Gróska Talið var að allt að 900 störf gætu skapast í hugmyndahúsinu Grósku sem er í Vatnsmýrinni.
Gróska Talið var að allt að 900 störf gætu skapast í hugmyndahúsinu Grósku sem er í Vatnsmýrinni. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Aron Þórður Albertsson aronthordur@mbl.is „Við leggjum mikla áherslu á uppbyggingu Vísindagarða Háskóla Íslands í Vatnsmýrinni.

Aron Þórður Albertsson

aronthordur@mbl.is

„Við leggjum mikla áherslu á uppbyggingu Vísindagarða Háskóla Íslands í Vatnsmýrinni. Þar sjáum við fyrir okkur að verði samvinnuvettvangur atvinnulífs og fræðasamfélagsins, með það markmið að skapa kjöraðstæður fyrir rannsóknir og nýsköpun á Íslandi. Þar er til dæmis að rísa Gróska hugmyndahús sem mun meðal annars hýsa CCP og ýmsa frumkvöðlastarfsemi í bland við háskólastarfsemi,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, spurður um hvað háskólinn muni leggja af mörkum við að fjölga undirstöðum í atvinnulífinu nú á tímum kórónuveirunnar. Nær 60 þúsund manns þiggja nú bætur frá Vinnumálastofnun og því er ljóst að bregðast þarf við. Þar gegnir nýsköpun lykilhlutverki og af þeim sökum er mikilvægt að hlúa vel að frumkvöðlafyrirtækjum.

„Við ættum að hugsa vel hvað sé hægt að gera til að bæta enn frekar umhverfi og aðstæður fyrir nýsköpun hér á landi. Nú er stórt tækifæri hvað það varðar,“ segir Jón Atli og bætir við að uppbygging Grósku, hugmyndahúss í Vatnsmýrinni gegnt Öskju og Norræna húsinu, sé liður í því. Þegar framkvæmdir hófust var talið að allt að 900 störf gætu skapast í nýju húsi. Ekki er vitað hversu mörg störf munu skapast en í húsinu mun verða samvinnuvettvangur atvinnulífs og fræðasamfélagsins.

Tölvuleikjafyrirtækið CCP mun flytja inn á næstunni, en auk þess er verið að ganga frá leigusamningum við fleiri aðila. Þar verður horft til þess að hafa blöndu af háskólastarfsemi og háskólatengdri fyrirtækjastarfsemi.