Oddur K. Sæmundsson fæddist 12. maí 1950. Hann lést 25. apríl 2020.

Útför Odds fór fram í kyrrþey.

Í dag fer fram útför elsku bróður okkar Odds Sæmundssonar.

Oddur var á milli okkar systra í aldri, litli bróðir Siggu og stóri bróðir Jónu.

Æskuárin í Keflavík liðu við leik og störf og samfélagið á Framnesveginum hélt vel utan um okkur. Þar voru börn í öllum húsum og sterk vináttubönd mynduðust fljótt milli Odds og Hilmars. Nálægðin við sjóinn og frystihúsin í nágrenni við heimili okkar hafa líklega haft áhrif á ástríðu hans fyrir sjómennsku og veiðum. Snemma byrjuðu Oddur og Hilmar að skapa verðmæti úr fiski, líklega ekki eldri en 10 ára.

Oddur var duglegur og líflegur og þurfti alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni, og líklega ekki alltaf þótt gaman að hafa Jónu í eftirdragi.

Óvenjulegar aðstæður í fjölskyldu okkar á þessum tíma urðu til þess að tengsl okkar systkina og tryggð urðu mjög sterk. Oddur fann snemma til ábyrgðar gagnvart okkur systrum og segja má að hann hafi verið kletturinn okkar alla tíð og fyrir það erum við ætíð þakklátar.

Við minnumst þess líka að Oddi þótti ótrúlega gaman að stríða okkur en þegar hann fann að nóg var komið var stutt í hlýjuna og gleðina.

Fjölskyldan flutti til Reykjavíkur en Oddur sá ekkert annað en sjómennsku og var á sjó frá 15 ára aldri frá Keflavík og minnumst við systur þess hve sjóveikur hann var í byrjun en aldrei hvarflaði að honum að gefast upp. Hann hóf nám ásamt Hilmari við Sjómannaskólann 17 ára. Keflavík togaði áfram í hann og fljótlega eftir að námi lauk festu þeir vinirnir kaup á trillunni Sæfugli og þar með hófst þeirra útgerðarsaga. Oddur var fengsæll og lánsamur skipstjóri, hann var hörkutól og ákafur í sjósókn og óhætt er að segja að menn sóttust eftir plássi hjá honum.

Oddur kynntist Jónínu ungur og stofnuðu þau heimili í Keflavík, þau voru dugleg og samhent í uppeldi barna sinna, þeirra Helgu Jóhönnu, Guðmundar og Sæmundar. Þó viðvera Odds á heimilinu hafi oft verið stopul þá var hann mikill fjölskyldumaður og velferð hennar skipti hann öllu máli.

Fjölskyldur okkar systkina ólust upp við það að vera í miklum samskiptum og börnin okkar dvöldu oft á heimilum hvert annars.

Góð tengsl okkar skiluðu sér til barnanna okkar og mynduðust sterk vináttubönd milli þeirra. Við minnumst með gleði margra ferðalaga erlendis bæði með og án barna.

Sigga man vel fyrstu utanlandsferð Odds og Hilmars þegar þeir fóru með henni og Dóra til Kaupmannahafnar og London kornungir og reynslulausir.

Eftir lát föður okkar eignuðumst við systkinin sumarbústað sem hann hafði byggt í Borgarfirði, þar höfum við fjölskyldurnar átt góðar stundir saman og framkvæmdagleði Odds naut sín þar.

Eitt árið buðu Oddur og Jónína okkur systrum og mökum á skemmtibátinn Ugga sem staðsettur var á Majorca. Oddur hafði áhyggjur af sjóveiki okkar systra sem reyndist algjör óþarfi og áttum við yndislega viku siglandi saman um Miðjarðarhafið með öllum lystisemdum.

Við þökkum Oddi fyrir samfylgdina og biðjum Guð að blessa fjölskyldu hans.

Jóna og Sigurveig (Sigga).

Kvaddur er í dag öðlingurinn Oddur Sæmundsson. Vinur og tengdafaðir dóttir okkar.

