Svanhildur fæddist 15. mars 1931 á Víðidalsá í Hólmavíkurhreppi. Hún lést á LHS 4. apríl 2020.

Hún ólst upp hjá móður sinni, ömmu og Einari fóstra sínum í Tungugröf, auk þess að vera hjá Jóhönnu og Halli í Tröllatungu þegar móðir hennar fór í skóla að Laugum í Þingeyjarsýslu.

Foreldrar: Karólína S. Sumarliðadóttir, f. 21.6. 1912, d. 12.4. 1994, og Sigurður Helgason, f. 21.8. 1895, d. 10.11. 1975. Alsystir María Guðrún Sigurðardóttir, f. 10.9. 1938, d. 1.2. 2002. Systkini samfeðra; Margrét, f. 1918, Björn, f. 1919, Helgi, f. 1921, Benedikt, f. 1922, Sigríður, f. 1924, Jón, f. 1927, Jónatan, f. 1929, Þuríður Sigurrós, f. 1931, Maggi Sigurkarl, f. 1933, Haukur Heiðdal, f. 1936. Þau eru öll látin. Fóstursystur Alda Jensdóttir, f. 1933, látin. Guðrún Jensdóttir, f. 5.9. 1936, maki Halldór Steingrímsson.

Hinn 27.12. 1951 giftist hún Jóni Guðna Daníelssyni, f. 25. apríl 1923, d. 13. janúar 1982. Foreldrar hans voru Ragnheiður J. Árnadóttir, f. 25. júní 1890, og Daníel Ólafsson, f. 8. okt. 1894, bændur í Tröllatungu. Börn Svanhildar og Jóns; Aðalbjörn Þ., f. 13.3. 1951, maki Anna Torfadóttir, f. 10.11. 1953. Synir Önnu; Kristján K. Júlíusson, f. 1972, maki Lucyna Gnap, eiga þau 1 barn. Ketill M. Júlíusson, f. 1973, maki Elín B. Birgisdóttir, eiga þau 3 börn. Jóhann H., f. 16.9. 1952, maki Evlalía S. Kristjánsdóttir, f. 1.6. 1951. Börn; Salvar Ó. Sveinsson, sonur Evlalíu f. 1973, maki Guðrún Á. Einarsdóttir, Salvar á 2 börn frá fyrra sambandi. Jón S. Jóhannsson, f. 1974, maki Hulda S. Hólm, eiga þau 4 börn og 1 barnabarn. Kristján H. Jóhannsson, f. 1979, maki Jessica Jóhannsson, eiga þau 2 börn. Ragnar K. Jóhannsson, f. 1982, maki Sigurlaug H. Traustadóttir, eiga þau 3 börn. Daníel H., f. 9.7. 1954, maki Margrét Emilsdóttir, skilin. Börn þeirra; Berglind K. Daníelsdóttir, f. 1981, maki Víðir Ö. Gunnarsson, eiga þau 4 börn, Freydís Ó. Daníelsdóttir, f. 1982, maki Hjörtur Traustason, eiga þau 3 börn. Kjartan G. Daníelsson, f. 1985, maki E. Ebba Gunnarsdóttir, eiga þau 4 börn. Björgvin P. Daníelsson, f. 1992, unnusta Sóley H. Guðbjörnsdóttir. Snædís L. Daníelsdóttir, f. 1995. Sambýliskona Daníels, Soffía S. Jónsdóttir, f. 2.5. 1962. Karólína G., f. 16.10. 1955, maki Halldór Gunnarsson, f. 11.12. 1946. Börn; Svanhildur J. Áskelsdóttir, f. 1975, maki Kristján Á. Kristjánsson, eiga þau 3 börn. Fanney I. Halldórsdóttir, f.1977, maki Jakob Einarsson, eiga þau 3 börn. Gunnar O. Halldórsson, f .1979. Maki Sólrún H. Heiðarsdóttir, eiga þau 3 börn. Friðrik Þ. Halldórsson, f. 1983, maki Dagný L. Sigurðardóttir, skilin, eiga þau 2 börn. Hafrún L. Halldórsdóttir, f. 1990, maki Kári Þorleifsson, eiga þau 3 börn. Hlynur F. Halldórsson, f. 1994, maki Perla Ö. Jónsdóttir, eiga þau 1 barn. Bergþór G., f. 24.7. 1962.

Svanhildur gekk í farskóla í sveitinni eins og þá tíðkaðist og fór síðan í Húsmæðraskólann á Löngumýri.

Svanhildur og Jón hófu búskap í Tröllatungu 1950 í félagsbúi við foreldra Jóns og tvo bræður hans, hún var virk í kvenfélagi Tungusveitar. Vorið 1965 keyptu þau Ingunnarstaði í Geiradal og þar bjuggu þau til haustsins 1981 þegar þau fluttu til Patreksfjarðar. Svanhildur sinnti öllum almennum bústörfum meðan hún bjó á Ingunnarstöðum auk þess að vera ráðskona í sláturhúsi Kaupfélags Króksfjarðar nokkur haust. Hún var virk í kvenfélagi sveitarinnar. Eftir að þau Jón fluttu á Patreksfjörð vann hún við fiskvinnslu í Odda hf. þar til hún lét af störfum vegna aldurs. Á Patreksfirði gekk hún einnig í kvenfélagið Sif, eins var hún virk í starfi eldri borgara á Patreksfirði.

