Arnheiður Ragnarsdóttir fæddist 4. september 1960. Hún lést 6. apríl 2020. Útför Arnheiðar hefur farið fram í kyrrþey.

Okkur setti hljóð þegar við heyrðum af andláti Öddu nú fyrr í mánuðinum.

Adda hafði starfað með okkur í nærri tvo áratugi, fyrst hjá okkur á Aðalendurskoðun sf. og síðan Íslenskum endurskoðendum Bíldshöfða slf. eftir sameiningu við aðra skrifstofu.

Hún hætti störfum hjá okkur seint á síðasta ári.

Við erum þakklát fyrir samfylgdina þessi ár; þakklát fyrir störf hennar og félagsskap alla tíð.

Við viljum kveðja Öddu með nokkrum erindum úr ljóði Davíðs Stefánssonar,

Nú sefur jörðin:

Nú sefur jörðin

sumargræn.

Nú sér hún rætast hverja bæn

og dregur andann djúpt og rótt

um draumabláa júlínótt.

Á túni sefur bóndabær,

og bjarma á þil og glugga slær.

Við móðurbrjóstin börnin fá

þá bestu gjöf, sem lífið á.

Nú sofa menn og saklaus dýr.

Nú sofa dagsins ævintýr.

Nú ríkir þögn við ysta ós,

svo ekkert vekur Þyrnirós.

Nú dreymir allt um dýrð og frið

við dagsins þögla sálarhlið,

og allt er kyrrt um fjöll og fjörð

og friður drottins yfir jörð.

Við vottum fjölskyldu Öddu innilega samúð.

F.h. samstarfsfólks Íslenskra endurskoðenda Bíldshöfða slf.,

Björn Ó. Björgvinsson.