Ótal gleðistundirnar áttum við með þeim hjónum Odd og Jónínu. Efst í huga er sigling á Ugga frá Mallorca til Menorka, með fyrsta barnabarnið hana Huldu Sóllilju, þá 3ja mánaða. Það var ógleymanleg ævintýraferð. Okkur þótti vænt um að fá að vera öll saman á jólum og áramótum með barnabörnunum, auk fjölmargra samverustunda, bæði hér heima og erlendis. Ekki skemmdi afi Oddur það á gamlárskvöldum með myndarlegum sólum, blysum og rakettum sem skotið var upp í kassavís. Óli afi vandi reglulega komur sínar í Heiðarhornið svo þeir gætu horft saman á enska boltann. Voru þeir í takt að hrópa á réttum stöðum og engin ágreiningur um að besta liðið væri Liverpool.

Við minnumst Odds með þakklæti og söknuð í huga, og sendum Jónínu, börnum, barnabörnum og öðrum aðstandendum, okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Hulda og Ólafur

(Óli) á Stað.

Fallinn er frá allt of snemma vinur minn Oddur Sæmundsson skipstjóri. Oddur hefur barist við illvígan sjúkdóm undan farinn ár, sem að lokum hafði betur.

Kynni okkar Odds hófust á unglingsárum, þegar Stapaböllin stóðu sem hæst, og rúnturinn upp og niður Hafnargötuna var algengur. Oddur átti alltaf flotta bíla og það var gaman á rúntinum með honum. Það er varla hægt að minnast á Odd nema að hafa Hilmar Magnússon í hinu orðinu; þeir ólust upp í sömu götunni og störfuðu saman alla tíð, en þeir stofnuðu útgerð saman sem þeir ráku til margra ára.

En Oddur og Hilli komu oft á rúntinn í Sandgerði, þar voru glæsilegar stúlkur og góðir drengir sem gaman var að hitta. Oddur á Fordinum og Hilli á Volvoinum, engir smá kakkar, við hinir áttum ekki séns í þessi bílamál.

En Oddur fór að fara óeðlilega oft í Borgarfjörðinn í sumarbústað fjölskyldunnar sem nú heitir Sæmundarkot, að okkur fannst. Maður uppsker eins og maður sáir segir einhvers staðar, en þar fann hann ástina sína hana Jónínu. Svo við Hilli fórum oft með okkar dömur, Jórunni og Þórunni, í heimsókn í Sæmundarkot og áttum við alltaf góðar stundir á þeim bæ.

Þarna kynntumst við fyrst grillmatnum, en einn af vinum okkar hann Danni var snillingur í þeirri grein. Grilluðu kjúklingarnir og holusteiktu lambalærin, þetta er allt ógleymanlegt.

Oddur var alltaf hrókur alls fagnaðar og alltaf gaman að heimsækja þau hjón þangað og einnig á heimili þeirra á Heiðarhornið í Keflavík.

Oddur var aflakló á sjónum sem skipstjóri og var það fengur að fá skipspláss hjá þeim á bát þeirra Stafnesinu. Ég var eitt haustið ráðinn sem kokkur á Stafnesið. Það var mikil reynsla sem ég fékk þar, enda ákvað ég að helga mig því að vera kokkur í landi, eftir þá reynslu, enda alltaf sjóveikur. Lokamáltíðin mín um borð á Stafnesinu þetta haustið var einmitt einn af uppáhaldsréttum hans, lambakótelettur í raspi.

Eftir standa góðar minningar um góðan dreng, megi hann í friði fara.

Við hjónin sendum Jónínu, Helgu, Guðmundi, Sæmundi og fjölskyldum þeirra innilegustu samúðarkveðjur. Guð blessi minningu hans.

Axel og Þórunn.

Góður vinur og fyrrverandi samstarfsmaður er fallinn frá mörgum árum of snemma; við erum að tala um skipstjórann Odd Sæmundsson.

Samstarf okkar hófst árið 1992 þegar Teddi hringdi í þá félaga Hilmar og Odd og bað þá að geyma fyrir okkur aflaheimildir yfir kvótaáramótin það ár.

