Fyrir nokkrum vikum þótti sérviskulegt að ganga með sótthreinsandi efni á sér og bera á hendurnar reglulega, en nú þykir það meira en sjálfsagt

Hreinlæti hefur verið grunnstef í vörnum gegn kórónuveirunni. Alls staðar eru sprittbrúsar og almenningur er í sífellu minntur á að þvo hendur. Fyrir nokkrum vikum þótti sérviskulegt að ganga með sótthreinsandi efni á sér og bera á hendurnar reglulega, en nú þykir það meira en sjálfsagt.

Augljóst má vera að þessi herferð hefur skilað sínu í átakinu til að hemja útbreiðslu kórónuveirunnar, en einnig má spyrja hvort aukið hreinlæti hafi haft víðtækari áhrif.

Ein vísbending um það kom fram í frétt í Morgunblaðinu í liðinni viku undir yfirskriftinni Færri dauðsföll en síðustu ár. Þar kom fram að miðað við fyrri ár hefði látnum á Íslandi ekki fjölgað vegna kórónuveirufaraldursins. Var vitnað í tölur Hagstofunnar þar sem fram kom að á fyrstu fimmtán vikum þessa árs hefðu 44 látist að meðaltali á viku, en meðaltalið árin 2017 til 2019 hefði verið 46 mannslát á viku. Vitaskuld er varasamt að draga of miklar ályktanir út frá tölum af þessu tagi, ekki síst á Íslandi þar sem íbúar eru svo fáir að sveiflur geta haft mikil áhrif á hlutföll þótt aðeins skeiki nokkrum einstaklingum. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði þó á einum af blaðamannafundum almannavarna fyrir mánaðamót að heildartölur andláta þyrfti að skoða vel, en engar vísbendingar væru um að umframdauði væri í samfélaginu af völdum COVID-19-sjúkdómsins og miklar sveiflur væru milli ára.

Sú spurning hefur líka vaknað hvort nú sé almennt minna um smit í samfélaginu vegna aukinnar áherslu á hreinlæti. Heyrst hefur af leikskólum þar sem dregið hafi úr veikindum barna eftir að faraldurinn hófst og nærtækast sé að rekja það til þess að nú eru leikföng og snertifletir hreinsaðir mun reglulegar en áður. Sama má segja úr grunnskólum, þar sem áður hafi tveir til þrír jafna verið veikir í hverjum bekk, en undanfarnar vikur hafi fjarvistir vegna veikinda þurrkast út.

Ekki er ýkja langt síðan menn áttuðu sig á mikilvægi hreinlætis við að koma í veg fyrir smit. Lækninum Ignazi Semmelweis hefur verið eignaður heiðurinn af því að átta sig á smithættunni sem fylgdi því að þvo sér ekki um hendur. Hann var læknir á sjúkrahúsi í Vín um miðja nítjándu öld þar sem voru tvær fæðingardeildir, önnur fyrir konur af heldri stéttum, hin fyrir almúgakonur. Á þeirri fyrri voru menntuðustu læknar borgarinnar við störf, en á hinni síðari tóku ljósmæður á móti börnunum. Á fyrri deildinni dó ein af hverjum tíu konum skömmu eftir barnsburð, en á þeirri síðari var dánartíðnin aðeins í kringum tvö prósent. Semmelweis komst að því að ástæðan fyrir hinni háu dánartíðni var sú að læknarnir fóru beint úr krufningu í líkhúsinu á fæðingardeildina án þess að gæta hreinlætis. Hann kom því til leiðar að skylt var að sótthreinsa hendur og snarlækkaði dánartíðnin og varð sú sama og á deildinni þar sem ljósmæðurnar voru við störf.

Semmelweis var mjög ákafur í málflutningi sínum fyrir handþvotti og lagðist ákafi hans illa í virðulega kollega hans, sem voru ekki tilbúnir að axla ábyrgð á hinni háu dánartíðni. Auk þess hafði hann ekki vísindaleg rök fyrir máli sínu, enda aldarfjórðungur í uppgötvanir Louis Pasteurs sem mörkuðu upphaf örverufræðinnar. Semmelweis hrökklaðist frá Vín til Búdapest, þar sem hann lét lífið á geðsjúkrahúsi aðeins 47 ára gamall. Nú hefur hann hins vegar fengið uppreisn æru og fyrir utan sjúkrahúsið í Vín er minnisvarði um hann.

Þótt niðurstöður Semmelweiss hafi nú verið óumdeildar í rúma öld hefur gengið hægt að fá fólk til að fara eftir þeim. Á tvö hundruð ára afmæli hans fyrir tveimur árum var blásið til hreinlætisherferðar á sjúkrahúsum með áherslu á handþvott. Didier Pittet, sérfræðingur í smitvörnum hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, WHO, steig þá fram fyrir skjöldu og sagði að handþvotti væri verulega ábótavant og þvæði heilbrigðisstarfsfólk hendur helmingi sjaldnar en æskilegt væri þótt með því mætti draga úr sýkingum á sjúkrahúsum um 50-70%. Hann sagði að í löndum Evrópusambandsins sýktust 3,2 milljónir manna árlega á sjúkrastofnunum og 100 manns létu lífið daglega af þeim sökum. Ætla mætti að árlega drægju slík smit fimm til átta milljónir manna til dauða um allan heim.

Viðbrögðin við kórónuveirunni sýna hvað hægt er að gera þegar mikið liggur við. Veiran er vissulega óþekkt vá, en smit á sjúkrahúsum eru þekkt. Þar með er þó ekki sagt að þau séu sjálfsögð. Vísbendingarnar sem raktar voru hér fyrir ofan um að hreinlæti hefði haft áhrif á gengi sjúkdóma í samfélaginu almennt gefa líka tilefni til að staldra við. Þekking er til staðar, en það er eitt að vita, annað að gera. Iðulega er talað um að ekkert verði eins eftir kórónuveirufaraldurinn og flest er það að líkindum ofmælt, en eitt mætti þó að ósekju breytast og það eru viðmiðin í hreinlætismálum. Sú breyting gæti skipt sköpum.