— Ljósmynd/Hreinn Óskarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Friðun birkiskóganna á Þórsmörk er eitt af merkilegri verkefnum 20. aldar í náttúruvernd,“ segir Hreinn Óskarsson, sviðsstjóri þjóðskóganna hjá Skógræktinni.

Baksvið

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Friðun birkiskóganna á Þórsmörk er eitt af merkilegri verkefnum 20. aldar í náttúruvernd,“ segir Hreinn Óskarsson, sviðsstjóri þjóðskóganna hjá Skógræktinni. Árið 1919 fóru 40 bændur úr Fljótshlíð fram á það að Skógræktin tæki að sér vörslu Þórsmerkur og girti landið af því að það væri í stórhættu vegna uppblásturs. Það gekk eftir og í dag er liðin ein öld frá því að samningur um friðun Þórsmerkur var fullgiltur, en skógurinn þar er hluti þjóðskóganna.

Birkiskógunum bjargað

Eftir Kötlugosið 1918 var svæðið þakið ösku og ekki hægt að beita fé þar fyrstu mánuðina. Líklega hefur það ástand stuðlað að því að hugmyndir um friðun skóganna fengu meðbyr, en í þessari samantekt er byggt á upplýsingum frá Skógræktinni og Hreini Óskarssyni. Friðunin var gerð að tilstuðlan bænda og ábúenda jarða í Fljótshlíð auk Oddakirkju. Árið 1927 var gert sams konar samkomulag við Breiðabólstaðarkirkju sem átti beitirétt á Goðalandi.

Beitirétti var afsalað og Skógræktinni falið að vernda svæðið fyrir beit svo hægt væri að bjarga þeim birkiskógum sem þar var enn að finna. Er þetta samkomulag líklega eina dæmi þess hér á landi að beitiréttarhafar hafi afsalað sér beitirétti á afrétti til að vernda skóga.

Þórsmörk og nærliggjandi afréttir voru skógi vaxið svæði við landnám. Þar viðhéldust skógar langt fram eftir öldum enda svæðið nokkuð einangrað af jöklum og jökulám. Skógarnir voru hins vegar nánast horfnir um 1800, ekki kolablað að fá, eins og það var orðað. Með því var átt við að ekki var lengur birki til kolagerðar í sýslunni og hafði þá verið gengið nærri skóginum.

Skógur á um 1.500 hekturum

Um 1900 var lágvaxið kjarr á um um 250 hekturum. Eftir friðunina 1920 var ráðist í að koma upp girðingum 1924 og jókst þekja skóganna, var um 360 hektarar 1960. Við algera beitarfriðun eftir 1990 stórjókst útbreiðslan og er nú skógur á 14-1.500 hekturum, en þá er miðað við meira en 10% þekju trjáa. Auk þess er gisnara kjarr víða í hlíðum fjalla, í giljum langt inni á Þórsmörk, Goðalandi og nærliggjandi afréttum.

Hreinn telur að birkiskógar á Þórsmerkursvæðinu séu það sem næst kemst því að vera líkt þeim birkiskógum sem uxu hér fyrir landnám. Lífbreytileiki er orðinn mikill og hátt í 200 plöntutegundir hafa fundist á svæðinu, þá eru mosategundir, skófir eða fléttur ekki taldar með.

Margir hafa komið að starfinu á Þórsmörk; Skógræktin, Landgræðslan, ferðafélög, ýmis samtök og sjálfboðaliðar. Í þessu sambandi má nefna vernd fyrir beit með girðingum, stjórn á grisjun skóganna frá 1920-1950, uppgræðslu með áburði og lokun á rofabörðum með birkihrísi frá upphafi friðunar. Þegar fyrstu girðingarnar voru reistar 1924, var girðingarefni flutt á hestum yfir Markarfljót og voru flestir staurarnir gerðir úr járnbrautarteinum sem legið höfðu úr Öskjuhlíð að Reykjavíkurhöfn.

Hreinn rifjar upp að Hákon Bjarnason, fyrrverandi skógræktarstjóri, hafi sagt að ef ekkert hefði verið að gert í friðun Þórsmerkur hefði svæðið blásið upp að stórum hluta og skógar eyðst að mestu. Svo því sé haldið til hafa þá hafa Vestur-Eyfellingar frá árinu 2012 nýtt rétt sinn til að beita 60 tvílembum á afrétt í Almenningum norðan Þórsmerkur.

Eldskírn í gosinu 2010

Eldskírnina fengu nýir skógar á Þórsmerkursvæðinu í eldgosinu í Eyjafjallajökli 2010 þegar aska dreifðist yfir stóran hluta þeirra. Gróður á skóglausum svæðum í nærliggjandi sveitum og afréttum átti í vök að verjast vegna öskufalls og öskufoks. Á hinn bóginn sá ekki á skógum á Þórsmerkursvæðinu. Þvert á móti nutu þeir góðs af öskunni sem veitti þeim næringu.

Viðhald gönguleiða og uppbygging göngustíga á Þórsmerkursvæðinu er nú eitt helsta verkefni Skógræktarinnar þar. Svæðið er opið almenningi allan ársins hring. Þórsmerkursvæðið er vinsælt útivistarsvæði, landslagið stórbrotið og fjölbreytt, og er talið að milli 100-150 þúsund gestir hafi komið þar árlega síðustu árin.

Mikið starf hefur verið unnið á Þórsmörk og nágrenni síðustu ár við gerð göngustíga fyrir styrki frá landsáætlun um innviði ferðamannastaða sem og Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.