Ari Kristinn Jónsson
Ari Kristinn Jónsson
Aron Þórður Albertsson aronthordur@mbl.is „Það skiptir auðvitað öllu máli að hafa fjölbreyttar leiðir til að skapa gjaldeyri og verðmæti.

Aron Þórður Albertsson

aronthordur@mbl.is

„Það skiptir auðvitað öllu máli að hafa fjölbreyttar leiðir til að skapa gjaldeyri og verðmæti. Eins og við Íslendingar þekkjum einna best geta hlutir breyst hratt og því er mikilvægt að vera með fleiri stoðir til að minnka höggið,“ segir Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík (HR). Vísar hann í máli sínu til höggsins sem þjóðarbúið hefur orðið fyrir sökum áhrifa og útbreiðslu kórónuveirunnar. Munar þar mest um skarðið sem ferðaþjónustan skilur eftir sig.

Tækifærin eru til staðar

Að sögn Ara er mikilvægt að horfa nú til framtíðar og kanna hvaða leiðir eru færar við sköpun útflutningsverðmæta. Ljóst er að horfa verður til fleiri leiða en eingöngu ferðaþjónustu, sem ásamt sjávarútvegi hefur staðið undir miklum meirihluta gjaldeyrisöflunar þjóðarinnar. Þó þurfi einnig að tryggja að ferðaþjónustan rísi upp úr öskunni.

„Við verðum að nýta þetta tækifæri til að byggja upp fjölbreyttari útflutningsverðmæti. Auðvitað verðum við líka að byggja aftur upp ferðaþjónustuna, en samhliða því búum við til fleiri stoðir,“ segir Ari.

Styðja verður við nýsköpun

Spurður innan hvaða geira hann sjái einna mest tækifæri segir Ari ýmislegt koma til greina. Allt frá ylrækt til heilbrigðistækni. „Það verður alltaf eftirspurn eftir matvælum. Hreinar afurðir frá Íslandi hafa jákvæða ímynd og við getum verið stolt af þeim matvælum sem héðan koma. Þá getum við einnig horft til skapandi greina á borð við tölvuleiki eða kvikmyndaframleiðslu. Að auki má nefna greinar á borð við hátækni og heilbrigðistækni,“ segir Ari og tekur fram að mikilvægt sé að styðja við menntun fólks auk þess að tryggja gott umhverfi fyrir nýsköpun.

„Þetta snýst um að hafa umgjörð og mannafla sem getur skapað verðmæti. Við þurfum einnig að auðvelda fólki að stofna eigin fyrirtæki og rekstur. Við viljum í framhaldinu að sem fæstar hendur skapi sem mest verðmæti,“ segir Ari.

Aðspurður segir Ari að HR muni halda áfram að bjóða upp á fjölbreytt tækifæri til menntunar. Fólki stendur nú til boða að skrá sig í styttri námskeið auk þess sem boðið verður upp á námsbrautir með áherslu á nýsköpun. Þar að auki mun skólinn halda áfram að bjóða upp á námsleiðir þar sem lögð er áhersla á frumkvöðlahugsun.