Svanhvít Skúladóttir fæddist 16. júlí 1926. Hún lést 12. apríl 2020.

Útför hennar fór fram í kyrrþey 7. maí 2020.

Ég kynntist Svanhvíti í gegnum Maríu konu mína sem er barnabarnið hennar. Sá tími sem við fjölskyldan höfum eytt saman með henni hefur verið einkar ánægjulegur og einkennst af gagnkvæmri virðingu og væntumþykju. Það er mér, konu minni og börnum afar þungbært að sjá á eftir henni. Stelpurnar hafa sagt að langamma sé komin til guðs og sé núna engill. Nú geti hún hitt eiginmann sinn og Halldór litla, sem er gott því hún er búin að sakna þeirra svo mikið.

Svanhvíti er hægt að lýsa sem skynsamri konu og með árunum og þeirri reynslu sem hún fékk úr lífinu jókst viska hennar að sama skapi. Það var hægt að ræða við hana um hluti og leita ráða hjá henni, án undantekninga komst hún að bestu lausninni. Hún var hreinskilin og blátt áfram. Svanhvít var blíð og góð við börn. Gat sinnt þeim án þess að vera upptekin af öðru, eins og svo algengt er hjá fullorðnum í dag. Hún hafði góða kímnigáfu og var skemmtilegur félagsskapur. Hún var reglumanneskja og hófsöm, sem hægt var að taka sér til fyrirmyndar. Það er að mínu mati erfitt að finna heilsteyptari manneskju en hana Svanhvíti. Fyrir henni gerði menntun eða ríkidæmi ekki fólk að betra fólki, það var hvernig það hagaði sér og kom fram við aðra sem skipti mestu máli.

Henni fannst þó gott að geta fengið sér eitthvað sætt öðru hverju. Henni fannst rjómaís úr vél góður, hún vildi ekki ídýfu og ekkert nammi blandað saman við. Það einfalda var oft best! Lambalæri um helgar og hefðbundinn heimilismatur á virkum dögum. Henni fannst skemmtilegt að horfa á James Bond, þær sögur innihalda góðan endi, spennu og rómantík í bland. Það kunni hún vel að meta. Hún las einnig talsvert sér bæði til skemmtunar og fróðleiks. Svanhvít hélt um árabil jólaboð hjá sér þar sem stórfjölskyldan safnaðist saman og fagnaði jólum. Fjölskyldan skipti hana miklu máli og bera börn hennar uppkomin þess merki að hafa hlotið gott uppeldi, ástúð og athygli. Sem þau síðan hafa getað veitt börnum sínum sem síðan hafa orðið að góðu og gegnu fólki.

Á þessum þungbæru tímamótum, kveðjum við Svanhvíti okkar. Hennar saga og líf var oft erfitt, hún eins og aðrir upplifði áföll og erfiðleika, bæði í bernsku sem og á fullorðinsárum. Hún og maður hennar, Andrés heitinn, bjuggu sér til gott líf og heimili með dugnaði og eljusemi. Við fjölskyldan vildum óska þess að við hefðum getað átt meiri tíma saman með þér, Svanhvít mín. En einhvern tímann þurfa allir að kveðja. Henni þótti mjög vænt um dætur okkar. Við spurðum stelpurnar hvað þær myndu gera ef langamma kæmi til okkar í heimsókn sem engill. Mónika sagði að hún vildi segja við þig að hún elskaði þig og myndi faðma þig. Manúela vildi láta nægja að segja að hún elskaði þig, það væri erfitt að faðma þig með svona stóra vængi, og Ísabella var sömu skoðunar. Takk fyrir tímann saman og við söknum þín mjög mikið. Minning þín mun lifa með okkur um ókomna tíð.

Svavar Einarsson,

Mónika, Manúela

og Ísabella.