Með þeim gjörningi hófst samstarf sem stóð í 10-11 ár, eða allt þar til þeir Hilmar og Oddur seldu Stafnesið.

Oddur var fengsæll skipstjóri, ósérhlífinn og duglegur og sótti sjóinn stíft.

Það var engin lognmolla í kringum hann, það vita þeir sem til þekkja, ef fiskur var í sjónum þá fiskaði Oddur.

Þetta samstarf gekk mjög vel þrátt fyrir skapstóra menn í forsvari, allt handsalað með handabandi og aldrei bar þar skugga á og allir sáttir.

Við minnumst þessa tímabils ávallt með gleði því það var svo gaman þó mikið væri að gera.

En þegar Oddur hætti til sjós kom annað tímabil; tímabil vináttu og samveru með þeim hjónum Jónínu og Oddi og það var sko „fallegt í Færeyjum“.

Við ferðuðumst saman til Majorca þar sem við sigldum með þeim, til Tenerife og svo auðvitað til Kanarí. Þau buðu okkur í sumarbústaðinn, Sæmundarkot, sem er þeirra sælureitur í Borgarfirði og þar var sko dásamlegt að vera með þeim.

Tvær ferðir standa þó upp úr, það var á haustdögum 2018 þegar við fórum til berja í Fjörður og Flateyjardal. Við gistum á Grenivík á gististað sem var alveg niður við fjöruborð og þegar við vorum búin að vera annan daginn í Fjörðum og hinn í Flateyjardal var nú gott að koma í náttstað, fara í heita pottinn, horfa út á fjörðinn í blíðskaparveðri og sjá sólina setjast í sæinn og dreypa á bauk.

Þarna var okkar maður farinn að finna verulega fyrir verkjum í öxl, sem seinna kom í ljós að var krabbamein.

Hin ferðin var þegar þau hjón mættu óvænt til Kanarí í nóvember sl. þar sem við Teddi vorum að fagna 70 ára afmæli og 50 ára brúðkaupi, mætt til að fagna þessum áfanga með okkur, svo sæt bæði.

Þarna átti Oddur oft erfitt vegna kvala, oft þreklaus en alltaf hress og stutt í húmorinn, hann var betri í dag en í gær og þetta var allt að koma og hann ætlaði sko sannarlega að vinna vágest þann er á hann herjaði, annað var ekki í myndinni.

Ekki má gleyma að minnast á minigolfið, í það var farið á hverjum degi og suma daga tvisvar, þar kom keppnisskapið vel í ljós og yfirleitt vann hann okkur enda var hann í leiðinni að kenna okkur tæknina.

Það verður öðruvísi sumarið framundan bæði vegna Covid en aðallega vegna þess að það er enginn Oddur sem hringir og skipuleggur einhverja ferð.

Við munum sakna hans sárt en um leið þökkum við fyrir dásamleg kynni og allar góðu samverustundirnar sem við áttum saman.

Að lokum biðjum við almættið að vaka yfir Jónínu, börnum þeirra, tengdabörnum og barnabörnum í framtíðinni.

Minning þín er ljós í lífi okkar.

Kær kveðja, þínir vinir,

Jóna Halla Hallsdóttir

og Theodór Guðbergsson (Teddi).

Til þín

Ég þakka Guði löngu liðinn dag

sem lét mig eignast þig að ævivin.

Og öll þau blóm sem uxu á þinni leið

með ilm og fegurð hresstu og glöddu mig.

Og birtan sem þú breiddir yfir allt

sló bjarma á lífið allt í kringum þig.

Svo líða dagar, ár og ævitíð

og ýmsum blikum slær á loftin blá.

Í sorg og gleði alltaf varstu eins

og enginn skuggi féll á þína brá.

Svo brast á élið, langt og kólgukalt

og krafan mikla um allt sem gjalda má.

Og fljótið niðar enn sem áður fyrr

og ennþá flúðin strýkur næman streng.

Við blæþýtt ljóð, um blóm og sumaryl

og bjarta kyrrð – í minningu um þig.

