Fellsströnd Enn malarvegur en heimamenn vilja úrbætur.
Fellsströnd Enn malarvegur en heimamenn vilja úrbætur. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sveitarstjórn Dalabyggðar vill í ályktun að Vegagerðin hefjist handa í sumar um að leggja klæðningu eða slitlag á svonefndan Klofningsveg.

Sveitarstjórn Dalabyggðar vill í ályktun að Vegagerðin hefjist handa í sumar um að leggja klæðningu eða slitlag á svonefndan Klofningsveg. Verði framkvæmdin tilraunaverkefni á landsvísu við að leggja bundið slitlag á malarvegi með sem minnstum hönnunarkostnaði. Klofningsvegur er lengsti samfelldi tengivegurinn í Dölum; 93 kílómetra leið um Fellsströnd og Skarðsströnd sem liggur úr Hvammssveit, um Klofning og í Saurbæinn.

Dalamenn segja að leið þessi hafi um langt árabil verið svelt um fjármuni til viðhalds. Þó sé vegurinn nauðsynleg samgönguæð í Dalabyggð og bundið slitlagið geti orðið vítamínsprauta fyrir eflingu byggðar á Fellsströnd og Skarðsströnd. Nýverið var leiðin svo skilgreind sem hluti af Vestfjarðaleið, nýrri ferðaleið um Dali, Vestfirði og Strandir sem verið er að markaðssetja. Dalabyggð sé eins með til skoðunar að flytja Byggðasafn Dalamanna á Staðarfell, sem stendur við veginn á Fellsströnd. Allt geri þetta samgöngubætur á svæðinu þarfar.