 67 dásamlegu árin sem við áttum saman og ég mun hugsa til þessa ljóðs eftir James McNifty þegar treginn verður of mikill.

Gættu þess vin, yfir moldunum mínum,

að maðurinn ræður ei næturstað

sínum

og þegar þú hryggur úr garðinum gengur,

ég geng þér við hlið, þó ég sjáist ei lengur.

En þegar þú strýkur burt tregafull

tárin,

þá teldu í huganum yndisleg árin,

sem kallinu gegndi ég kátur og glað ur,

það kæti þig líka, minn sam ferðamaður.

Ástarkveðja, þinn

Pétur (Péti).

Minning um móður

Í hjarta mínu er lítið ljós,

sem logar svo skært og rótt.

Í gegnum torleiði tíma og rúms

það tindrar þar hverja nótt.

Það ljósið kveiktir þú, móðir mín,

af mildi, sem hljóðlát var.

Það hefur lifað í öll þessi ár,

þótt annað slokknaði þar.

Og þó þú sért horfin héðan burt

og hönd þín sé dauðakyrr,

í ljósi þessu er líf þitt geymt,

– það logar þar eins og fyrr.

Í skini þess sífellt sé ég þig

þá sömu og þú forðum varst,

er eins og ljósið hvern lífsins kross

með ljúfu geði þú barst.

(Jóhannes úr Kötlum)

Ástar- og saknaðarkveðjur, elsku móðir.

Fyrir hönd barna, tengdabarna, barnabarna og barnabarnabarna,

Pétur Már Pétursson.

Með söknuði og óskaplega góðum minningum um yndislega afasystur kveðjum við Fjólu frænku.

Margar góðar minningar eru frá stóra húsinu í Þrastarlundinum; gullfiskabúrið, stóri fallegi garðurinn sem bauð upp á ýmis ævintýri, steiktur fiskur með miklu smjöri og afmæliskanínutertan með ofsalega góðu kremi og lakkrísreimunum.

Það var alltaf settur rjómi út í kaffið og risastórt oststykki haft á borðum.

Þó að Fjóla hafi verið ættmóðir Stuðlaþrjóskunnar, þá voru það ljúfmennskan og elskulegheitin sem einkenndu alltaf heimsóknir í Þrastarlund. Við munum eftir henni brosandi og elskulegri.

Pétri og afkomendum sendum við hlýjar kveðjur með kærleik til allra.

Kjartan, Aðalheiður,

Ingi Lár og Harpa börn Vilbergs og Jennýjar.

Minningar um Fjólu, föðursystur okkar, eru samofnar bernskuminningunum, því þá bjuggu Fjóla og Pétur á Akureyri með börnunum sínum sem voru á líkum aldri og við og þar var gott að koma þegar sveitafólk fór í kaupstaðarferð.

Heimili þeirra, Þrastalundur, hafði ekki ólíkan blæ og Stuðlaheimilið.

Þar var líf og fjör, gestir alltaf velkomnir og alltaf tími til að spjalla. Það voru ríkulegar veitingar á borðum, þó samræðurnar drægjust á langinn því samfélagið var það sem skipti máli – ekki tímasetningar.

Garðurinn stóri var eins og töfragarður og meira að segja hægt að gista úti í dúkkuhúsi Heiðdísar, ef þau ekki leyfðu stelpunum bara að sofa í stóra vatnsrúminu sínu.

Fjóla og Pétur umgengust börn með sama áhuga og virðingu og fullorðið fólk en það var ekki sjálfsagt í þá tíð. Heimsóknir þeirra eða þegar þau komu við á leið austur á Reyðarfjörð eða á bakaleið voru alltaf tilhlökkunarefni.

Fjóla og pabbi voru samrýnd. Þau fóru saman í Laugaskóla árið 1950 og allt fram til andláts pabba árið 2015 sýndu þau Fjóla og Pétur honum mikla ræktarsemi og vináttu með heimsóknum og símtölum.

Fjólu var flest til lista lagt; handavinna, matargerð og garðyrkja, en sannarlega er það hlýja hennar og elskusemi sem gerðu hana einstaka frænku í okkar vitund.

Guð blessi minningu hennar og huggi Pétur og allan stóra hópinn þeirra.

Margrét og systkinin

í Stuðlum.

Elskulega Fjóla systir pabba-tengdapabba-afa Bóasar hefur kvatt þennan heim.

Þessi fallega og hlýja kona sýndi okkur hjónunum og börnunum okkar ætíð mikla ástúð og umhyggju. Fyrir það erum við þakklát. Í huga okkar eru Fjóla og Pétur eitt, þess vegna eru þessar hugleiðingar um þau bæði.

Þegar við fórum með börnin okkar lítil til Akureyrar var Þrastarlundur hjá Fjólu og Pétri sá staður sem okkur þótti best að koma á til að skipta um bleyju eða næra börnin. Alltaf tóku þau okkur opnum örmum og sýndu okkur mikla hlýju og áhuga og buðu upp á alls konar góðgæti.

Seinni ár hafa Fjóla og Pétur oft komið við hjá okkur í Dalakofanum, ýmist á leiðinni austur á Reyðarfjörð eða til baka. Alltaf jafn yndisleg og svo gott að fá hlý og notaleg faðmlög frá þeim báðum og finna væntumþykjuna streyma frá þeim. Gaman að spjalla við þau og einnig að finna áhuga þeirra á að vita

hvernig gengi hjá börnunum okkar.

Börn Fjólu og Péturs hafa sannarlega fengið þessa elskusemi í arf og höfum við hjónin og börnin okkar notið þess.

Við höfum heimsótt Evu og Molla og líka Gunnar og Margréti í Óðinsvé. Þar fundum við þessa sömu hlýju, ástúð og miklu gestrisni eins og hjá Fjólu og Pétri.

Yngri börnin okkar hafa líka fengið að njóta elskusemi þessa góða frændfólks í Danmörku sem hafa allt viljað fyrir þau gera og ber sannarlega að þakka það.

Ómetanlegt var að Fjóla og Pétur ásamt Gunnari, Margréti og Örnu Kristínu okkar skyldu fyrir tveimur árum fara á tónleika hjá danska kórnum Vocal Line sem

Gunnar sonur okkar syngur í. Þar sýndu þau enn þessa miklu ást, umhyggju og frændrækni.

Elsku Pétur og fjölskylda, við sendum ykkur öllum innilegar samúðarkveðjur.

Okkur þykir mjög vænt um ykkur öll og biðjum góðan Guð að blessa minningu elsku Fjólu.

Haraldur Bóasson,

Þóra Fríður Björnsdóttir

og fjölskylda.