Háspenna Aronjan hafði betur gegn Kasparov í hraðskákarhluta Reykjavik Rapid á NASA árið 2004.
Háspenna Aronjan hafði betur gegn Kasparov í hraðskákarhluta Reykjavik Rapid á NASA árið 2004. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sá sem þessar línur ritar hefur tvisvar átt þess kost að tefla í Armeníu, bæði skiptin í höfuðborginni Jerevan. Hið fyrra var undir lok Sovéttímans á minningarmóti um Tigran Petrosjan og í síðara skiptið á Ólympíuskákmótinu 1996.

Sá sem þessar línur ritar hefur tvisvar átt þess kost að tefla í Armeníu, bæði skiptin í höfuðborginni Jerevan. Hið fyrra var undir lok Sovéttímans á minningarmóti um Tigran Petrosjan og í síðara skiptið á Ólympíuskákmótinu 1996. Þetta rifjaðist sem snöggvast upp þegar fréttir bárust af því að sterkasti skákmaður Armena, Levon Aronjan, tefldi þessa dagana með úrvalsliði Evrópu í alþjóðlegri liðakeppni FIDE á Chess.com ásamt landsliði Kína, Rússlands, Bandaríkjanna, Indlands og heimsliðsins. Tvöföld umferð og tímamörk eru 25 10.

Aronjan varð fyrir miklu áfalli í ársbyrjun er hann missti eiginkonu sína í bílslysi. Þetta er fyrsta skákmótið sem hann tekur þátt í um nokkurt skeið.

Og það rifjaðist líka upp þegar greinarhöfundur gekk til leiks í keppni Íslands við Armeníu 2 á téðu ólympíumóti, að feimnislegt ungmenni heilsaði mér, en að baki stóð hópur stoltra ættmenna. Skákinni lauk með jafntefli og okkar andlegi leiðtogi, Gunnar Eyjólfsson heitinn, var hreint ekki ánægður með þau úrslit. „Helgi, þetta er barn,“ sagði hann hneykslaður. Ég átti svo sem ekkert yfir því, en tautaði með sjálfum mér að menn ættu nú ekki að vanmeta Armena; þeir hefðu nú aldeilis stofnað fyrstu kristnu deildina og þar að auki höggvið í klett heila kirkju. Löngu síðar rakst ég á þessa viðureign í gagnagrunni og þá kom í ljós að umrætt barn var enginn annar en Levon Aronjan.

Á FIDE-mótinu hefur hann hlotið 4 vinninga eftir sex skákir. Þessi staða kom upp í skák hans við einn besta Indverjann:

Liðakeppni FIDE á netinu; 3. umferð:

Aronjan – Vidit

Hvítur leikur og vinnur.

Það er útbreiddur misskilningur að mislitir biskupar tryggi oft jafntefli. Hvítur getur brotið upp stöðuna með ...

47. b4! axb3 48. Bb2!

Lokar á möguleikann b3-b2 og svarti biskupinn sleppur út.

48. ... h5 49. g5! h4 50. a4

Frípeðið tekur á rás og svartur getur sig h vergi hrært.

50. ... Kg8 51. a5 Kh7 52. a6 Bd1 53. Kxd1 d2 54. Dxg7+! Dxg7 55. Bxg7 Kxg7 56. Kxd2

- og svartur gafst upp.

Tveir fyrrverandi heimsmeistarar standa á hliðarlínunni; fyrirliði Evrópuliðsins er enginn annar en Garrí Kasparov og Vladimir Kramnik hefur sömu stöðu hjá liði Indlands. En Viswanathan Anand er ekki hættur nýorðinn fimmtugur. Hann bókstaflega ruslaði Nepo upp í 5. umferð í aðeins 17 leikjum:

Liðakeppni FIDE á netinu; 5. umferð:

Viswanathan Anand – Jan Nepomniachtchi

Grünfelds vörn

1. d4 Rf6 2. c4 g6 3. Rc3 d5 4. cxd5 Rxd5 5. Bd2 Bg7 6. e4 Rxc3 7. Bxc3 c5 8. d5 Bxc3 9. bxc3 Dd6 10. Dd2 O-O 11. f4 e6 12. Rf3 exd5 13. Bc4!

Skemmtilegt leikbragð í þekktri stöðu. Hvítur nýtir sér leppunina og reynir að koma biskupinum í áhrifastöðu á d5.

13. ... Be6 14. O-O d4?

Svartur varð að leika 14. .. Rc6. það er eins og að Nepo hafi ekki áttað sig á sleggjunni sem nú kemur...

15. f5!

Vinnur!

15. ... Bxc4

Eða 15. .. gxf5 16. Dg5+ Kh8 17. Df6+ Kg8 18. Rg5! og vinnur, t.d. 18. .. Rd7 19. Dh6! o.s.frv.

16. e5 Dd7 17. f6

- Svartur gafst upp. Það finnst engin vörn, t.d. 17. .. Kh8 18. Dh6 Hg8 19. Rg5 og mátar.

Eftir sjöttu umferð voru Kínverjar efstir með 11 stig, Evrópuliðið var með 9 stig í 2. sæti og Bandaríkjamenn í 3. sæti með 7 stig. Taflmennskan hefst dag hvern kl. 13 að íslenskum tíma.

Helgi Ólafsson (helol@simnet.is)