Jarðsett verður frá Patreksfjarðarkirkju í dag, 9. maí 2020, klukkan 14. Streymt er frá útförinni á YouTube. Slóð á streymið: youtu.be/JCIVOyQ3VoU. Slóðina má einnig nálgast á www.mbl.is/andlat.

Í dag verður elsku Svana amma lögð til hinstu hvílu. Ég var svo lánsöm að fá að eiga margar gæðastundir með ömmu, sérstaklega þegar ég var yngri. Ég var alltaf mikil ömmustelpa og var tíður gestur hjá henni á Aðalstrætinu og fékk oft að gista. Við sátum þá og dunduðum okkur eitthvað með handavinnu, en áhugi minn á handavinnu er örugglega frá ömmu kominn, enda var það hún sem kenndi mér handtökin. Amma átti alltaf eitthvað í pokahorninu sem ég mátti dunda mér með, garnafganga til að prjóna og hekla dúkkuföt, eða efnisbúta sem ég mátti nota til að æfa mig á saumavélina. Amma átti yfirleitt eitthvert heimabakað góðgæti í frystinum og bakaði heimsins bestu pönnukökur.

Eftir að ég flutti á höfuðborgarsvæðið reyndi ég alltaf að hitta ömmu þegar hún var á ferðinni, hún kom í heimsókn og við kíktum saman í búðir. Eftir að ég flutti til Danmerkur hitti ég hana ekki eins oft, hún kom þó í heimsókn til okkar árið sem hún varð áttræð og við áttum nokkra góða daga saman. Ég var svo heppin að fá að eiga nokkra daga með ömmu síðastliðið haust þegar við vorum á Íslandi til að halda upp á ferminguna hennar Dagnýjar og er ég afar þakklát fyrir þann tíma.

Það var mjög skrítið að fá ekki símtal frá ömmu á afmælinu mínu, en hún mundi afmælisdaga allra afkomenda sinna og maður gat alltaf treyst á að fá afmælissímtal frá henni. Ég á eftir að sakna símtalanna frá henni, við spjölluðum oft lengi saman um allt milli himins og jarðar.

Hvíl í friði, elsku amma, þín er sárt saknað

Svanhildur Jónný Áskelsdóttir.

Elsku amma, það er ótrúlega erfitt að skrifa þessi orð til þín. Ég trúi því varla að þú sért farin en veit að þú ert sátt að vera komin til afa, sem fór allt of snemma. Mér er minnisstætt þegar Halldór minn var eitt sinn hjá þér á Brunnunum og sá að loftið í eldhúsinu var orðið heldur lélegt. „Amma, getur þú ekki bara prjónað þetta saman?“ sagði hann, enda sannfærður um að amma Prjóna, eins og hann kallaði þig alltaf, gæti prjónað hvað sem var. Þannig er og verður það alltaf í mínum huga, elsku amma Svana gat einfaldlega allt. Ef mig vantaði aðstoð leitaði ég alltaf til þín, og alltaf gafst þú réttu ráðin. Ég átti það til að „gleyma“ handavinnunni minni hjá þér. Næst þegar ég leit við var hún bara tilbúin og þá slapp ég við að gera það sem ég þóttist ekki kunna. Ég kunni það alveg en bara fannst betra að þú gerðir það. Árin sem ég bjó á Barðaströnd komst þú og gerðir slátur með mér (það var eitt af því sem að ég þóttist ekki kunna) og voru það dásamlegar stundir. Oftar en einu sinni kom Kobbi seint heim og ég sagði honum að hann gæti bara hitað matinn sinn sjálfur. Það fannst þér ekki nógu gott og varst ekki lengi að gefa honum heitan mat. Ég verð seint talin mikil handavinnukona en það sem ég kann kenndir þú mér. Fyrir nokkrum dögum sat ég með prjónana og rakti upp villu sem ég efast þó um að nokkur hefði rekið augun í. En mér varð hugsað til þín og brosti við tilhugsunina um að þú hefðir alltaf látið mig laga þetta. Mér fannst alltaf vænt um það þegar þú hældir mat eða bakkelsi sem ég færði þér, því þú varst hrein og bein og maður gat treyst því að þú segðir þína skoðun. Sérstaklega átti þetta við þegar ég spreytti mig á ástarpungum og pönnukökum, því enginn stóðst þér snúning í þeim fræðum. Eitt sinn bakaði ég pönnukökur og taldi þær ágætlega heppnaðar, allt þar til Oddur Aðalbjörn minn kom að smakka og lét þessi orð falla í kjölfarið: „Mamma, ég get svo sem alveg fengið mér eina vonda há þér, en amma lang gerir bestu pönnukökurnar.“ Þú varst svo stolt þegar Díana Sól gekk í kvenfélagið í vetur og ekki síður þegar ég var kosin formaður félagsins. Þú varst svo stolt af öllum þínum afkomendum og fylgifiskum, alltaf með puttann á púlsinum og með það á hreinu hvað hver og einn var að gera í lífinu. Í vetur fórum við saman á Ísafjörð til að fylgja frænda þínum til grafar. Færðin var ekki góð og hafði ég á orði að við hefðum frekar átt að keyra í myrkri um morguninn, því þá hefði ég ekki séð hvað það var mikil hálka. Tveimur dögum síðar hringdir þú og baðst mig að koma snöggvast yfir til þín. Varstu þá búin að föndra skraut í bílinn minn, með eftirfarandi bæn:

