Bókakonur Bylgja safnstjóri til vinstri og Hrönn Bergþórsdætur líta í gögn á bókasafninu á Siglufirði.
Bókakonur Bylgja safnstjóri til vinstri og Hrönn Bergþórsdætur líta í gögn á bókasafninu á Siglufirði. — Ljósmynd/Björn Valdimarsson
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Hrönn og Bylgja Hafþórsdætur, tvíburasysturnar á bókasafninu á Siglufirði, eru líkar bæði í sjón og raun. Svipurinn er sá sami og eins smekkur þeirra fyrir bókum, en báðar hafa þær verið lestrarhestar alveg síðan í æsku. Ungar drukku þær í sig hinar vinsælu ævintýrabækur Enid Blyton og af íslensku efni voru Öddubækur Jennu og Hreiðars Stefánssonar og sögur Ármanns Kr. Einarssonar í uppáhaldi. Á unglingsárum fóru systurnar svo að lesa skáldverk, ævisögur og svo mætti áfram telja; bækur í öllum sínum fjölbreytileika eru þverskurður af veröld sem breytist hratt.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Hrönn og Bylgja Hafþórsdætur, tvíburasysturnar á bókasafninu á Siglufirði, eru líkar bæði í sjón og raun. Svipurinn er sá sami og eins smekkur þeirra fyrir bókum, en báðar hafa þær verið lestrarhestar alveg síðan í æsku. Ungar drukku þær í sig hinar vinsælu ævintýrabækur Enid Blyton og af íslensku efni voru Öddubækur Jennu og Hreiðars Stefánssonar og sögur Ármanns Kr. Einarssonar í uppáhaldi. Á unglingsárum fóru systurnar svo að lesa skáldverk, ævisögur og svo mætti áfram telja; bækur í öllum sínum fjölbreytileika eru þverskurður af veröld sem breytist hratt.

Bókasafnið í Fjallabyggð er á tveimur stöðum; á Siglufirði og Ólafsfirði en þessir tveir kaupstaðir voru sameinaðir í eitt sveitarfélag fyrir mörgum árum. Í hvorum bæ um sig eru þjónustustofnanir sem þarf svo að samfélagið virki og víst er að bækur, andi og sögur eru leið til að lifa af.

Vinna vel saman

„Ég get með sanni sagt að við systur séum aldar upp hér á safninu á Siglufirði,“ segir Hrönn. „Bókaverðirnir sem hér störfuðu fyrr á tíð, þeir Gísli Sigurðsson og Óli Blöndal, voru okkur ákaflega góðir. Völdu og fundu til bækur sem þeir vissu að okkur hæfðu. Þetta jók líka áhugann og við hurfum bókstaflega inn í spennandi heim bóka og ævintýra.“

Hrönn er fædd 1964, en fluttist suður liðlega tvítug. Nam bókasafnsfræði og starfaði sem slík í Hafnarfirði um langt árabil. Langaði þó alltaf norður og þegar starf forstöðumanns bókasafnanna í Fjallabyggð var auglýst árið 2014 sótti Hrönn um og fékk. Þegar svo vantaði safnvörð til afgreiðslustarfa þremur árum síðar sótti systir hennar Bylgja um og var ráðin.

„Við systur vinnum ákaflega vel saman. Við erum alætur á bókmenntir sem er nauðsynlegt í starfinu hér. Gestir safnsins spyrja margs og vilja umsagnir okkar og álit á hinum og þessum bókum og hvort vert sé að lesa þær. Samskipti við fólkið eru einn af skemmtilegustu þáttunum í þessu starfi,“ segir Bylgja.

Bókabær sveipaður ævintýraljóma

Í nýafstöðnu samkomubanni var bókasafnið á Siglufirði lokað, enda þótt systurnar mættu til starfa alla daga. Nýttist tíminn vel í pappírsvinnu, tiltektir og að strjúka sótthreinsivökva yfir hverja einustu bók og allar hillur. Gestir máttu svo aftur mæta á safnið sl. mánudag og var þá mikið að gera á safninu.

„Gestir voru glaðir í bragði; margir höfðu tekið stóran bunka af bókum fyrir samkomubannið og skiluðu aftur nú. Það er gott að lífið sé aftur að komast í rútínu,“ segir Bylgja.

Í margra vitund er Siglufjörður bær sveipaður ævintýraljóma. Margir höfundar hafa, hver með sínum stíl og hætti, skráð sögu staðarins og þar eru síldarárin, ástir og auður áberandi þema. Hin hliðin á þeim peningi er svo vitnisburður um vonbrigði og að margt í henni veröld fer öðruvísi en ætlað er.

Siglufjörður er líka sögusvið ýmissa skáldverka í seinni tíð, svo sem í spennusögum Ragnars Jónassonar, Snjóblinda og Náttblinda . Siglufjörður er í bakgrunni í Sextíu kíló af sólskini eftir Hallgrím Helgason. Þar heitir bærinn reyndar Segulfjörður, en engum dylst hvað við er átt. Þá voru spennuþættirnir Ófærð, sem sýndir voru á RÚV fyrir nokkrum misserum, að stórum hluta teknir upp á Siglufirði.

„Já, bókmenntir hafa mikið aðdráttarafl á ferðafólk. Bækur Ragnars Jónassonar hafa verið gefnar út í mörgum löndum og oft kemur hingað á bókasafnið fólk langt að, jafnvel frá Ástralíu, til þess að kynna sér sögusviðið. Við höfum því látið útbúa kort með helstu kennileitum úr sögum Ragnars og vísum fólki veginn. Munum gera slíkt hið sama varðandi Ófærð svo Íslendingarnir, sem væntanlega flykkjast hingað í sumar, geti fundið hvar einstaka myndskeið í þeim þáttum voru tekin,“ segir Hrönn. Hún getur ennfremur Siglufjarðarþátta Egils Helgasonar sem sýndir voru í sjónvarpi í vetur við miklar vinsældir. Vænta megi að þættirnir hafi vakið áhuga fólks sem komi norður í sumar til þess að kynna sér staðinn. Megi þá ganga að mörgu vísu á upplýsingamiðstöð ferðamanna í bænum, sem er á sama stað og bókasafnið.

Hjarta og sál bæjarins

„Við erum hér í miðjunni á Siglufirði, undir sama þaki og bæjarskrifstofurnar við Gránugötu alveg í hjarta bæjarins. Raunar má segja að bókasafnið sé að sumu leyti hjarta og sál bæjarins. Hingað koma margir, ekki bara til að ná sér í bækur heldur líka til að líta í blöðin, hitta fólk og spjalla. Á heimleið úr leikskólanum koma foreldrar með börnin sín oft hér við – og þá er leikhornið hér vinsæll staður,“ segir Hrönn að síðustu.