Afhending Sigríður B. Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri, Áslaug, Jóhann K. Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn, Hulda E. Björgvinsdóttir, settur lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, og Ásgeir Þ. Ásgeirsson yfirlögregluþjónn.
Afhending Sigríður B. Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri, Áslaug, Jóhann K. Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn, Hulda E. Björgvinsdóttir, settur lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, og Ásgeir Þ. Ásgeirsson yfirlögregluþjónn. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ragnhildur Þrastardóttir ragnhildur@mbl.is Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra afhenti lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu nýja landamærabifreið í gær.

Ragnhildur Þrastardóttir

ragnhildur@mbl.is

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra afhenti lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu nýja landamærabifreið í gær.

Bæði dómsmálaráðuneytið og innri öryggissjóður lögreglunnar standa straum af bifreiðinni, að sögn Áslaugar.

Bifreiðin er býsna tæknivædd og sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Hún er komin hingað til lands vegna kröfu frá Schengen um eflt eftirlit á höfnum höfuðborgarsvæðisins og Reykjavíkurflugvelli, að sögn Áslaugar.

„Hér er um að ræða eina bifreið sem getur sinnt öllum þeim kröfum sem eru um landamæraeftirlit á stór-höfuðborgarsvæðinu. Fyrir örfáum árum gerði Schengen úttekt hérlendis sem hafði í för með sér athugasemdir um eftirlitið.

Ákveðið var að bregðast við athugasemdunum með einni bifreið sem gæti þá sinnt landamæraeftirliti með öflugum hætti hér á stór-höfuðborgarsvæðinu og hjálpað til í löggæslu þegar farið er að athuga ferðaskilríki og annað,“ segir Áslaug.

Í bifreiðinni er meðal annars að finna búnað sem sker úr um það hvort ferðaskilríki séu gild eða fölsuð en Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, kynnti Áslaugu bílinn í gær og sýndi henni hvernig bíllinn myndi nýtast landamæraeftirlitinu.

Áslaug segir aðspurð að það sé ekki venjan að dómsmálaráðherra afhendi lögreglunni bifreiðar.

„Þetta er auðvitað sérstakt verkefni og dómsmálaráðuneytið kom sérstaklega að kostnaði á þessum bíl þar sem þetta er úttekt sem er reglulega gerð af Schengen.“

Nú á frekari vinna sér stað vegna úttektar Schengen.

„Nú um stundir eru lagabreytingar í þinginu sem miðast að því að uppfylla breytingar vegna sömu Schengen-úttektar,“ segir Áslaug.