(Oddný Kristjánsdóttir)

Kæri vinur, þegar að leiðarlokum er komið er margs að minnast og margt að þakka. Allt það sem við höfum brallað saman um ævina er ekki hægt að telja upp í stuttri minningargrein. Þú varst ávallt hrókur alls fagnaðar og aldrei nein lognmolla í kringum þig. Við eigum góðar minningar frá ferðum okkar bæði innanlands og víðs vegar um heiminn og alltaf var gaman að vera í kringum ykkur Jónínu.

Þú varst hörkuduglegur skipstjóri og afreksmaður á sjónum, sóttir stíft og gerðir miklar kröfur til áhafnar þinnar en mestu kröfurnar gerðir þú til sjálfs þín og uppskarst ríkulega.

Um leið og við vottum fjölskyldunni okkar dýpstu samúð þökkum við fyrir vináttu og samstarf í marga áratugi sem aldrei bar skugga á.

Jórunn og Hilmar.

Jááá sæll! hrökk gjarnan upp úr Oddi þegar mikið lá við og það var oft. Oddur var brimskafl í athöfnum og hugsun, stór í sniðum, fylginn sér og ákafur. Á fundum Knattspyrnudeildar Keflavíkur tók hann menn snarpt á í spjallinu og þeir sátu þögulir á eftir meðan hann tróð tóbaki í nefið. Mesta fjörið var þegar hann var farinn að hlæja svo mikið að síðustu setningarnar köfnuðu í hlátrinum. Þá var hann búinn að gjörsigra félagana og tóbakstaumarnir láku úr nefinu og bréfsnifsi komin á loft til bjargar.

Oddur var Keflvíkingur og Liverpoolmaður fyrir allan peninginn, sigurreifur og ætlaði að drekka 20 ára gamalt Liverpoolrauðvínið á sigurstundu í vor. Við gömlu félagarnir munum halda upp á þá stund af virðingu við fallinn félaga. Síðustu samverustundir okkar voru á léttari nótunum, svo við kæmumst báðir í gegnum þær. Hann sat uppi og ég spurði hvort það hjálpaði að vera í Liverpoolsokkum. Svarið verður ekki haft eftir, en hann snýtti sér hressilega og bætti við: „Manchestermaður skilur þetta ekki, Liverpoolsokkarnir gera gæfumuninn.“ Oddur var enn sjóðheitur og trúr á okkar síðasta fundi. Hann var nagli. Já algjör nagli í gegnum veikindin eins og lífið þar sem hann sótti stíft og fiskaði vel. Skipstjóri sem skilaði öllu sínu í land þótt oft væri róið á tæpasta vað. Þeir fiska sem róa og það var ekkert gefið eftir og ræst þegar aðrir lágu í höfn og lagt í 'ann, vestur fyrir opinn Kamar. Þar sem úthafsöldurnar risu hæst og ekkert grín að eiga fyrstu bauju. Þeir fengu góða lexíu út í lífið peyjarnir sem voru með honum á sjó og gleyma því aldrei. Að vera með 45 tonn af óslægðum vertíðarfiski að meðaltali í róðri á vetrarvertíð gera ekki nema yfirburðamenn og skipstjóri sem þekkir miðin og þorskinn eins og lófann á sér. Oddur var vandvirkur og skannaði bleyðurnar áður en hann lagði netin fyrir þorskinn. Álagið var oft mikið á bát og menn, teinar voru undir slitum og það var sjaldan tími að fá sér smók á milli bauja. Svo bannaði hann að reykja í borðsalnum fyrstur í öllum flotanum og fylgdi því eftir eins og enginn væri morgundagurinn. Staðfastur og sókndjarfur skipstjóri á Stafnesi KE 130 og skipsrúmið var eftirsótt.

Oddur var glæsilegur maður á velli, glaðlegur og bjartur sýnum sem skapaði sér eftirsóttan orðstír meðal þeirra sem sigldu með honum í lífsins sjó. Við Sigga kynntumst Oddi og Jónínu fyrir 17 árum þegar við fluttum á Suðurnes og það var okkar lán. Hjálpsemin og greiði lífsins gerði okkur kleift að hefja nýtt líf á nýju heimili. Oddur og fjölskylda stóðu í stafni og veittu okkur skjól og styrk sem gerði okkur gæfumuninn í lífinu. Það verður aldrei fullþakkað. Oddur var ankerið í fjölskyldunni sem var brimvörn hans þegar síðustu brotsjóirnir gengu yfir og ekkert varð við ráðið. Hann var stoltur af þeim og uppruna sínum.

