Varnarbúnaður Mjög hefur dregið úr smitum kórónuveiru hér á landi.
Varnarbúnaður Mjög hefur dregið úr smitum kórónuveiru hér á landi. — Morgunblaðið/Eggert
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is COVID-19, alþjóðlega heitið á þeim sjúkdómi sem kórónuveiran veldur, hefur stimplað sig inn í málvitund Íslendinga. En þótt flestir viti merkingu orðsins er deilt um ritháttinn.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

COVID-19, alþjóðlega heitið á þeim sjúkdómi sem kórónuveiran veldur, hefur stimplað sig inn í málvitund Íslendinga. En þótt flestir viti merkingu orðsins er deilt um ritháttinn.

Á ensku nefnist sjúkdómurinn coronavirus disease 2019. Misjafnt er hvernig fjölmiðlar heims hafa ritað skammstöfunina. Þannig hafa sumir notast við COVID, aðrir Covid og enn aðrir covid. Þá hefur jafnvel CoviD sést á blaði.

Jóhannes B. Sigtryggsson, rannsóknarlektor á málræktarsviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, segir stundum enga eina góða lausn í augsýn. Nauðsynlegt sé þó að velja einn rithátt til að tryggja stöðugleika.

„Þetta er dálítið vandræðaorð og reglur um skammstafanir eru ekki eins hjá okkur og í ensku. Það má kannski líkja þessu við SARS sem líka var stytt í HABL á sínum tíma. Það var ritað með hástöfum en kannski aðeins einfaldara því SARS stendur fyrir Severe Acute Respiratory Syndrome en í tilfelli COVID eru stafirnir C og D upphafsstafir orða. Að rita COVID með hástöfum er skásta leiðin,“ segir hann og bendir á að ekki séu ritaðir punktar í skammstöfunum sem ritaðar eru með hástöfum, s.s. HÍ, BHM, HABL og SARS.

Þá segir Jóhannes læknisfræðileg hugtök almennt rituð með litlum upphafsstaf, óháð því hvort þau eru dregin af sérheiti eða ekki. Dæmi um þetta er asíuflensa, stokkhólmsheilkennið og stórabóla. COVID sé hins vegar skammstöfun og fellur því ekki undir þá reglu.

Á samfélagsmiðlum leggja menn yfirleitt áherslu á orð sín með því að rita þau í hástöfum, eins konar öskur í netheimum. „En ef menn vilja fylgja ritreglum þá er engin önnur góð lausn en að nota hástafi.“

U í stað a

Nokkuð hefur borið á því að ritað sé kórónaveira og fyrri hluti orðsins þannig látinn vera óbeygður. Jóhannes segir hins vegar eðlilegra að beygja hann, þ.e. kórónuveira, enda vísar útlit veirunnar til kórónu eða krans.

„Þótt við höfum kórónafötin þá er það meira vörumerki frá þeim tíma sem menn beygðu ekki. Varðandi kórónuveiru þá er engin ástæða fyrir því að beygja ekki orðið,“ segir Jóhannes.