Michael Jordan og Phil Jackson fagna sjötta og síðasta meistaratitli sínum saman árið 1998.
Michael Jordan og Phil Jackson fagna sjötta og síðasta meistaratitli sínum saman árið 1998. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýir heimildarþættir um Chicago Bulls og Michael Jordan hófu göngu sína á Netflix í apríl. Áður óséð myndefni frá síðasta tímabili Jordans er notað og ferill hans og liðsfélaga skoðaður. Böðvar Páll Ásgeirsson bodvarpall@mbl.is

Þegar Chicago Bulls unnu annan NBA-meistaratitil sinn í röð og þann fimmta á sjö árum í júní 1997 var ekki alls kostar víst að liðið kæmi saman í sömu mynd um haustið.

Framtíð þjálfarans, Phil Jackson, var í mikilli óvissu enda hann samningslaus og mjög stirt var á milli hans og framkvæmdastjóra liðsins, Jerry Krause. Vildu einhverjir meina að Krause, sem setti bæði þetta lið og Bulls-liðið sem vann titilinn þrjú ár í röð 1991-93 saman, væri ósáttur við að fá ekki þá athygli sem hann átti skilið fyrir árangurinn.

Athyglina fengu Jackson og leikmenn liðsins. Þar ber hæst að nefna Michael Jordan, sem enn í dag er af mörgum talinn vera besti körfuknattleiksmaður sögunnar. Jordan gaf það strax út eftir tímabilið að hann hygðist hætta í körfubolta ef Jackson þjálfaði ekki liðið. Hann hefði einfaldlega engan áhuga á því að spila fyrir annan þjálfara.

Ofan á þetta var næstbesti leikmaður liðsins og hægri hönd Jordans, Scottie Pippen, ósáttur við laun sín hjá liðinu. Hafði hann skrifað undir samning við liðið árið 1991 til sjö ára og því dregist aftur úr þeim sem sömdu síðar, enda hækkuðu laun leikmanna mikið á 10. áratugnum. Hann var því aðeins númer 122 á lista yfir launahæstu leikmenn deildarinnar þrátt fyrir að vera einn besti leikmaður hennar, jafnvel sá næstbesti, á eftir Jordan. Þá hafði Krause ítrekað reynt að skipta honum frá liðinu og andaði því köldu á milli þeirra kappa.

Eins og flestir körfuboltaunnendur þekkja kom liðið saman um haustið og vann titilinn þriðja árið í röð ári seinna og vann Jordan þar með sjötta titil sinn. Það merkilega er að Bulls-liðið, og þar með Jordan sjálfur, veitti myndatökuliði áður óþekktan aðgang að liðinu þetta tímabilið. Loks nú, rúmlega tuttugu árum seinna, fær almenningur að sjá afraksturinn í heimildarþáttaröðinni The Last Dance, sem fjallar um síðasta tímabil Jordan, Jackson og Pippen hjá Bulls.

Vill minna á sig

Birting myndefnisins sem safnað var tímabilið 1997-98 var frá upphafi háð samþykki Jordans. Þættirnir fóru því ekki í vinnslu fyrr en árið 2016 þegar Jordan gaf loks leyfi sitt. Þá áttu þættirnir ekki að vera sýndir fyrr en í júní á þessu ári, þegar úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar færi fram. En þegar íþróttaheimurinn lagðist í dvala var útgáfu þáttanna flýtt og allt kapp lagt á að klára þá sem fyrst. Var því vinnslu allra þátta ekki lokið þegar tveir fyrstu voru fóru í loftið 20. apríl síðastliðinn.

Athygli vekur að daginn sem Jordan gaf grænt ljós á þættina fór fram skrúðganga til að fagna fyrsta meistaratitli Cleveland Cavaliers og þriðja titli LeBron James, sem oft er borinn saman við Jordan. Tímasetningin gæti verið tilviljun en líklegt verður að teljast að með þátttöku sinni í útgáfu þáttanna vilji Jordan minna fólk á að hann sé sá besti sem uppi hefur verið, ekki James.

Hefur leikstjóri þáttanna, Jason Hehir, raunar hlotið nokkra gagnrýni fyrir að leyfa Jordan að stjórna frásögninni um of. Jordan réð því ekki hverja var rætt við fyrir þættina en hann virðist alltaf fá að eiga síðasta orðið þegar umdeild atvik eru rædd, t.d. í deilum sínum við Isiah Thomas eftir frægt atvik í úrslitum Austurdeildarinnar 1991.

Jordan var og er mikill keppnismaður. Svo mikill að hann átti það til að fara illa með liðsfélaga sína ef þeir stóðu sig ekki nógu vel að hans mati. Fór hann illa með unga leikmenn, lét þá heyra það og gekk í einhverjum tilfellum of langt. Hvort það var merki um einstakt keppnisskap og sigurvilja Jordans eða einfaldlega hrottaskap er erfitt að segja. Lítið virðist vera tekið á þessari hlið Jordans í þáttunum, hingað til að minnsta kosti. Tveir þættir koma út á hverjum mánudegi um þessar mundir, sjöundi og áttundi á morgun og þeir tveir síðustu viku seinna.

