Arngrímur Stefánsson
Arngrímur Stefánsson
Eftir Arngrím Stefánsson: "Ferðavenjur mínar eru ekki nærri eins gjafmildar og hjá ferðamönnum."

Nú hefur mikið verið rætt um að hvetja til ferða Íslendinga innanlands til að halda við ferðamannaiðnaðinum í sumar, í von um að næsta ár verði betra. Skiljanlega er mögulega einhver búbót á ferðinni en ég er hræddur um að innlendir ferðamenn gefi lítið í aðra hönd.

Ég ætla nefnilega sjálfur að ferðast mikið innanlands, en venjur mínar, og ég ætla að reikna með að venjur meðaljónsins séu svipaðar mínum eigin, eru ekki nærri eins gjafmildar og hjá ferðamönnum. Ég nota því sjálfan mig sem eins konar staðgengil meðaljónsins.

Í fyrsta lagi fer ég ekki í lundabúðir. Það gerir meginþorri Íslendinga ekki heldur. Minjagripaverslanir munu því ekki græða mikið.

Í öðru lagi ferðast ég um með fellihýsi í eftirdragi. Íslendingar gera það flestir, þótt sumir hafi tjöld meðferðis og aðrir hjólhýsi, ef efni leyfa. Það er mun skemmtilegra en að gista á hóteli, enda getur maður valið gististaðinn svolítið sjálfur, og er einnig mun ódýrara. Auk þess grillar maður í útilegum og ferðalögum. Hótelin munu því ekki njóta mjög góðs af innlendum ferðamönnum.

Í þriðja lagi kaupi ég birgðir í lágvöruverslunum þegar ég ferðast innanlands. Ég forðast kaffihúsin eins og heitan eldinn (eða heitar lummur, með rúsínum!) þótt ég láti það ef til vill eftir börnunum að fara einu sinni á veitingahús, þá oftast í ódýrari kantinum, enda vilja öll börn frekar ódýra pítsu/hamborgara en nautalund. Kaffihús og veitingahús hafa því ekki mikið upp úr innlendum ferðamönnum.

Í fjórða lagi ferðast ég um á eigin bíl, svo rútufyrirtækin eru ekki líkleg til að græða.

Í fimmta lagi tala ég reiprennandi ensku, svo ég þarf ekki leiðsögumann til að túlka fyrir mig þurfi ég að ræða við afgreiðslufólk á fjölförnum ferðamannastöðum. Ég tala jafnvel líka íslensku, skyldi ég þurfa á henni að halda.

Hins vegar mæli ég með því að veitingahús/hótel/rútufyrirtæki/leiðsögumenn reyni að semja við dvalarheimili aldraðra, skóla/foreldrafélög og önnur félagasamtök um pakkaferðir. Það eru einu tilvikin þar sem ég sé fyrir mér að hægt sé að veita viðskipti til téðra fyrirtækja. Það er þó auðvitað algerlega háð því að ekki komi bakslag í faraldurinn í maí. Þess vegna vil ég biðja fólk að fara með gát þegar samkomubanni lýkur, svo að mögulega megi bjarga einhverjum fyrirtækjum frá gjaldþroti í ár.

Ákveðið var að fjárfesta í auglýsingum á samfélagsmiðlum. Það er ef til vill ekki besti kosturinn til að stuðla að hópaferðum. Frekar væri að fá fjármagn til elliheimila og skóla til þess að fara í téðar hópaferðir, styrktar af ríkinu. Börn og gamalmenni fengju afþreyingu og ferðamannaiðnaðurinn fengi innspýtingu.

Höfundur er guðfræðingur.