Upplýsingafundur Þórólfur Guðnason segir að ákvörðun um sóttkví ferðalanga verði að taka með tilliti bæði til heilbrigðis- og efnahagslegra sjónarmiða.
Upplýsingafundur Þórólfur Guðnason segir að ákvörðun um sóttkví ferðalanga verði að taka með tilliti bæði til heilbrigðis- og efnahagslegra sjónarmiða. — Ljósmynd/Lögreglan
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Snorri Másson Jóhann Ólafsson Ragnhildur Þrastardóttir Ekkert nýtt tilfelli kórónuveiru var tilkynnt í gær og hafa því einungis þrjú smit veirunnar verið greind það sem af er maímánuði. Smit af veirunni hafa einnig verið greind án sýnatöku hérlendis.

Snorri Másson

Jóhann Ólafsson

Ragnhildur Þrastardóttir

Ekkert nýtt tilfelli kórónuveiru var tilkynnt í gær og hafa því einungis þrjú smit veirunnar verið greind það sem af er maímánuði.

Smit af veirunni hafa einnig verið greind án sýnatöku hérlendis. Sýnataka er ekki alltaf nauðsynleg heldur er klínísk athugun í sumum tilfellum látin duga, að sögn Más Kristjánssonar, yfirlæknis smitsjúkdómadeildar Landspítalans.

Slík klínísk athugun getur farið þannig fram hjá nokkurra manna fjölskyldu að veikindi eru staðfest með sýnatöku hjá tveimur en einfaldlega ályktað um veikindi hjá öðrum fjölskyldumeðlimum, það er að segja ef þeir sýna sömu einkenni. Þannig er gengið út frá því að þeir hafi fengið sjúkdóminn, án þess að endanlega sé gengið úr skugga um það með sýnatöku. Samkvæmt heimildum mbl.is hefur slík klínísk athugun jafnvel verið tekin fram yfir sýnatöku og fólk því verið greint með veiruna vegna einkenna þrátt fyrir að veirusýni reynist neikvætt.

Starfshópur skoðar opnun

Á upplýsingafundi almannavarna sem fram fór í gær sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að hann myndi leggja til við heilbrigðisráðherra að ráðstafanir varðandi farþega sem koma hingað til landsins yrðu framlengdar en þær falla úr gildi 15. maí.

Ef það gengur eftir munu allir sem koma til landsins, bæði ferðalangar og heimamenn, áfram fara í tveggja vikna sóttkví við komuna.

Þórólfur sagði að ákvörðunina yrði að taka með afstöðu til heilbrigðis- og efnahagslegra sjónarmiða. Hann horfi á málið út frá heilsufarslegum sjónarmiðum en ljóst er að á einhverjum tímapunkti þurfi að opna landamærin. Sérstakur starfshópur skoðar mögulega opnun landamæranna.

Í viðtali við Morgunblaðið sem birtist á fimmtudag sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra að brýnt væri að opna landið á ný. Efnahagslífið mun ekki ná fyrri styrk nema landamærin verði opnuð að nýju, að sögn Guðlaugs.