Anderlecht Arnór Guðjohnsen í búningi Anderlecht með belgíska meistarabikarinn á Constant Vanden Stock-leikvanginum í Brussel.
Anderlecht Arnór Guðjohnsen í búningi Anderlecht með belgíska meistarabikarinn á Constant Vanden Stock-leikvanginum í Brussel. — Ljósmynd/Anderlecht
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Arnór Kristján Jónsson kris@mbl.is Á þessum degi fyrir þrjátíu árum lék Arnór Guðjohnsen til úrslita með Anderlecht í Evrópukeppni bikarhafa gegn ítalska liðinu Sampdoria.

Arnór

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Á þessum degi fyrir þrjátíu árum lék Arnór Guðjohnsen til úrslita með Anderlecht í Evrópukeppni bikarhafa gegn ítalska liðinu Sampdoria. Ítalirnir höfðu betur en þeirra skærasta stjarna, Gianluca Vialli, skoraði bæði mörkin í 2:0 sigri á Ullevi-leikvanginum í Gautaborg. Morgunblaðið hafði samband við Arnór og bað hann að rifja upp þennan viðburð en hann hafði árið 1984 farið með Anderlecht í úrslit í UEFA-bikarnum þar sem liðið tapaði fyrir Tottenham. Eru þessir úrslitaleikir þeir stærstu á glæsilegum ferli Arnórs?

„Já, það má alveg segja það hvað varðar undirbúning og keppnina fram að úrslitaleik. Að komast alla leið í svona keppni og standa svo frammi fyrir svona úrslitaleik. Ég man að ég var aldrei eins einbeittur eins og fyrir leikinn gegn Sampdoria. Þegar við mættum Tottenham var ég að koma úr meiðslum og kom bara inn á í seinni leiknum. Sú upplifun var því öðruvísi. Varðandi minn feril með félagsliðum þá voru þetta stærstu leikirnir sem ég spilaði. Ekki síst út af umfanginu í kringum úrslitaleiki í Evrópukeppnum,“ sagði Arnór sem var nokkuð áberandi í úrslitaleiknum gegn Sampdoria sem sýndur var í beinni útsendingu hér heima og ógnaði einna mest marki ítalska liðsins. Anderlecht náði sér ekki nægilega vel á strik í leiknum að sögn Arnórs. Engu að síður þurfti að framlengja til að ná fram úrslitum.

Óþarfa spenna

„Maður fann einhvern veginn á liðinu að menn voru ekki að spila sinn besta leik. Var það örugglega út af spennunni. Ég man að ég var mjög ósáttur við þjálfarann í aðdraganda úrslitaleiksins vegna þess að hann myndaði einhverja spennu í kringum byrjunarliðið, hverjir ættu að byrja inni á og hverjir ekki. Það var einhver óþarfa spenna í þessu og liðið var ekki tilkynnt fyrr en kvöldið fyrir leik. Málið er að hann var ekki vanur að vinna hlutina með þessum hætti en gerði það allt í einu þarna.

Í búningsklefanum í hálfleik reyndu menn að peppa mannskapinn upp en þá fann maður einnig fyrir því að það var eitthvert óöryggi til staðar. Þar fyrir utan var Sampdoria klárlega betra liðið þegar leið á leikinn. Þar sem ég hafði tapað úrslitaleik með Anderlecht áður þá var ég alveg viss um að þarna yrði ég í sigurliði. Svekkelsið var því alveg gríðarlegt,“ rifjar Arnór upp.

Lið sem oft náði langt

Þann tíma sem Arnór var hjá Anderlecht var liðið ávallt vel mannað. Belgar voru með mjög sterkt landslið á þessum árum og slógu í gegn á HM í Mexíkó árið 1986 þegar þeir fóru í undanúrslit.

