Hugsun Sigríður Þorgeirsdóttir, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands, hvetur lesendur til að hvíla í eigin hugsun því öll séum við smáspekingar.
Hugsun Sigríður Þorgeirsdóttir, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands, hvetur lesendur til að hvíla í eigin hugsun því öll séum við smáspekingar. — Ljósmynd/Catrine Val
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigríður Þorgeirsdóttir, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands, „Það er heilmikil kúnst að baka súrdeigsbrauð. Súrdeigsbökunaræðið sem hefur gripið um sig er tímanna tákn.

Sigríður Þorgeirsdóttir, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands,

„Það er heilmikil kúnst að baka súrdeigsbrauð. Súrdeigsbökunaræðið sem hefur gripið um sig er tímanna tákn. Það er andstæðan við hamsturs-hugarfarið, að hugsa bara um eigið skinn og skeyta ekki um aðra, sem voru algeng fyrstu viðbrögð við samkomubanninu. Mér var gefin súrdeigsmóðir sem getur vaxið út í hið óendanlega við að vera að skipt á milli manna. Peningar og hlutir minnka þegar þeim er skipt. Súrdeigsmóðir er hins vegar forboði nýs hagkerfis gnægðar sem kemur í stað skorts- og skuldahagkerfis. Jörðin á nóg til að fæða heiminn.

Stefnum að súrdeigsmóður-hagkerfi gnóttar, samstöðu og heilunar jarðar og okkar sjálfra!

Ég þýddi með fallegri ljóðum síðari tíma, „Love After Love“ eftir Derek Walcott. Þetta ljóð er um að til þess að elska aðra þurfum við að læra að elska okkur sjálf. Sjálfsást hefur ekkert með sjálfselsku eða sjálfhverfu að gera. Eymd sjálfhverfu er að einblína á hvernig aðrir spegla mann. Sjálfselskuna skortir allt súrdeig og getur hvorki nærst á sjálfri sér né gefið. Sjálfsást er hins vegar að gefa gaum að eigin hjarta sem hefur ævinlega viljað þér vel þótt þú hafir kannski ekki alltaf tekið eftir því.

Vertu þín eigin vinkona /þinn eigin vinur!

Ást eftir ást

Sú stund mun renna upp

er þú fagnandi

heilsar sjálfri þér þar sem þú stendur

á dyraþrepinu, í þínum eigin spegli,

og hver um sig brosir við kveðju hinnar,

og segja, fáðu þér sæti. Lát nærast.

Á ný muntu elska þessa ókunnugu sem varst þú sjálf.

Gef vín. Gef brauð. Gefðu hjarta þínu

sjálft sig aftur, þessari ókunnugu sem

hefur elskað þig

all tíð, og sem þú vanræktir

vegna annarrar, sem kann þig utanbókar.

Taktu ástarbréfin úr bókahillunni,

ljósmyndirnar, örvæntingarskrifin,

kroppaðu eigin ímynd af speglinum.

Sit. Í fögnuði eigin lífs.

Didier Eribon, einn þekktasti félagsfræðingur Frakklands, skrifaði bókina Að snúa aftur til Reims . Hann kemur úr fátækri verkamannafjölskyldu sem hann rauf tengsl við og varð frjálslyndur, vinstrisinnaður, samkynhneigður menntamaður. Eftir dauða ofbeldisfulls föður tekur hann aftur upp samband við móður sína en mikið skilur enn á milli. Eribon hlustar og leitast við að skilja hvernig frönsk verkamannastétt hefur breyst úr kjósendum kommúnistaflokksins í fylgjendur þjóðernissinnaðra flokka. Þessar andstæður, hann og upprunafjölskyldan eru samt sama fólkið.

Reynum að skilja og dæmum ekki of fljótt!

MINISOPHY eða SMÁSPEKI er vefrit sem ég held úti ásamt Katrínu Ólínu hönnuði-hugsuði. Við dreifum örtextum og myndverkum á Facebook og Instagram. Smáspeki fjallar um málefni sem akademíska heimspekin sem er orðin svo sérhæfð skilur oft eftir á vegarkantinum. Þetta er núvitundarheimspeki, hversdagheimspeki og smáspekilegar æfingar. Myndmál og textar til að glæða hugsun um hluti og fyrirbæri sem eru næst okkur. Við erum öll smáspekingar.

Hvílum í eigin hugsun!