Nanna Kolbrún Bjarnadóttir fæddist 2. september 1938. Hún lést 11. apríl 2020.

Jarðsungið var frá Eskifjarðarkirkju í kyrrþey.

Við Nanna kynntumst vel við vinnu í rækjuvinnslunni á Eskifirði þar sem ég fékk heldur betur að sjá þvílík hamhleypa til verka hún var. Það átti að taka til hendinni ef eitthvað var að gera, ekki gaufa við hlutina eins og einhver aumingi.

Vinskapurinn dafnaði og dýpkaði svo þegar ég flutti aftur heim á Eskifjörð 2012. Þá fór ég að venja komur mínar meira og meira inn á Bleiksárhlíð 18. Það var sama á hvaða tíma dags maður heimsótti Nönnu og Kidda.

Alltaf var töfrað fram hlaðborð veitinga sem minnti á fermingarveislu, og gerði Nanna það leifturhratt á meðan hún gantaðist við okkur.

Þegar ég tók saman við Evu sagði ég fljótlega við hana að hún yrði að koma með mér til Nönnu og Kidda þegar við færum til Eskifjarðar. Það tókst strax góður vinskapur með þeim og var eins og þær hefðu alltaf þekkst. Það var svo gott að finna hvað Nanna átti í okkur hvert bein og hvað henni var umhugað um okkur. Það fundum við sérstaklega þegar Eva var ólétt núna í vetur og svo þegar Anna Dóra okkar var komin í heiminn.

Nanna rukkaði okkur reglulega um myndir af henni og var eins og hún væri ein af ömmubörnunum, svo mikil hlýja var í öllum hennar orðum til barnsins. Stoltir foreldrarnir hringdu myndsímtöl í vinkonu sína til að sýna henni frumburðinn og vissum við ekki þá hve dýrmætar stundir það voru. Við höfðum ráðgert að fara svo í heimsókn við fyrsta tækifæri til að kynna þær vinkonur formlega, en það tækifæri kemur víst ekki úr þessu.

Við eigum góðar minningar um gæðakonu sem stóð sínu fólki nærri og lét ekkert eiga inni hjá sér. Ennþá sjáum við ljóslifandi fyrir okkur hlýja brosið, prakkaraglampann í augunum og heyrum filterslausan Camelhláturinn. Stórt skarð stendur eftir í tilveru allra þeirra sem þekktu Nönnu Bjarnadóttur.

Fjölnir og Eva.