Góður drengur hefur barið nesti sitt fyrir aldur fram og siglir nú til frekari sóknar á nýjum miðum. Við hjónin eigum minningar um góðan vin sem aldrei mun ganga einn. Vottum Jónínu, börnum þeirra og fjölskyldu samúð.

Ásmundur Friðriksson og Sigríður Magnúsdóttir.

Kveðja frá Knattspyrnudeild Keflavíkur

Keflavík hefur átt því láni að fagna að eiga fjölda máttarstólpa sem hafa lagt sitt af mörkum fyrir félagið og komið knattspyrnunni í Keflavík á þann stall sem hún er nú á. Einn af þeim, Oddur Sæmundsson, er nú fallinn frá aðeins 69 ára að aldri. Oddur var sannur Keflvíkingur í orðsins fyllstu merkingu. Hann mætti á alla leiki Keflavíkur og studdi liðið sitt bæði í orði og á borði. Oddur var sæmdur bæði brons- og silfurmerki Keflavíkur íþrótta- og ungmennafélags fyrir störf sín í stjórn knattspyrnudeildar Keflavíkur þar sem hann sat í um áratug. Auk þess hlaut Oddur starfsmerki UMFÍ árið 2016.

Knattspyrnudeild Keflavíkur kveður fallinn félaga og þakkar af alúð fyrir vel unnin störf í þágu knattspyrnunnar.

Við sendum innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldu og ástvina.

Sigurður Garðarsson,

formaður knattspyrnu-deildar Keflavíkur.

Lát akker falla! Ég er í höfn.

Ég er með frelsara mínum.

Far vel þú æðandi dimma dröfn!

Vor Drottinn bregst eigi sínum.

Á meðan akker í æginn falla.

Ég alla vinina heyri kalla,

sem fyrri urðu hingað heim.

(Þýð. Vald. V. Snævarr)

Í dag er kvaddur vinur góður, það er alltaf söknuður að kveðja vin, eftir samferð í gegnum lífið í áratugi, á landi og sjó, þar sem vinátta og tryggð var alltaf höfð í hávegum. Vinur sem var trúr sínu starfi og með óbylandi trú á því sem hann tók sér fyrir hendur, eins og róa til fiskjar með þorskanet allt árið og skila ótrúlegum árangri sem fáir trúðu á, síðan ráðist þið í það æskufelagarnir að láta byggja fyrir ykkur skip fullkomið og glæsilegt á sínum tíma ,og síðan útbúa skip til túnfiskveiða.

Til þess þurfti mann eins og þig sem stóðst keykur við það sem þú ætlaðir með þínu fólki og þínum gjörfuleika. Það var ekki bara sjómennskan sem dreif þig áfram, áhugi á íþróttum og óbilandi trú á þínu liði svo sem eins og Keflavík og Liverpool, þar vorum við þó alltaf sammála.

Það var þétt og góð kveðjan er við hittumst síðast, „við hittumst kannski fljótlega aftur“ sagði hann, þá langt leiddur af þeim sjúkdóm er hrjáði hann. En mér fannst í þessum orðum að hann vissi hvert stefndi. Hann var þó keykur og hress, beinn í baki og glæsileikinn skein af honum sem ungur væri.

Það verða örugglega fagnaðarfundir og gleði mikil þegar þú kemur á fund brottkallaðra vina Árna Vikars, Sigurðar Steinar og Buggu hans Óla Björns.

Að lokum vil ég þakka þér það trúnaðartraust sem milli okkar ríkti alla tíð.

Fjölskyldu Odds Sæmundssonar vottum við Edda okkar dýpstu samúð,

Runólfur Guðmundsson.

