Leigubílar Farþegum hefur snarfækkað í kórónuveirufaraldrinum
Leigubílar Farþegum hefur snarfækkað í kórónuveirufaraldrinum — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Brugðist er við miklum samdrætti í rekstri leigubíla vegna kórónuveirufaraldursins með stjórnarfrumvarpi á Alþingi sem heimilar bílstjórum að leggja inn leyfi sitt til næstu áramóta.

Brugðist er við miklum samdrætti í rekstri leigubíla vegna kórónuveirufaraldursins með stjórnarfrumvarpi á Alþingi sem heimilar bílstjórum að leggja inn leyfi sitt til næstu áramóta.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að óljóst sé hve lengi þessi samdráttur muni standa yfir. Samkvæmt lögum um leigubifreiðar geta leigubifreiðastjórar lagt inn atvinnuleyfi sitt en það skilyrði er sett að þeir hafi nýtt leyfið í tvö ár samfellt eftir að þeir fengu það útgefið. Með því eru bílstjórar settir í erfiða stöðu við þær fordæmalausu aðstæður sem nú eru uppi vegna faraldursins.

Með því að fá heimild til að leggja inn leyfið geta bílstjórar sparað kostnað vegna atvinnuleyfisins, skráð sig atvinnulausa og sótt um atvinnuleysisbætur. Frumvarp er lagt fram til að leigubifreiðastjórar, sem hafa haft atvinnuleyfi skemur en tvö ár, geti lagt inn atvinnuleyfið og sótt um bætur sér til lífsviðurværis. Frumvarpið miðar að því að draga úr neikvæðum efnahagslegum áhrifum á þennan hóp.

Tekjur bílstjóra hrundu

Í samtali við mbl.is á dögunum sagði Guðmundur Börkur Thorarensen, framkvæmdastjóri BSR, að tekjur bílstjóra fyrirtækisins hefðu hrunið um 90% í upphafi kórónuveirufaraldursins. Síðan hefðu þeir geta bætt við sig ýmissi sendiþjónustu fyrir veitingastaði og verslanir og hefðu þannig getað aflað lítillegra tekna. Samdrátturinn næmi þó enn um 80% af því sem var fyrir faraldurinn.