[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Daði Logason er 12 ára strákur sem æfir karate hjá Karatefélagi Reykjavíkur, KFR, og hefur nýlega hafið æfingar með unglingalandsliðinu í karate. Daði æfir líka fótbolta hjá Þrótti og er í A-liði í 5. flokki.

Daði Logason er 12 ára strákur sem æfir karate hjá Karatefélagi Reykjavíkur, KFR, og hefur nýlega hafið æfingar með unglingalandsliðinu í karate. Daði æfir líka fótbolta hjá Þrótti og er í A-liði í 5. flokki. Hann er upprennandi íþróttakappi með gríðarlegt keppnisskap. Hann var svakalega ánægður að komast loksins á karateæfingu í vikunni, eftir margra vikna hlé vegna covid-veirunnar, orðinn leiður á að æfa einn heima.

Texti: Kristín Heiða Kristinsdóttir

Myndir: Kristinn Magnússon

Hvað varstu gamall þegar þú byrjaðir að æfa karate og hvers vegna valdir þú þessa íþrótt?

Ég byrjaði að æfa karate þegar ég var sex ára. Ég vildi æfa þessa íþrótt af því að afi minn æfði karate. Hann er mín fyrirmynd og hann hvatti mig mjög mikið til að byrja að æfa karate. Afi tók mig með á karateæfingu þegar ég var fimm ára, til að sýna mér hvernig þetta væri. Hann mætir líka alltaf ef ég er að keppa.

Fyrir krakka sem þekkja ekki karate og langar kannski að prófa, getur þú sagt þeim hvað þér finnst frábært við karate?

Þetta er sjálfsvarnaríþrótt, þannig að þeir sem æfa hana geta varið sig ef ráðist er á þá. Mér finnst mjög gaman að æfa karate og ég hef eignast góða vini í gegnum þessa íþrótt. Þetta eru krefjandi æfingar sem reyna á og maður verður því sterkur. Maður lærir líka að tileinka sér mikinn aga með því að æfa karate.

Hversu oft ferðu á karateæfingar í hverri viku?

Ég fer sex sinnum í viku.

Hvernig tilfinning var fyrir þig að byrja að æfa með unglingalandsliðinu í karate og mega því bráðum keppa fyrir Íslands hönd í útlöndum?

Það var mjög gaman og mikill heiður. Ég var rosalega ánægður. Mér finnst svo gaman að keppa.

Nú æfir þú líka fótbolta hjá Þrótti fjórum sinnum í viku og ert í A-liði í fimmta flokki, hvað er ólíkt við að æfa fótbolta og karate?

Mesti munurinn er að ég þarf að hlaupa miklu meira í fótboltanum, en það er meiri áhersla á styrktaræfingar í karate. Þessar ólíku æfingar nýtast mér vel í báðum íþróttum.

Daði var valinn í Pressulið Orkumóts í Vestmannaeyjum þegar hann keppti þar á fótboltamóti fyrir tveimur árum, en aðeins einn leikmaður er þá valinn úr hverju liði.

Áttir þú von á þessu?

Nei, ég átti alls ekki von á því, það kom mér rosalega á óvart. Þetta var lengi vel besta stund lífs míns. Þetta toppaði allt.

Hvernig hefurðu haldið þér í líkamlegu formi á meðan æfingar hafa fallið niður í margar vikur vegna covid-veirunnar?

Ég gerði æfingar hér heima á hverjum degi. Þjálfararnir í karate sendu æfingar á netinu sem við áttum að gera heima. Ég gerði til dæmis að minnsta kosti hundrað magaæfingar og hundrað armbeygjur á dag. Svo fór ég líka mikið út að hlaupa, ég hljóp meðal annars 21 kílómetra í einu, það var svakalega erfitt.

Daði er með gríðarlegt keppnisskap og hann er mjög tapsár. Geturðu lýst tilfinningunum sem þú upplifir þegar þú vinnur leik eða mót, og svo hvernig þér líður þegar þú tapar?

Mér líður rosalega vel þegar ég vinn, þá verð ég mjög glaður. Ef ég tapa þá tala ég ekki við neinn og verð rosalega reiður.

Hvað langar þig að

gera í framtíðinni?

Ég væri til í að vinna við eitthvað skemmtilegt og æfa karate og keppa í því. Ég er ákveðinn í að halda áfram í karate, en mér finnst líka mjög gaman í fótboltanum og þar hef ég kynnst mörgum skemmtilegum strákum.

Eitthvað að lokum?

Ég hvet alla til að prófa karate.