Breiðholtskirkja.
Breiðholtskirkja. — Ljósmynd/Vigdís Pálsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég sé fagrar dyggðir skína víða í kringum mig. Dyggðir eins og visku, þekkingu, hugrekki, staðfestu og miskunnsemi.

Þakkið Drottni, því að hann er góður, miskunn hans varir að eilífu.“

Þessa dagana er mikið og einlægt þakklæti í mínum huga. Ég var að eignast mitt fimmta barnabarn, lítinn dreng. Og hann er fallegasti drengur í heimi. Þegar ég tjái fólki þetta, sérstaklega öfum og ömmum, kemur bros og þau segja góðlátlega: „Velkominn í hópinn.“

Í annan stað er ég svo þakklátur fyrir hve vel hefur tekist að hemja farsóttina. Ég er þakklátur fyrir stjórnvöld, sem leyfðu sóttvarnalækni og landlækni undir styrkri forystu ríkislögreglustjóra að ráða ferðinni. En umfram allt er ég þakklátur fyrir þá mannúð og mannhelgi, sem kemur fram í stefnu þríeykisins. Þeim hefur tekist að marka stefnu sem virðir hið veika og fatlaða til jafns við hið sterka og heilbrigða. Skjaldborg hefur verið reist um þau sem eru veikust fyrir, aldraða og þau sem eru með undirliggjandi sjúkdóma. Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með heilbrigðisþjónustunni um allt land. Það er svo greinilegt að allir, jafnt stjórnendur sem vaktmenn, hafa einhent sér í verkefnið og hvergi dregið af sér. Fyrir það ber að þakka. Vissulega höfum við ekki enn séð hvernig þjóðfélagið muni fara út úr þessari farsótt. En við höfum þegar séð hvernig hægst hefur á sóttinni. Og miðað við viðbrögð stjórnvalda og stefnu, þá vonumst við til þess að tjón verði lágmarkað og það takist að halda heimilunum á floti.

Í þeim vanda sem við höfum staðið frammi fyrir hafa margir lyft bæn sinni til Guðs. Það hefur verið heiður að fá að biðja Guð að blessa og leiða heilbrigðisstarfsfólk og sjúkraflutningamenn í krefjandi og hættulegum aðstæðum. Við í kirkjunni tókum það alvarlega að vera beðin um að biðja dag hvern. Og það höfum við gert í fjölmörgum söfnuðum um allt land. Í samkomubanni hafa helgistundir og guðsþjónustur verið sendar út á netinu og ánægjulegt hvað áhorf reynist mikið. Ég veit einnig að frá kirkjunum er reglulega hringt í þau sem hafa tekið þátt í kirkjustarfinu til að fylgjast með líðan og heyra hvernig gengur. Það er mikilvæg þjónusta og fyrir það ber að þakka.

Ég sé fagrar dyggðir skína víða í kringum mig. Dyggðir eins og visku, þekkingu, hugrekki, staðfestu og miskunnsemi. Það er fagur vitnisburður. Ég hef einnig séð dyggðirnar trú, von og kærleika blómstra. Trúna á góðan Guð, sem leiðir í gegnum erfiðleika og hættur. Vonina sem sér ljósið og sumarið handan myrkurs og vetrarkulda. Og kærleika sem svo víða kemur fram í verkum fólks. Ekki endilega því stóra, heldur einnig í því hvernig við komum fram hvert við annað, í brosi úr tveggja metra fjarlægð, með því að kinka kolli og bjóða góðan daginn. Fyrir það er ég þakklátur.

Við skiljum ekki alltaf af hverju vondir hlutir gerast, en við eigum kærleiksríkan Guð og föður að leita til í bæninni. Með honum berjumst við trúarinnar góðu baráttu fyrir betri og réttlátari heimi. Megi vers úr sálmi Linu Sandell vera okkur styrkur.

Hann, sem er mér allar stundir

nærri,

á við hverjum vanda svar og ráð,

máttur hans er allri hugsun hærri,

heilög elska, viska, föðurnáð.

Morgundagsins þörf ég þekki eigi,

það er nóg, að Drottinn segir mér:

Náðin mín skal nægja hverjum degi,

nú í dag ég styð og hjálpa þér.

(Sandell-Berg –

Sigurbjörn Einarsson)

Guð blessi Ísland og heiminn allan á komandi vikum og mánuðum.

Höfundur er prestur í Breiðholtsprestakalli. magnus@breidholtskirkja.is

Höf.: Magnús Björn Björnsson