Þetta er akkúrat það sem ég þurfti. Stillanlegt hjól á breiðum dekkjum sem gefur mér smá hjálp upp brekkurnar. Og allt í einu varð ég eins og flugstjóri, sem þarf að segja öllum hvað hann gerir.

Ef þig langar í gott rifrildi, svona frussandi, gamaldags, öskrandi rifrildi, þá er besta leiðin til þess að ræða um hjólreiðar við ákveðna tegund af fólki. Það skilur ekki af hverju fólk hjólar og finnst algjörlega fáránleg tilhugsun að vera að þjóna sérþörfum þessa hóps með dekri eins og hjólastígum. Gott ef því finnst það ekki einna helst vera geggjuð peningasóun.

Ég man svo sem þá tíð þegar það þótti nánast óhugsandi að einhver fullorðinn væri á hjóli. Krakkar hjóluðu en það var á einhvern hátt fyrir neðan virðingu fullorðinna. Það var meira að segja þannig að ef einhver sem var kominn yfir tvítugt settist á hjól fékk hann viðurnefni. Hver man ekki eftir Jóa á hjólinu?

Svo gerðist eitthvað. Rólega fyrst. Eitt og eitt útivistarfrík hjólaði stundum í vinnuna. Það þótti undarlegt. En svo fjölgaði þeim og urðu nokkurs konar trúboðar sem predikuðu lífsgæðin sem fylgdu súrefni, hreyfingu og minni mengun. Samt ennþá skrýtnir.

Kannski var það vegna þess að það var hreint ekki auðvelt að komast um hjólandi. Gangstéttir voru þröngar og hjólastígur var enn furðulegt nýyrði. En það breyttist og sem betur fer breyttust viðhorfin með.

Líklega byrjaði þetta fyrir alvöru um aldamótin síðustu. Árið 2000 voru síðast fluttir fleiri bílar til landsins en reiðhjól. Síðan hefur orðið sprenging sem sér ekki fyrir endann á. Nú síðast með rafhjólum.

Ég er einmitt einn af þeim sem fengu sér rafhjól. Ég geri mér grein fyrir því að hópi hjólafólks, sem telur spandex eitt af frumefnunum, finnst það ekki merkilegt en mér er alveg sama. Þetta er akkúrat það sem ég þurfti. Stillanlegt hjól á breiðum dekkjum sem gefur mér smá hjálp upp brekkurnar. Og allt í einu varð ég eins og flugstjóri, sem þarf að segja öllum hvað hann gerir. Mér finnst þetta meiriháttar. Mig langar til að nota orðið valdeflandi en ég er ekki alveg viss um að það eigi við.

Ég er ekki alveg kominn í hóp trúboða. En ég á miklu betra með að sjá rökin fyrir því að bæta aðgengi fyrir hjólreiðamenn. Það gerir allt einfaldara. Fyrir alla. Ég hjóla í vinnuna ellefu kílómetra leið. Ég er álíka lengi og ef ég myndi keyra. Tala nú ekki um þegar umferðin er sem mest. Að auki fylgir þessu tilfinning sjálfstæðis og frelsis. Að vera ekki háður öðrum um hversu hratt þú getur farið.

Svo er þetta líka hollt og gott. Samkvæmt útreikningum sem samgönguráðherra birti í vikunni sparar hver kílómetri sem er hjólaður eða genginn 150 krónur. Þannig að ein bíllaus ferð í og úr vinnu hjá mér sparar kerfinu 3.300 kall!

Og jafnvel þótt þú viljir ekki hjóla, þá skil ég ekki alveg hvernig hægt er að láta þetta pirra sig. Ég held að það þurfi alveg sérstaka hæfileika til að komast að því að þetta geti ekki gengið saman og jafnvel hjálpað.

Ef þú vilt minnka röðina að steikarhlaðborðinu, hvernig væri þá að gera salatbarinn meira spennandi? Það er nákvæmlega það sem hjólreiðar gera. Því fleiri sem hjóla – þeim mun meira pláss verður fyrir bíla á götunum. Minni mengun, minna svifryk, styttri tími í umferðinni og allir því sem næst sáttir.

Vissulega er líklegt að færri hjóli á veturna og í vondu veðri. En það skiptir í raun ekki máli. Eigum við ekki frekar að fagna því að losna við nokkur hundruð bíla af götunum á sumrin og þegar aðstæður leyfa fyrir okkur góðviðrishjólafólkið?