Fjölbreytni Miklu máli skiptir að fjölbreyttar myndir verði fyrir valinu svo að sýningin verði sem fjölbreyttust, að sögn Kristins, en 836 ljósmyndir bárust.
Fjölbreytni Miklu máli skiptir að fjölbreyttar myndir verði fyrir valinu svo að sýningin verði sem fjölbreyttust, að sögn Kristins, en 836 ljósmyndir bárust. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ragnhildur Þrastardóttir ragnhildur@mbl.is Tæplega hundrað ljósmyndir frá liðnu ári eru á ljósmyndasýningunni Myndir ársins, sem opnuð verður almenningi í Ljósmyndasafni Reykjavíkur í dag.

Ragnhildur Þrastardóttir

ragnhildur@mbl.is

Tæplega hundrað ljósmyndir frá liðnu ári eru á ljósmyndasýningunni Myndir ársins, sem opnuð verður almenningi í Ljósmyndasafni Reykjavíkur í dag. Dómnefnd valdi myndirnar, sem eru alls 96 talsins, úr 836 innsendum myndum íslenskra blaðaljósmyndara.

Blaðaljósmyndarafélag Íslands stendur að sýningunni og segir Kristinn Magnússon, formaður félagsins, að sýningin sé mikilvæg fyrir blaðaljósmyndun hérlendis.

„Sýningin stuðlar að sýnileika blaðaljósmyndunar og heimildaþáttur þessarar sýningar er mjög mikill. Við gefum út bók samhliða árlega sem er myndaannáll yfir atburði þessa árs.“

Úr myndunum 96 valdi dómnefndin svo átta verðlaunamyndir, eina úr hverjum þeirra sjö flokka sem myndunum er skipt í, sem og eina verðlaunamynd sem er þá mynd ársins.

Flokkarnir sjö eru eftirfarandi: fréttamyndir, myndir af daglegu lífi, íþróttamyndir, portrettmyndir, umhverfismyndir, tímaritamyndir og myndaraðir.

Dómnefndin sem valdi myndirnar er skipuð sjö ljósmyndurum, sem flestir eru atvinnuljósmyndarar. Dómnefndin er óháð og skipuð af stjórn Blaðaljósmyndarafélags Íslands.

Arnaldur Halldórsson, Bragi Þór Jósefsson, Brynjar Gunnarsson, Kristinn Ingvarsson, Rut Sigurðardóttir, Sigríður Kristín Birnudóttir og Catalina Martin-Chico skipa dómnefndina.

Martin-Chico er formaður dómnefndarinnar, en hún er margverðlaunaður ljósmyndari af spænskum og frönskum ættum.

Spurður til hvers dómnefndin hafi litið þegar hún valdi myndirnar sem fengu að komast að á sýningunni sem og verðlaunamyndirnar segir Kristinn:

„Það er rosalega persónubundið í hvert skipti hvaða áherslur dómnefndin hefur. Hún fær þó alltaf leiðbeiningar frá okkur um það til hvers skuli líta, til dæmis til fjölbreytileika myndanna sem og atburðanna sem myndaðir eru. Þá er líka hugsað um heimildaskráninguna, sérstaklega í flokki fréttamynda, að þar séu bestu myndirnar frá stærstu viðburðum ársins. Það sem við leggjum upp með er því fjölbreytileiki, heimildaskráning og flottar myndir.“

Ný sýn á stóra atburði

Allur gangur er á því hvort myndirnar hafa áður birst í blöðum eða tímaritum.

„Ljósmyndurunum er frjálst að senda inn hvaða myndir sem er. Aðrar ljósmyndir en hafa birst í blöðunum hafa oft endað á sýningunni þótt þær séu af sömu atburðum,“ segir Kristinn.

Stundum birtist því ný sýn á þekkta atburði á þeim ljósmyndum sem er að finna á sýningunni.

Faraldur kórónuveiru hefur haft áhrif á sýninguna, en til að byrja með var óljóst hvort af henni yrði vegna takmarkana sem voru í gildi.

„Svo eru náttúrulega fjöldatakmarkanir á safninu, þar mega 40 manns vera í hvert skipti. Við höfum alltaf verið með opna verðlaunaafhendingu en nú var verðlaunaafhendingin bara fyrir þá ljósmyndara sem sendu inn myndir, þar sem það komast ekki mikið fleiri inn í safnið en það,“ segir Kristinn.

Ljósmyndasafn Reykjavíkur verður opnað klukkan 10 í dag og sýningin því samtímis. Sýningin stendur til 30. mars næstkomandi.