Það verður þó ekki deilt um getu Jordans á vellinum, vægi hans utan hans og óbilandi sjálfstraust. Þættirnir varpa ljósi á það hversu mikill sigurvegari Jordan var og er þeir líta yfir feril hans sjáum við umbreytingu hans frá einum besta stigaskorara deildarinnar yfir í leiðtoga sem veit hvað þarf til að vinna og gerir allt til að lið hans nái árangri.

Zen-meistarinn

Þjálfarinn Phil Jackson átti stóran hlut í þeirri breytingu. Hann var ráðinn sem aðstoðarþjálfari Bulls árið 1987. Hjá Bulls varð Jackson hrifinn af þríhyrningssókninni svokölluðu sem Tex Winter, sem einnig þjálfaði hjá liðinu, átti hlut í að þróa. Þegar Jackson var svo ráðinn aðalþjálfari liðsins varð sóknarafbrigðið aðalsmerki liðsins.

Þetta krafðist þess að Jordan treysti meira á liðsfélaga sína og boltinn fengi að ganga betur á milli manna. Í fyrstu var Jordan ekki alls kostar sáttur við ráðningu Jackson en árangurinn stóð ekki á sér; liðið vann meistaratitilinn strax á öðru ári Jacksons og undir lok ferilsins vildi Jordan ekki spila fyrir neinn annan.

Þegar komið var fram á árið 1997 var þungt á samskiptum þeirra Jackson og Krause og eftir að Jackson skrifaði undir eins árs samning við Bulls sagði Krause við fjölmiðla að þetta yrði síðasta ár Jackson hjá liðinu. Tjáði hann Jackson að þótt liðið ynni hvern einasta leik á tímabilinu yrði hann samt látinn fara.

Jackson fór óhefðbundnar leiðir í þjálfun sinni, lét leikmenn sína stunda jóga og hugleiða, og var kallaður Zen-meistarinn. Titill þáttaraðarinnar er kominn frá Jackson, en í aðdraganda umrædds tímabils kallaði hann það „síðasta dansinn“.

Sóttur til Vegas

Scottie Pippen var Bulls-liðinu gríðarlega mikilvægur. Hann var, eins og áður sagði, ósáttur við laun sín hjá liðinu og eldaði grátt silfur við Jerry Krause. Því er lýst í þáttunum þegar Pippen jós svívirðingum yfir Krause aftan úr liðsrútunni þar sem Krause sat fremst.

Til að láta skoðun sína í ljós frestaði Pippen aðgerð, sem hann hefði átt að fara í sumarið 1997 þegar tímabilinu lauk, til haustsins svo hann myndi missa af upphafi tímabilsins. Þegar það var svo hafið krafðist hann þess að vera skipt til annars liðs. Ekki var ósk hans uppfyllt og á endanum ákvað hann að vera um kyrrt eitt ár til viðbótar og freista þess að vinna sjötta meistaratitil sinn með Jordan og Jackson.

Annað mikilvægt púsl í liðinu var glaumgosinn Dennis Rodman. Innan vallar var hann þekktur fyrir gríðarlega vinnusemi og grófan en frábæran varnarleik en utan hans fyrir partístand og hármúnderingar.

Rodman vann tvo meistaratitla með Detroit Pistons áður en hann færði sig yfir til San Antonio Spurs. Þar átti hann erfitt uppdráttar en hjá Bulls blómstraði hann. Jordan og Jackson skildu að ekki var hægt að temja manninn, heldur gáfu honum þess í stað frelsi innan ákveðins ramma sem varð til þess að hann skilaði sem mestu til liðsins.

Gott dæmi um það er á miðju tímabilinu 1997-98 þegar Rodman fannst hann þurfa frí frá daglegu amstri atvinnumanns í körfubolta. Hann vildi þó ekki fara á sólarströnd og slaka á eins og flestir aðrir heldur til Las Vegas og detta í það með kærustu sinni, Carmen Electra. Jackson var efins en samþykkti að leyfa honum að djamma í tvo sólarhringa. Jordan var ekki sáttur, sagði að hann yrði aldrei kominn aftur eftir þann tíma. Fór það svo að tæplega fjórum dögum seinna kom Jordan sjálfur á hótelherbergi Rodman í Vegas og sagði honum að hypja sig á æfingu.

Þættirnir eru kærkomnir fyrir íþróttaunnendur sem eru orðnir langþreyttir á því að hafa ekkert til að horfa á á meðan kórónufaraldurinn gengur yfir. Þeir veita þeim sem ekki þekkja til innsýn á yfirburði Jordans á sínum tíma en fyrst og fremst nýtt sjónarhorn á þetta ótrúlega Bulls-lið.