Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Yfirdrottning allra þjóða. Ung er snót í lífsins blóma. Engum gefin er sú tróða. Er sá dómur hreinn með sóma. Helgi R. Einarsson á þessa lausn: Fyrst kemur María mey, svo meyja, sem stúlka ein.

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Yfirdrottning allra þjóða.

Ung er snót í lífsins blóma.

Engum gefin er sú tróða.

Er sá dómur hreinn með sóma.

Helgi R. Einarsson á þessa lausn:

Fyrst kemur María mey,

svo meyja, sem stúlka ein.

Þá kvenmaður, karllaust grey

og kallast sú síðasta hrein.

Eysteinn Pétursson svarar:

María Jesúm gjörði gráta.

Gott er mey að hafa hjá sér.

Bónorði manns ef mey vill játa

meydóminn verður að láta frá sér.

Sigmar Ingason leysir gátuna þannig:

María mey hlaut lofgjörð lýða.

Litfögur klæði meyjar prýða.

Fyrrum meyjar í festum sátu

flestar meydóminn varið gátu.

Þessi er lausn Guðrúnar Bjarnadóttur:

Í Biblíu María mey

meyjar nokkrar sá,

sem duttu í festarfley.

Fór meydómur þá.

Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:

Drottning heims er María mey.

Mey er snót í lífsins blóma.

Piparmey er ógift ey.

Er meydómur hreinn með sóma.

Þá er limra:

Ég veit ekki hvað því veldur,

að verð ég svo dapur og hrelldur,

og Lórelei,

sú lokkandi mey,

hún veit það víst ekki heldur.

Síðan er ný gáta eftir Guðmund:

Nú er fögur sólarsýn,

særinn ljómar eins og vín,

gullin veig í glasi skín,

gátan sára létt er mín:

Við það oft er fleyi fest.

Féð var geymt á þessum stað.

Oft þar lúnum líður best.

Líka hellir vera kvað.

Gömul vísa í lokin:

Gróa á Leiti fréttafróð

flytur kvæðavinum

eitt sem nefnist asnaljóð

eftir höfundinum.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is