Benedikt Júlíus Jónasson fæddist í Reykjavík 14. janúar 1976. Hann lést á heimili sínu 16. apríl 2020.

Foreldrar hans eru Pálína Guðný Emilsdóttir, f. 30.6. 1956, og Jónas Sigurðsson, f. 5.7. 1956, d. 21.4. 2004. Stjúpfaðir Benedikts er Guðlaugur Fr. Sigmundsson, f. 20.2. 1945.

Systkini Benedikts eru Sigmundur Fr. Guðlaugsson, f. 23.4. 1981, Birgir Már Guðlaugsson, f. 8.9. 1984, Sigríður Fanney Guðlaugsdóttir, f. 14.10. 1989.

Einnig átti Benedikt stjúpsystur, Höllu Kristínu Guðlaugsdóttur, f. 13.12. 1970.

Benedikt eignaðist fimm börn, þau eru: Áslaug María, f. 1.3. 1993, Hrafnhildur Lára, f. 2.4. 1997, d. 14.4. 2000, Sigurður Rúnar, f. 2.4. 1997, Guðni Veigar, f. 9.9. 1999, Elísa Björt, f. 23.5. 2006.

Í ljósi aðstæðna fór útför Benedikts fram 24. apríl 2020 í kyrrþey.

Yndislegi Benni okkar.

Með söknuð í hjarta kveðjum við þig.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Þín verður sárt saknað.

Mamma og pabbi.

Þær eru margar góðar minningarnar sem koma upp þegar við systkinin setjumst niður til að skrifa minningargrein um Benna bróður.

Benni hafði þann sérstaka hæfileika að geta alls ekki átt farartæki í langan tíma, á einhvern óskiljanlegan hátt tókst honum að gera bílana óökuhæfa á svo stuttum tíma og er okkur sérstaklega minnisstætt eitt augnablik þegar okkar maður var í umferðinni og pabbi fær símtal: „Pabbi komdu eins og skot! Bíllinn er úti um allt á Nýbýlaveginum.“

Þarna hafði eitt dekkið skoppað undan bílnum. Þetta var ekki fyrsta og ekki síðasta óhappið tengt bílum en bílar áttu bara hreint ekki við hann.

Benni var einstaklega góður drengur, vildi allt fyrir sitt fólk gera og var duglegur að minna okkur á að ef eitthvað amaði að væri hann boðinn og búinn að koma okkur til aðstoðar. Eitt skiptið kom litla systir hans inn heima grátandi, þá líklega ekki mikið eldri en 10 ára en þá höfðu einhverjir guttar verið vondir við hana. Benni var á svipstundu kominn í skó og þotinn út og náði drengjunum til þess að tilkynna þeim það að við systur sína væru þeir ekki vondir. Yndislegur stóri bróðir.

Benni upplifði margt, varð fyrir ótal hindrunum á leið sinni í gegnum lífið. Aldrei heyrðist kvart í Benna bróður. Hann eignaðist sitt fyrsta barn ungur að aldri, hana Áslaugu, aðeins 17 ára gamall. Eftir það átti hann eftir að eignast þau nokkur en 1997 komu síðan tvíburarnir Hrafnhildur og Diddi. Hrafnhildur okkar kveður svo þennan heim aðeins þriggja ára gömul eftir að hvítblæðið hafði sigrað. Þetta áfall var mikið og jafnaði Benni sig aldrei á missinum. Svo kom Guðni og örverpið hún Elísa.

Áföll, slys og veikindi tóku því miður of mikinn toll af hans lífi, miklu meiri en manni fannst að hægt væri að leggja á einn mann.

Megir þú hvíla í friði og ró, laus við allan sársauka, bæði þann líkamlega og ekki síst andlega.

Við ætlum að halda í allar góðu minningarnar sem við eigum og eru okkur svo dýrmætar í dag.

Takk fyrir að vera okkur góður stóri bróðir.

Þín systkini,

Sigmundur (Simmi), Birgir (Biggi) og Sigríður (Sigga).