[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sýningarhöfundur: Ívar Brynjólfsson. Þjóðminjasafn er opið alla daga frá kl. 10 til 17. Höfundur greina í samnefndri bók: Steinar Örn Erluson. Ritstjóri: Linda Ásdísardóttir. Útgefandi: Þjóðminjasafn Íslands, 2020. Kilja í stóru broti, 112 bls.

Margir safnamenn og listsagnfræðingar ganga víst með þann draum að uppgötva og geta sýnt áður óþekkta fjársjóði. Mér þykir líklegt að starfsfólk Þjóðminjasafns Íslands hafi fengið á tilfinninguna að það hafi fengið einn slíkan upp í hendurnar þegar það fór að kanna ljósmyndasafn Gunnars Péturssonar (1928-2012) sem var afhent safninu eftir hans dag. Því um er að ræða æði merkilegt safn í íslenskri ljósmyndasögu, safn mynda sem einkennist af leitandi og þroskaðri sýn myndhöfundar sem hélt áfram að vinna að verkum sínum án þess samtals sem verður til við að sýna verkin öðrum og fá við þeim viðbrögð. Gunnar var sannkallaður huldumaður í ljósmyndasögu okkar. Hann vann alla starfsævi sína sem áhugaljósmyndari en sýndi myndir aðeins í upphafi opinberlega og er það því fyrst nú sem við áttum okkur á því hvað þessi hógværi Reykvíkingur, sem naut þess að ferðast um land sitt og taka hér myndir, hafði verið að fást við. Og það er stórmerkilegt að sjá.

Formtilraunir og ferðalög

Gunnar bjó alla ævi í sama húsi við Grettisgötu og starfaði lengst af sem skrifari í pakkhúsi Eimskipafélagsins. Hann fór aldrei til útlanda. En rúmlega tvítugur gekk hann í Ferðafélag Íslands og naut þess að ferðast um landið; hann gekk á alla jökla og fór vítt og breitt um hálendið, lengst af með ferðafélaga sínum og náinni vinkonu, Ingibjörgu Ólafsdóttur (1914-1998), sem einnig var slyngur áhugaljósmyndari. Og ferðalögin urðu jafnframt uppspretta stórs hluta myndefnisins.

Öflugar hreyfingar áhugaljósmyndara urðu áberandi víða um lönd eftir seinni heimsstyrjöld og varð Gunnar snemma virkur í slíkum félögum hér. Í þeim var þá iðulega að finna áhugaverðustu deigluna í ljósmyndun, ljósmyndun sem varð hluti af módernískri hreyfingu eftirstríðsáranna, þar sem sjónum var beint að formum í stað frásagna; heimurinn var í rúst eftir stríðið, mennskan hafði tapað og áhersla var lögð á list listarinnar vegna.

Í safni Gunnars sem afhent var Þjóðminjasafninu eru um 54 þúsund filmur, svarthítar og litskyggnur. Í tilkynningu um sýninguna segir að sjá megi að hið óhlutbundna hafi verið leiðarþráður í öllum verkum Gunnars og er sagt að abstrakt ljósmyndir hans teljist „einstakt framlag til fagurfræðilegrar ljósmyndunar á Íslandi“.

Gunnar var árið 1953 stofnfélagi í Litla ljósmyndaklúbbnum og Félagi áhugaljósmyndara og tók á næstu árum virkan þátt í starfsemi beggja, átti verk á samsýningum, tók þátt í samræðum um verk annarra félaga og þá sendi hann myndir á alþjóðlegar sýningar sem voru algengar og bæði virkum áhugaljósmyndurum og atvinnumönnum bauðst að taka þátt í. En eftir 1958 hætti Gunnar að sýna myndir og liðu rúmlega fjórir áratugir þar til hann tók árið 1999 þátt í sýningunni Áhugaljósmyndarar í Reykjavík 1950-1970 sem var sett upp á vegum Þjóðminjasafns Íslands í Þjóðarbókhlöðunni. Átti hann þar fimm verk. Þrátt fyrir að hann sýndi ekki opinberlega allan þennan tíma er nú augljóst að hann hélt alla ævi áfram að taka myndir og hafði brennandi áhuga á miðlinum. Ég minnist þess að hafa séð Gunnar á sýningum á ljósmyndum og hann var iðulega gestur þar sem ljósmyndarar voru með leiðsögn um sýningar eða héldu fyrirlestra. Nú er ekki annað hægt en að harma að Gunnar hafi ekki stigið fram sjálfur meðan hann lifði og sýnt þessi verk – en sem betur fer glötuðust þau ekki heldur enduðu safni þjóðarinnar.