„Við vorum með geysilega sterkt lið. Ekki bara í Belgíu heldur á evrópskan mælikvarða. Við vorum örugglega á meðal fimm bestu liðanna í Evrópu. Sem dæmi þá sló Bayern München okkur út eitt árið en svo slógum við það út eitt árið en Bayern var þá eitt stærsta liðið í Evrópu fyrir utan kannski tvö bestu ítölsku liðin. Anderlecht hafði þrisvar unnið Evrópukeppni á árunum áður en ég kom til félagsins. 1976 og 1978 [Evrópukeppni bikarhafa] og voru nýkrýndir Evrópumeistarar þegar ég kom til félagsins eftir að hafa unnið [UEFA-bikarinn] 1983. Í þjálfarateyminu hjá okkur voru menn sem höfðu tekið þátt í úrslitaleikjum.“

Þögnin á Nývangi

Frammistöðu liðsins segir Arnór hafa verið sérlega svekkjandi því liðið hafði oft leikið mjög vel á tímabilinu og bendir á að liðið sló Barcelona út úr keppninni. Johan Cruyff var þá byrjaður að setja saman firnasterkt lið hjá Barcelona sem lék þrívegis til úrslita í Evrópukeppnum á fjórum árum.

„Við unnum Barcelona 2:0 í fyrri leiknum á heimavelli. Ég man að umfjöllunin um seinni leikinn var öll á þeim nótum að það ætti bara að slátra okkur. Forseti Barcelona lét út úr sér setningu sem gerði allt vitlaust. „Ef við þurfum að fótbrjóta þá til að komast áfram þá gerum við það.“ Setti þetta viðvörunarbjöllur af stað hjá UEFA og það voru nokkrir eftirlitsmenn á leiknum til að allt færi eðlilega fram. Fyrir utan úrslitaleikinn var þessi leikur eftirminnilegastur enda hafði Barcelona unnið keppnina 1989. Þeir voru með Ronald Koeman í vörninni, Michael Laudrup var kominn og Guardiola var þarna ungur leikmaður þótt ég þori ekki að fullyrða að hann hafi spilað.

Camp Nou tók enn fleiri áhorfendur þá en hann gerir í dag og voru 105 þúsund manns á vellinum. Ég gleymi þessu aldrei og tilfinningin var eins og þrengt væri að manni. Ég hafði aldrei heyrt þvílíkan hávaða í áhorfendum eins og þegar Barcelona skoraði fyrsta mark leiksins. Mig langaði að taka fyrir eyrun þótt maður geri það náttúrlega ekki. Þegar þeir skoruðu svo annað varð hávaðinn ennþá verri. Leikurinn fór svo í framlengingu og þá skoruðum við. Því augnabliki gleymi ég aldrei því þá tók bara við þögn. Þetta var bara rothögg. Þögnin hjá þessum mannfjölda var eiginlega óhugnanlegri en hávaðinn. Reyndar fylgdu okkur fjögur þúsund stuðningsmenn til Barcelona en maður bara rétt heyrði í þeim,“ sagði Arnór og hlær að minningunni.

„Þetta var magnaður leikur og í raun ótrúlegt að hafa komist í gegnum þá enda voru þeir eitt allra besta lið Evrópu. Cruyff var þarna að koma inn með þann leikstíl sem menn eru þekktir fyrir hjá Barcelona í dag,“ sagði Arnór Guðjohnsen í samtali við Morgunblaðið en leikurinn fyrir þrjátíu árum markaði tímamót á ferli Arnórs því hann var sá síðasti sem Arnór spilaði fyrir Anderlecht.

• Frekari upprifjun og spjall við Arnór er að finna í grein á mbl.is.

9. maí 1990

» Arnór Guðjohnsen var fastamaður í liði Anderlecht sem lék til úrslita í Evrópukeppni bikarhafa í knattspyrnu.
» Eftir að hafa slegið út Ballymena United, Barcelona, Admira Wacker og Dinamo Búkarest.
» Anderlecht mætti Sampdoria í úrslitaleik í Gautaborg og hafði ítalska liðið betur 2:0 eftir framlengdan leik.
» Anderlecht komst tvívegis í úrslit í Evrópukeppnum á þeim sjö árum sem Arnór var hjá félaginu.