Oddur tengdapabbi minn og vinur var einstakur maður í alla staði. Alveg frá því að ég hitti hann og Jónínu fyrst fannst mér ég alltaf velkomin í Heiðarhornsfjölskylduna góðu. Fyrir það er ég endalaust þakklát. Oddur var mikill fjölskyldumaður og gerði allt fyrir alla. Hann læddist sjaldan með veggjum enda stór persóna sem fyllti ávallt herbergið af kraftmikilli og jákvæðri orku. Hann sá alltaf það góða í fólki, var hlýr og kærleiksríkur og með einstaklega fallega nærveru. Við Sæmi sóttum mikið í að umgangast þau hjónin, hvort sem það var heima hjá þeim í Keflavík, uppi í sumarbústað eða erlendis.

Alltaf var stutt í brandarana og lífsgleðin var mikil. Sjaldan sat hann auðum höndum, oftast kominn í vinnugallann, farinn að þrífa bílana, þvo stéttina eða byggja við bústaðinn Sæmundarkot í Norðurárdal. Hann var alltaf með puttann á púlsinum í fréttamálum og ef maður þurfti að vita eitthvað tengt veðri var hann rétti maðurinn til að tala við. Hann var mikill morgunhani og hann hlakkaði alltaf til að byrja daginn, við áttum það sameiginlegt.

Oddur var til fyrirmyndar, var frábær afi og krakkarnir okkar Sæma, þau Saga Björk, Oddur Logi og Aron Pétur, dýrkuðu hann. Það var aðdáunarvert að fylgjast með honum í veikindaferlinu síðustu árin og hvernig hann tókst á við allt með jákvæðni og seiglu fram á síðasta dag.

Elsku Oddur, takk fyrir allt. Við munum halda minningu þinni á lofti.

Edda Björk.

Það er ekki sjálfgefið að fólkið sem býr þér við hlið þegar þú búsetur þig á nýjum stað og byggir upp heimili frá grunni verði vinir þínir. Lóðarmörk ber að virða, nema erindi sé brýnt, annað er rof á einkalífi. Ágengar plöntur virða ekki endilega slíkan boðskap, heldur geta teygt úr sér til allra átta og í sumum tilfellum valdið deilum. Sumar, eins og góðir berjarunnar, geta þó veitt öllum gleði þar sem greinar sem teygja sig yfir lóðamörkin teljast til afnota fyrir grannana. Góðir grannar vita hverjir af öðrum án þess að hnýsast um hagi hinna. Þeir eru til staðar þegar á þarf að halda og geta tengst sterkum böndum, sérstaklega ef afkvæmin eru á sama reki með sameiginleg áhugamál. Þess höfum við fengið að njóta ríkulega undanfarna áratugi. Við sem búum hér hlið við hlið og á móti hvert öðru í enda Heiðarhorns höfum horft upp á baráttu góðs, litríks granna við illvígan sjúkdóm undanfarin misseri. Þeirri baráttu er nú lokið og grannarnir sem við eðlilegar aðstæður myndu skiptast á orðræðu yfir limgerðin horfa nú hnípnir niður í moldina um leið og illgresið er fjarlægt. Við söknum glæsimennis sem sópaði að þegar af sjónum var komið, fjölskylduföður sem lét sig velferð fjölskyldunnar miklu varða. Hann deildi með sér gæðum, sótti moldarhlöss á vörubifreið sem við hin fengum að renna í. Hann var sannur Keflvíkingur og af lífi og sál stuðningsmaður íþróttafélaga bæjarins. Við sem deilum hér bílskúrsvegg höfum í áranna rás dáðst að vinnusemi og færni sjómannskonunnar, sem með eldmóði tókst á við allar áskoranir sem á vegi birtust, úti og inni.

Nú þegar hallaði undan hélt þessi aðdáunarverða fjölskylda þétt saman eins og ætíð, þrátt fyrir hindranir kórónuveirunnar.

Það hafa verið sönn forréttindi að deila þessum bílskúrsvegg í gegnum tíðina og fá að skiptast á orðum og gjörðum síðustu vikurnar. Megi minningin um góðan mann lifa. Við vottum Jónínu og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Konráð Lúðvíksson

og Ragnheiður Ásta

Magnúsdóttir.