Bjarni Ólafsson fæddist 29. júní 1948. Hann lést 10. apríl 2020.

Útförin fór fram 5. maí 2020.

Það var haustið 1967 að leiðir okkar verðandi bekkjarfélaga í Samvinnuskólanum á Bifröst lágu saman. Þetta var óvenju fjölmennur árgangur. Ungt fólk víða að sem hugði á tveggja ára skólanám á Bifröst.

Samvinnuhreyfingin var á þessum tíma umsvifamesta fyrirtæki landsins með bakland í kaupfélögum allt í kringum landið. Þetta endurspeglaðist í samsetningu nemenda sem komu úr öllum landsfjórðungum. Við vorum 38 sem hófum nám í 1. bekk þetta haustið og áttum eftir að dvelja á Bifröst næstu tvo vetur. 13 stúlkur og 25 piltar.

Bjarni Ólafsson sem hér er kvaddur var einn úr þessum hópi, kominn frá Króksfjarðarnesi. Snemma var ljóst að í Bjarna bjó mannkostamaður. Hann var í senn glæsilegur á velli, greiðvikinn og hrókur alls fagnaðar.

Í Samvinnuskólanum var öflugt félagslíf og þar blómstraði Bjarni. Á síðara námsárinu á Bifröst kom við sögu skólamær úr yngri bekknum, Rannveig Guðmundsdóttir. Þau Bjarni rugluðu saman reytum, giftu sig 1972 og sama ár fæddist þeim sonurinn Guðmundur.

1973 ræðst Bjarni til starfa hjá Bifreiðadeild Sambandsins sem þá var. Bílasala átti eftir að verða hans helsti starfsvettvangur og lengst af hjá B&L meðan heilsa og orka leyfðu.

Þrátt fyrir að hafa í áratugi glímt við illvígan heilsubrest var Bjarni jafnan hress í bragði. „Heilsugóður“ var ávarpið sem hann notaði gjarnan þegar fundum okkar bar saman.

Við vottum Rannveigu og fjölskyldu okkar dýpstu samúð.

Blessuð sé minning Bjarna.

Bifrastarfélagar 1969,

Kristján Pétur Guðnason

og Sigríður Árnadóttir.

Nú kveðjumst við kæri vinur og fóstri.

Það var fyrir rúmum 40 árum að ég fór að vinna sem sölumaður hjá Véladeild SÍS og var svo heppinn að fá sem yfirmann og síðar góðan félaga Bjarna Ólafsson. Við fengum að vinna meira og minna saman þar til hann lét af störfum sem bifreiðasali þá hjá BL.

Í einni af okkar fjölmörgu ferðum um landið fyrir mörgum árum tókum við loforð hvor af öðrum – þótt það hafi verið sagt í léttum dúr og fléttast inn í eitthvert samtal okkar – um að sá sem færi á undan myndi skrifa um hinn. Nú þegar komið er að því er það ekki eins létt og við létum þá.

Við fengum að fara margar sýningarferðir hingað og þangað um landið, sem sumar hverjar eru ógleymanlegar.

Þá fengum við innsýn í lífið hvor hjá öðrum. Þótt hann hafi verið nokkrum árum eldri var það ekki að sjá í vinnu; kappið og eljan gagnvart vinnu var ótrúleg.

Hvað sem á hann var lagt, öll þessi veikindi og áföll, var hann alltaf reistur og virðulegur og snyrtimennskan í fyrirrúmi.

Ég gæti sennilega setið og skrifað margar síður um sögur úr ferðum okkar og samvinnu í gegnum tíðina en læt kyrrt liggja og geymi þær í huga mér.

Ég kveð þig með söknuði, minn kæri. Guð veri með þér og fjölskyldu þinni.

Jóhann Berg Þorgeirsson.

Ég kynntist Bjarna fyrst í kringum 1975, en þá kom Jón bróðir hans í Vogaskóla og lentum við saman í bekk. Mikill og góður vinskapur myndaðist í milli okkar Jóns, sem haldið hefur síðan. Vegna vinskapar okkar vorum við mikið inni á heimilum hvor annars og smátt og smátt kynntist ég systkinum Jóns og foreldrum. Það var svo nokkrum áratugum síðar að ég var svo heppinn að kynnast Bjarna mjög vel, en ég var ráðinn til Ingvars Helgasonar sem framkvæmdastjóri 2007. Þar endurnýjuðum við Bjarni kynni frá fyrri tíð, en við höfðum þó alltaf vitað af hvor öðrum enda keppinautar í mörg ár, þar sem ég hafði verið hjá Toyota til margra ára.

Mig langar að minnast þessa ótrúlega drengs sem svo mikið var reynt á í gegnum tíðina með alls konar verkefnum sem flest sneru að heilsu hans og atgervi. Ég ætla ekki að tíunda hér hver þessi verkefni voru, en þau voru bæði mörg og erfið. Það verður að segjast eins og er að Bjarni var einn mesti nagli sem ég hef kynnst.

Aldrei kvartaði hann í okkar eyru og alltaf var hann kominn í vinnu aftur löngu áður en búist var við honum, miðað við umfang verkefnisins.

Ég var reyndar ekki hissa, enda hef ég ekki unnið með betri mönnum, þótt margir af vinnufélögum mínum hafi verið framúrskarandi fólk.

Bjarni var einfaldlega frábær starfsmaður og yndislegur vinnufélagi. Alltaf jákvæður og vildi allt fyrir alla gera, enda átti hann orðið hundruð, ef ekki þúsundir, viðskiptavina sem ekki vildu tala við neinn annan sölumann.

Bjarni var farinn að hlakka til að hætta að vinna um sjötugt og ætlaði að gera svo margt þegar hann væri kominn á eftirlaun, en örlögin gripu inn í og breyttu öllu með slysi sem hafði mikil áhrif á áform hans og getu til að gera það sem hann langaði að gera á eftirlaunaárunum.

Mig langar að kveðja Bjarna og þakka fyrir yndisleg ár sem við áttum saman í bílasölunni og um leið senda Rannveigu eiginkonu hans, Guðmundi syni þeirra og fjölskyldu Bjarna mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Takk fyrir að hafa fengið að hafa hann öll þessi ár.

Skúli K. Skúlason.