Áhrifamikil sýning

Sýningin í Myndasal er sett upp með afar lifandi og áhugaverðum hætti. Bæði eru sýnd svarthvít frumprent Gunnars og ný og þá stærri prent sem sýningarhöfundurinn Ívar Brynjólfsson hefur unnið fagmannlega eftir filmum ljósmyndarans. Formtilraunir eru áberandi þegar gesturinn gengur í salinn, svo sem í hreyfingu og hröðun í litmyndum og tvítökum í svarthvítu, þar sem Gunnar hefur tekið aftur ofan í myndir á sömu filmuna. Í þessum verkum birtist vel sterk formræn tilfinning, þar sem myndsköpunin kallast á við sambærilegar hræringar erlendis. Gunnar varð snemma áskrifandi að hinu framsækna bandaríska ljósmyndarímariti Aperture, sem Minor White ritstýrði og lagði til að mynda áherslu á formræna nálgun við landlag. Eintök af tímaritinu og bókum úr eigu Gunnars má sjá á sýningunni – til að mynda með verkum eftir Ernst Haas, sem var merkur frumkvöðull í sambærilegum tilraunum í litljósmyndum og Gunnar fékkst við um tíma. Athyglisvert er að sjá hvaðan hann varð fyrir áhrifum.

Ánægjulegt er að sjá prent sem Gunnar sendi til sýninga erlendis sett upp þannig að gestir geti skoðað á bakhliðinni stimpla og merkimiða frá samkeppnum og sýningastöðum.

Þegar leið á ferilinn lagði Gunnar sífellt meiri áherslu á myndir teknar úti í náttúrunni og dró þá úr borgarmyndum, sem hann myndaði líka fyrstu árin. Undir lok ævi sinnar fékk Gunnar Guðmund Ingólfsson til að skanna inn fyrir sig nokkrar valdar litljósmyndir af formum úr náttúrunni sem hann lét prenta og ramma inn – þær eru saman á sýningunni og virðist sem hann hafi verið þar byrjaður að undirbúa sýningu á úrvali verkanna eftir sinn dag og hafi viljað vera með í ráðum um valið. Ívar hefur skannað inn og stækkað aðrar raðir náttúru- og landslagsmynda, afar formhreinar og áhugaverðar.

Á nokkrum veggjum eru hópar frumprenta Gunnars sem sýna vel hvernig hann hugsaði endanlega útkomu. Hann sker myndir óhikað og þrengir, þar sem hann leggur ofuráherslu á nákvæma og hreina myndbyggingu. Fólk er iðulega notað sem „myndauki“, til að gefa hreyfingu og líf en verkin fjalla þó ekki endilega um það, heldur snýst myndsköpunin um heild og myndrænt jafnvægi. Og orðið jafnvægi má nota um sýninguna sem heild; áhugaverða myndakjarnana, frummynda og nýrra prenta, upplýsandi veggtexta og ítarefni í sýningakössum.

Krafðist engrar athygli

Þjóðminjasafnið gefur út fallega bók samhliða sýningunni og er hún eins og vera ber ríkulega prýdd myndum ljósmyndarans. Heimspekingurinn Steinar Örn Erluson hefur rannsakað myndheim og feril Gunnars og skrifar upplýsandi grein um hann. Í kaflanum „Myndgreining“ er fjallað stuttlega um átta þætti sem einkenna safn Gunnars og ein mynd sýnd sem dæmi um hvern: ganga, náttúra, uppbrot, hröðun, fletir, ljós, lýsing og ferðir. Í seinni hluta bókarinnar eru síðan birtar rúmlega fimmtíu ljósmyndir.

Myndavalið er athyglisvert og gott að ekki eru alltaf sömu myndir í bók og sýningu. Hins vegar þykir rýni það aðfinnsluvert að þegar til eru frumprent eftir Gunnar sem sýna hvernig hann vildi skera myndirnar sé ekki farið eftir því við birtingu þeirra mynda. Í bókinni eru nokkrar ljósmyndir sem sjást á sýningunni þrengra skornar af Gunnari og skiljanlega, því þær eru áhrifameiri með þeim hætti, lausar við allan óþarfa sem truflar augað, með réttri áherslu á form og hreyfingu. Hans útgáfa er rétta myndverkið, óskorin filman hráefnið í það.

Gunnar Pétursson var óvenjulegur maður í íslenskri ljósmynda- og myndlistarsögu. Huldumaður sem vann markvisst að myndheimi sínum, sýnilega án þarfar fyrir að sýna verkin. Guðmundur Ingólfsson ljósmyndari skrifaði í minningargrein að með honum væri genginn maður „sem fékkst til hinstu stundar við skapandi iðju af listfengi og krafðist engrar athygli. Slíkir menn eru sjaldgæfir.“

Þótt Gunnar sé ekki meðal okkar til að fylgja verkum sínum eftir er sýningin fallegur og merkilegur minnisvarði um vinnu hans, og viðburður sem enginn áhugamaður um myndsköpun ætti að missa af.

Einar Falur Ingólfsson