Inga Björg fæddist á Valþjófsstöðum í Núpasveit 16. nóvember 1944. Hún andaðist á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi 2. maí 2020.

Foreldrar Ingu voru Guðrún Sigurðardóttir, húsmóðir og símastúlka, f. 20.5. 1921, og Ragnar Helgason, organisti og póst- og símstöðvarstjóri, f. 15.7. 1918, d. 28.2. 1990.

Inga var elst fimm systkina. Þau eru Helga Sigfríður Ragnarsdóttir, f. 27.12. 1947, Árni Páll Ragnarsson, f. 3.6. 1951, Anna Þuríður Ragnarsdóttir, f. 9.12. 1957, og Sigurður Ragnarsson, f. 18.5. 1962.

Inga giftist Sigmari Sigurðssyni frá Sauðhúsvelli undir Vestur-Eyjafjöllum þann 20. nóvember 1976. Þeirra börn eru a) Einar, íslenskufræðingur, f. 6.8. 1974; b) Rúnar, búfræðingur, f. 1.9. 1975; c) Unnur, efnafræðingur, f. 31.7. 1979, maki Þorsteinn Eyþórsson tölvunarfræðingur, f. 1.8. 1979. Þeirra barn er Unnur Hildur, f. 2013; d) Sigurrós, lyfjafræðingur, f. 20.1. 1981, maki Arnar Svarfdal Þorkelsson viðskiptafræðingur, f. 23.6. 1981. Þeirra börn eru Helena Björg, f. 2009, og Höskuldur Svarfdal, f. 2011.

Inga fluttist 13 ára gömul með fjölskyldu sinni á Kópasker. Þar bjó hún þar til hún hélt til náms í Hússtjórnarskólanum á Löngumýri í Skagafirði árið 1961. Eftir það vann hún hin ýmsu störf, m.a. á sjúkrahúsinu á Akureyri sem gangastúlka. Árið 1967 fluttist Inga til Reykjavíkur og starfaði um hríð í mötuneyti Sjónvarpshússins. Árið 1972 fluttist Inga á Sauðhúsvöll og hóf búskap með Sigmari og bjó þar alla tíð.

Útför hennar mun fara fram í kyrrþey frá Ásólfsskálakirkju.

Elsku mamma, nú ertu horfin yfir móðuna miklu. Þú varst alltaf svo hjartahlý og umburðarlynd, hjálpsöm og fórnfús, nægjusöm og sannsögul, hreinskilin og blátt áfram. Þú varst líka lífsglöð enda naustu hins litla og einfalda og varst ævinlega sátt við hlutskipti þitt , hvert svo sem það var þá og þá stundina.

Það var á balli í Reykjavík 1972 að þú kynntist manninum sem átti eftir að verða lífsförunautur þinn allar götur síðan. Sama ár fluttirðu á fósturbýli hans, Sauðhúsvöll undir Vestur-Eyjafjöllum, og áttir þar heima í hartnær fimmtíu ár. Á þeim tíma varð ykkur fjögurra barna auðið og skemmst er frá því að segja að fyrir börnin og barnabörnin vildir þú allt gera.

Sjálfur á ég mér ótal fagrar minningar um þig. Sem snáði sá ég þig lauma góðgæti í skóinn minn og fékk að hjálpa þér við bakstur og tiltekt, ekki síst fyrir jól og páska. Jólin fyrir fermingu gafstu mér Jóladraum Dickens – sögu um það hvernig maðurinn getur umbreyst til hins betra – sögu sem átti eftir að verða mér æ kærari. Sem ungur maður fór ég eitt sinn í vaktavinnu og þurfti að vakna í rauðabítið; þá fórst þú á fætur fyrir allar aldir til að bera mér morgunverð. Man líka ferðirnar mörgu þegar ég ók þér í bæinn og til baka; þær voru ávallt upplífgandi. Stundum sáum við norðurljósin saman, en báðum var okkur kært að sjá norðursins ljós dansa um himinhvolfið.

Minnist þess einnig hvernig þú skynjaðir jafnan á mér ef eitthvað amaði að, þótt ég reyndi að láta á litlu bera, og spurðir þá hvort nokkuð væri hægt að bæta úr.

Er þá fátt eitt talið af hjartfólgnum minningum um þig.

Þakka þér fyrir allt, mamma mín.

Megi ljósið fylgja þér allar stundir.

