Aron Þórður Albertsson aronthordur@mbl.is „Við höfum orðið vör við umtalsverða fjölgun umsókna, en þó ekki eins mikla og við mátti búast sé horft til talna frá Vinnumálastofnun.

Aron Þórður Albertsson

aronthordur@mbl.is

„Við höfum orðið vör við umtalsverða fjölgun umsókna, en þó ekki eins mikla og við mátti búast sé horft til talna frá Vinnumálastofnun. Það er fjöldi á hlutabótaleiðinni auk þess sem margir starfa nú á uppsagnarfresti sem ekki klárast fyrr en í haust,“ segir Katrín S. Óladóttir, framkvæmdastjóri ráðninga- og ráðgjafarfyrirtækisins Hagvangs. Vísar hún í máli sínu til ástandsins sem skapast hefur á vinnumarkaði sökum áhrifa og útbreiðslu kórónuveirunnar hér á landi.

Nú þiggja nær 60 þúsund manns atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun, í formi hlutabóta eða fullra bóta. Viðlíka ástand hefur aldrei áður raungerst á íslenskum vinnumarkaði, en vonir eru þó bundnar við að hápunkti hafi verið náð. Að sögn Katrínar hefur ástandið orðið til þess að einstaklingar í atvinnuleit eru nú opnari fyrir fleiri störfum. „Stærsta breytingin er kannski sú að fólk er duglegt að sækja um og þegar störf eru auglýst berst alveg ótrúlegur fjöldi umsókna. Fólk er þess utan talsvert opnara fyrir því að skoða störf á nýjum vettvangi. Einstaklingar hafa kannski verið að leita sér að ákveðnu starfi en eru nú að átta sig á því að þeir geta ekki endilega leyft sér að einskorða leitina við ákveðið svið,“ segir Katrín.

Hvetur fólk til að halda rútínu

Aðspurð segir hún afar mikilvægt að fólk hugi sem fyrst að atvinnuleit. Leitin geti tekið tíma og því sé best að byrja strax. „Við erum að segja fólki að kanna þessi mál fyrr en síðar. Það eru miklu fleiri að sækja um hvert laust starf þannig að þetta getur tekið tíma,“ segir Katrín og bætir við að óvissuástand síðustu mánaða hafi orðið til þess margir hafi verið skildir eftir milli steins og sleggju. Fyrirtækjum hafi verið lokað sem jafnframt olli því að fjöldi starfsmanna bíður nú eftir því að fá upplýsingar um hvort opnað verði að nýju. „Þetta er óvissuástand sem ekki er ljóst hversu lengi varir eða hversu margir starfsmenn munu halda vinnunni. Fólk hefur því verið í þeim sporum að bíða og sjá hvað gerist,“ segir Katrín.

Spurð hvort ekki sé mikilvægt að einstaklingar komist sem fyrst í rútínu og fasta vinnu kveður Katrín já við. Þó sé einnig hægt að nýta tímann til að auka við þekkingu og koma þannig öflugri að nýju inn á vinnumarkaðinn. „Við hvetjum fólk til að vera opið fyrir öllu og hafa í huga að atvinnuleit getur tekið tíma. Það skiptir hins vegar máli að gefast ekki upp og halda áfram því það er alltaf möguleiki á að tækifæri opnist. Þetta getur farið illa með andlegu hliðina þannig að það er best fyrir fólk að sýna virkni og reyna að halda dagskrá í stað þess að bíða,“ segir Katrín sem kveðst horfa björtum augum til framtíðar. „Ef þetta heldur áfram að ganga svona vel að ná utan um veiruna þá vonar maður að við komumst fyrr af stað,“ segir Katrín.