Blessaðu, Drottinn, bílinn minn,

bjargaðu mér frá skaða,

lát mig velja veginn þinn

og vera á réttum hraða.

Ég skildi alveg sneiðina. Ég á svo ótrúlega margar minningar um þig og gæti skrifað endalaust, en læt þetta duga. Elsku amma, takk fyrir allt. Ég veit að þú ert sátt hjá elsku Jóni afa.

Þín

Fanney Inga.

Elsku amma mín. Tilfinningin um að eiga þig ekki að er nánast óbærileg, en minningarnar um allt sem við gerðum saman hugga mig. Ég er svo ánægð að börnin mín hafi fengið að kynnast þér, þú varst þeim svo góð. Í 30 ár varstu í lífi mínu og alltaf til staðar fyrir mig og mína. Oft á tíðum hafðir þú áhyggjur af mér þegar ég var á fullu í skóla og barneignum. Þá hringdir þú oft bara til þess að athuga hvernig gengi. Þú varst skilningsrík og svo gott að tala við þig.

Ég er svo innilega þakklát fyrir þennan tíma sem við fengum saman og hann nýttum við vel í samveru sem síðar breyttust í mjög regluleg símtöl þegar ég flutti frá Patreksfirði. Það þótti stundum sérstakt þegar ég var í menntaskóla og eyddi heilu kvöldunum í að tala við þig, ömmu mína. En ég þekkti ekkert annað en að geta ráðfært mig við þig. Á síðari árum varst þú gjörn á að hringja í mig til að fá ýmsar ráðleggingar, hafðir fulla trú á því að ég hefði svör fyrir þig. Þú varst dugleg að segja mér hversu mikið þú saknaðir þess að hafa mig ekki nær þér og var sá söknuður svo sannarlega gagnkvæmur.

Ég hefði svo viljað geta eytt meiri tíma með þér síðustu ár, koma oftar í heimsókn og fá mér þunnt kaffi og nýbakað bakkelsi með þér. Það voru sannkallaðar gæðastundir fyrir okkur báðar.

Ég á þér mikið að þakka varðandi lærdóm, kom nánast alltaf til þín eftir skóla í nokkur ár. Þú varst mjög strangur kennari en það skilaði árangri og ekki skemmdi fyrir að koma alltaf í heitan mat eftir skóla.

Það er mér ómetanlegt að þú gerðir þér ferð alla leið til Akureyrar til að vera viðstödd útskrift mína úr Háskólanum 2017. Þig hafði svo lengi langað að koma til mín. Þú fórst í ógleymanlegan bíltúr með Kára þar sem þið gerðuð mikla leit að húsinu sem þú dvaldir í hér á Akureyri fyrir mörgum áratugum. Þú talaðir oft um tímann fyrir norðan og mundir allt eins og það hefði gerst í gær. Þú varst svo glöð eftir rúntinn og Kári margs vísari um Akureyri fyrri tíma.

Í mínum huga var ekkert sem þú gast ekki gert. Trú mín á handavinnuhæfileikum þínum var takmarkalaus, enda fékkstu alls konar pantanir frá mér. Útkoman var alltaf nákvæmlega eins og ég sá fyrir mér, jafnvel betri. Allar flíkurnar sem þú lagfærðir fyrir mig komu til baka eins og nýjar, þótt þú tilkynntir mér gjarnan að þetta væri nú ekki nógu vel gert.

Síðasta símtalið okkar var í styttri kantinum, sennilega ekki nema tæp klukkustund. Þá ræddir þú vanlíðan þína síðustu daga en varst alveg hörð á því að það væri nú sennilega bara leti sem væri að hrjá þig. Síðustu ár reyndir þú oft að sannfæra mig um að þú værir löt. Þá komst þú ekki öllu í verk sem þú hafðir ætlað þér, en í mínum augum varst þú duglegasta kona sem ég þekkti. Man ég aldrei eftir að hafa komið í heimsókn til þín án þess að þú gætir boðið mér eitthvað nýbakað, værir með mat á eldvélinni og sitthvað af handavinnu í vinnslu við sjónvarpið.

Elsku amma, þú ert ein af stærstu fyrirmyndum mínum. Ég mun ætíð sakna þín.

Hafrún Lilja.