[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is „Það er sennilegt að raungengið sé orðið heldur lágt eins og það er núna og meira sem bendir til að það muni frekar þokast eitthvað upp á við á næstunni heldur en hitt.“ Þetta segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, þegar hann er spurður út í þróun gengis íslensku krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum að undanförnu.

Baksvið

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

„Það er sennilegt að raungengið sé orðið heldur lágt eins og það er núna og meira sem bendir til að það muni frekar þokast eitthvað upp á við á næstunni heldur en hitt.“ Þetta segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, þegar hann er spurður út í þróun gengis íslensku krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum að undanförnu.

Á síðustu níu mánuðum hefur krónan veikst um ríflega 22% gagnvart breska pundinu, 19,4% gagnvart dollar og 15,4% gagnvart evru.

„Það kemur ekki á óvart að stóru myntirnar styrkist í þessum aðstæðum og að minni myntir gefi eftir. Fjárfestar leita í stóru myntirnar sem hafa öruggan seljanleika.“

Olían hefur áhrif í Noregi

Spurður út þróun norsku krónunnar, sem hefur verið rykkjótt, segir hann að hún hafi markast mjög af olíumarkaðnum sem norska hagkerfið byggir í svo ríkum mæli á. Þá segir hann í sjálfu sér ekki koma sér á óvart að evran hafi ekki styrkst jafn mikið og dollari eða pundið. Það kunni ekki aðeins að skýrast af því að stór Evrópuríki á borð við Ítalíu og Spánn hafi orðið illa úti vegna kórónuveirunnar heldur einnig af því að staða hagkerfa þessara ríkja hafi verið veikburða fyrir faraldurinn. Þá segir Jón Bjarki að fleiri utanaðkomandi þættir, sem hafi ekki beint með íslenska hagkerfið að gera, hafi áhrif á gengi krónunnar.

„Fjárfestingarsjóðir eru að verða fyrir tapi og þá er í mörgum tilvikum talsvert útflæði úr þeim vegna þess að fólk er að kippa fjármunum sínum út úr þeim. Þeir neyðast þá til að selja. Það hefur áhrif á ákvarðanir þeirra um að hverfa út úr hagkerfinu hér heima.“

Stóð stöðug í fyrra

Bendir Jón Bjarki á að gengi krónunnar hafi í raun staðið nokkuð stöðugt í gegnum árið 2019 þrátt fyrir að blikur hafi verið á lofti.

„Það hreyfðist í raun lítið og sennilega hefur verið kominn uppsafnaður þrýstingur á lækkun. Það hafa eflaust einhverjir haldið í krónur en farið af stað út úr kerfinu þegar lækkunin hófst þar sem þeir hafa ekki viljað sitja eftir.“

Jón Bjarki segir að þegar litið sé aftur til fyrri gengissveiflna, t.d. árið 2001, í litlu bankakreppunni 2006 og eins þegar krónan gaf eftir þegar erfiðleikar WOW air mögnuðust á árinu 2018 komi í ljós ákveðin fylgni.

„Við virðumst oft sjá fall krónunnar sem varir í tvo til fjóra mánuði en svo tekur hún aftur við sér og nær nýju jafnvægi.“Jón Bjarki ítrekar að mikil óvissa sé uppi um þróun gengisins á komandi mánuðum, rétt eins og aðrar hagstærðir.

„Svo lengi sem við verðum ekki fyrir varanlegu tjóni á hagkerfinu þá hefur þessi veiking styrkt samkeppnisstöðu okkar og ef við sjáum fram á nettó-innflæði þegar ferðaþjónustan tekur aftur við sér þá mun krónan styrkjast.“

Flökt
» Gengisvísitala íslensku krónunnar er á svipuðum slóðum nú og í árslok 2014.
» Vísitalan stendur nú í 208 en fór hæst í 250 í desember 2008.
» Vísitalan er því tæplega 17% lægri nú en þegar hún fór hæst í kjölfar falls bankanna.