Sagt var frá innbrotinu á forsíðu Morgunblaðsins 16. 10. 1949
Sagt var frá innbrotinu á forsíðu Morgunblaðsins 16. 10. 1949
Innbrot var framið í sendiráð Íslands í London aðfaranótt 12. október 1949 og birtist æsileg frásögn af því í Morgunblaðinu fjórum dögum síðar. Kom þar fram að kona húsvarðarins, Mrs.

Innbrot var framið í sendiráð Íslands í London aðfaranótt 12. október 1949 og birtist æsileg frásögn af því í Morgunblaðinu fjórum dögum síðar. Kom þar fram að kona húsvarðarins, Mrs. Wackett, hefði orðið vör við umgang í skrifstofu sendiráðsritarans, Pjeturs Eggerz, og sent mann sinn á vettvang. Hann hefði gengið fram á innbrotsþjóf við skrifborð Pjeturs, sem aðeins hefði þó verið búinn að stinga á sig blýanti og inniskóm sendiráðsritarans þegar hann var staðinn að verki.

Segir að innbrotsþjófurinn hafi veist að Mr. Wackett og haft hann undir í fyrstu lotu, en taflið hafi snúist þegar frú Wackett kom til skjalanna „og innlegg hennar í málið gjörbreytti gangi þess á skömmum tíma. Veitti hún þjófinum mörg högg og þung, uns hann var kominn undir og að fyllu yfirunninn. Reið það baggamuninn að Mr. Wackett tókst að ná kverkataki á kaupa og halda honum í því á meðan frúin hringdi í lögregluna“.

Í fréttinni segir að húsvarðarhjónin þyki hafa unnið mikið afrek, ekki síst þegar að því sé gætt að hann sé 63 ára og hún sextug. „Mundi víst fæsta gruna, að þessi litli, broshýri, pervisni dyravörður gæti átt í höggi við harðsvíraða innbrotsþjóna og borið sigur af hólmi,“ segir í fréttinni. „En þetta gerði Mr. Wackett, að vísu með aðstoð konu sinnar – en vel má þess minnast.“

Í fréttinni segir einnig að innbrotsþjófurinn hafi skilið skóna sína eftir úti í garðinum, „og er þá ekki nema skiljanlegt að hann fengi áhuga fyrir inniskónum!!“