Einar.

Þakklæti er það fyrsta sem kemur upp í huga minn þegar ég hugsa um þann tíma sem ég þekkti Ingu tengdamóður mína. Þau fjórtán ár sem ég hef verið hluti af fjölskyldunni á Sauðhúsvelli var hún ekki aðeins tengdamóðir mín heldur einnig vinur sem ég gat ávallt talað við og leitað til.

Ég minnist þess þegar ég kom fyrst á heimili þeirra Ingu og Sigmars á Sauðhúsvelli árið 2006.

Ég og Unnur vorum þá nýbyrjuð í sambandi og bauð hún mér að koma austur á þorrablót. Þá gæti ég hitt foreldra hennar og systkini og séð heimasveit hennar, sem ég vissi lítið um. Ég var nokkuð stressaður fyrir því að hitta foreldra hennar í fyrsta sinn og gista á heimili þeirra. Sá ótti reyndist óþarfur, þar sem Inga og Sigmar tóku mér opnum örmum frá fyrsta degi. Fyrir það verð ég ávallt mjög þakklátur.

Við Unnur höfum alltaf farið reglulega austur á Sauðhúsvöll í heimsókn og reynt að vera þar annaðhvort yfir jól eða áramót. Það eru margar minningarnar sem ég á þar sem við Inga sátum saman í eldhúsinu á Sauðhúsvelli yfir kaffibolla og ræddum saman. Inga var mjög glaðlynd kona og hafði gaman af því að ræða um lífið og tilveruna.

Hún var skoðanaföst og hreinskilin og hikaði ekki við að segja meiningu sína ef henni fannst þörf á.

Fjölskyldan var henni allt og sá hún alltaf til þess að allir í fjölskyldunni hefðu nóg í sig og á. Það var aðalsmerki hennar, hún hugsaði alltaf fyrst um alla aðra en sjálfa sig. Barnabörnin hennar þrjú áttu sérstakan stað í hjarta hennar.

Inga var frá Valþjófsstöðum í Núpasveit og ólst upp á Kópaskeri. Henni þótti vænt um heimasveit sína og talaði ávallt vel um hana. Árið 2008 útskrifaðist Unnur með burtfararpróf frá Söngskólanum í Reykjavík og af því tilefni hélt hún tónleika á Kópaskeri. Við Unnur ákváðum að nýta tækifærið og keyra hringinn í kjölfarið og kom Inga með okkur. Þessi ferð er mér mjög minnisstæð og sérstaklega sá tími sem við dvöldum á Kópaskeri og þar í kring. Inga var svo ánægð að vera komin aftur á heimaslóðir. Mér hefur alltaf þótt vænt um að hafa farið í þetta ferðalag með þeim mæðgum.

Árið 2017 greindist Inga með krabbamein og var það mikið reiðarslag fyrir alla í fjölskyldunni. Ljóst var snemma að sjúkdómurinn var langt genginn og lítið var hægt að gera annað en að halda honum í skefjum. Inga tókst á við sjúkdóminn af miklu æðruleysi og hélt áfram sínu striki.

En nú er komið að kveðjustund og kveð ég Ingu með söknuði í hjarta. Eftir lifir minning um yndislega móður, tengdamóður og ömmu. Takk fyrir allt.

Þorsteinn Eyþórsson.

Elsku tengdamamma. Ég kynntist þér ekki fyrr en á þínum efri árum. Alveg strax var gott og óþvingað að koma í heimsókn til þín í sveitina. Alltaf var maður svo velkominn og kaffið eins og í fermingarveislu. Þú varst iðjusöm og sjaldan mátti vera dauð stund. Náttúruunnandi og mikill dýravinur.

Þú dekraðir líka extra vel við barnabörnin. Það voru alltaf til ávaxtakaramellur í krukkunni fyrir þau og allt í lagi að stelast í þær og svo ís eftir matinn á sunnudögum. Þú safnaðir líka alls konar dóti saman fyrir krakkana í stórglæsilegt drullubú svo þau gætu dundað sér.

Öllum var tekið eins og þeir eru og þau fengu að vera óheft og frjáls. Já, það var ekki amalegt að koma í dekrið í sveitina.

Það verður mjög skrítið að koma í heimsókn þegar þig vantar. Þín verður saknað.

Takk fyrir samveruna.

Arnar Svarfdal

og fjölskylda.