Jónína Bryndís Jónsdóttir fæddist 29. maí 1923. Hún lést 28. apríl 2020.

Útför Jónínu fór fram 7. maí 2020.

Elsku amma.

„Viltu ekki fá eitthvað að borða Aggi minn?“ Þessi orð eru skrifuð föst í minningu mína af þér, elsku amma, með tóninum þínum og ímyndinni af þér að opna alla skápa í eldhúsinu og rífa fram kræsingar þó svo að svarið oftar en ekki væri þegar komið: „Nei takk, amma mín, ég er ekki svo svangur.“ „Jú hvað er þetta, þú verður að borða eitthvað, þú ert að vaxa! Á ég að steikja egg og beikon eða viltu ekki fá smá sætt, kannski kökusneið?“

Ó, hvað ég sakna allra hlýju faðmlaganna þinna, elsku amma, og hlátursins sem alltaf var stutt í sama hvað á bjátaði. Hvernig þú hlóst svo innilega og lengi að þú varla gast hætt að hlæja. Þú vildir alltaf vera með og alltaf hafa alla nálægt þér og þegar þú ekki varst á fullu við að bera fram kræsingar eða í miðjum samræðum stóðstu í eldhúsglugganum og fylgdist með öllu því sem gerðist.

Allar samverustundirnar með þér, Agnari afa og Jonna frænda eru mér ofarlega í huga. Hvernig þú hugsaðir alltaf um okkur og þá sérstaklega hvernig þú stóðst eins og klettur í gegnum lífið með Jonna. Með forvitni þinni, hreinskilni, félagslyndi þínu, andlegum styrk og lífskrafti ertu leiðarljós sem ég hef og mun alltaf hafa sem fyrirmynd.

Elsku amma, ég veit að það er eigingjarnt og að við fengum meiri tíma en flestir fá, en það er sárt að kveðja. Það er sárt að útskýra fyrir dóttur minni að við getum ekki farið í heimsókn til langömmu, að hugsa til þess að þú getir ekki spillt henni áfram eins og þú spilltir mér með því að lauma nammi í vasann eða koma með skál fulla af súkkulaðirúsínum án þess að spyrja foreldrana. Að sjá hversu sárt henni finnst að þú kveðjir og þurfa að hughreysta hana vitandi að við fáum ekki hlýju faðmlögin sem eru mér svo dýrmæt og ég mun sakna meira en orð geta lýst.

Efst í huga mér er samt þakklæti, elsku amma, þakklæti fyrir allan þann tíma sem ég fékk með þér, fyrir allar útilegurnar, öll þau skipti sem ég gisti hjá ykkur, fyrir alla hádegisverðina í fjölbraut, fyrir allt skutlið hingað og þangað um Akranes, fyrir allar djúpu samræðurnar um daginn og veginn og fyrir þína hlýju nærveru. Jafnvel þegar ég var fluttur út fyrir landsteinana og þó að þú værir alltaf að segja mér að nú væri nú tími til að koma heim varst þú alltaf ofarlega í huga og nærvera þín mikil þegar ég kom í heimsókn til Íslands. Hvernig þú tókst alltaf opnum örmum á móti mér og dóttur minni og hversu augljóst það var að þú hugsaðir til okkar þegar þú sendir okkur bangsa og púða sem þú gerðir sjálf. Ég er líka þakklátur fyrir að hafa fengið að segja þér að ég væri loksins á heimleið. Að þú fékkst að heyra það, þó svo að ég gráti það sárt að þú fengir ekki að upplifa það fékkstu allavega að heyra það, „Elsku amma, ég er að koma heim!“

Elsku amma, þú ert kletturinn sem stóð af sér mikla baráttu í næstum 100 ár í góðu en erfiðu lífi á norðurhjara veraldar. Þú skilur eftir stóra hjörð afkomenda fulla af minningum og ást til þín. Nú tekur þú þér stað við hlið Agnars afa og Jonna frænda og færð loksins að hvíla lúin bein.

Hvíl í friði, elsku amma.

Agnar Sigurjónsson.

Langamma Jóna var algjört yndi. Hún var umhyggjusöm, dugleg og ekki síst gjafmild. Alltaf þegar maður fór að heimsækja hana fékk maður eitthvað gott í gogginn.

Hún gaf mér alltaf súkkulaðirúsínur í skál og kex með. Þegar hún spurði mig hvað ég vildi að drekka, sagði ég oftast vatn og þá sagði hún: „Viltu ekki fá mjólk? Það er engin næring í þessu vatni.“ Maður sagði ekki nei við því og fékk sér mjólk eftir allt saman.

Seinasta daginn sem ég talaði við ömmu var tveimur dögum fyrir andlát hennar. Þá var ég að hjóla fram hjá Höfða og ákvað að kíkja á hana og sjá hvernig henni liði. Við spjölluðum um hvað það væri stutt eftir af þessu samkomubanni og hlökkuðum bæði mikið til sumarsins og sólarinnar. Maður fór ekki í gegnum samtal með ömmu án þess að hún spurði hvernig öðru fólki liði í kringum mig.

Í þetta skipti spurði hún hvernig amma og afi í Súlunesi hefðu það og ég sagði henni frá því hvernig sauðburðurinn væri að bresta á.

Ef amma hefur kennt mér eitthvað í lífinu þá er það að halda áfram lífinu sama hvað, gera allt það sem maður getur gert til að halda hamingju og að vera ávallt jákvæður.

Ég er mjög þakklátur fyrir árin sem ég fékk með ömmu og að hafa kynnst henni svona vel. Það er alls ekki gefið að maður fái 16 ár með langömmu sinni.

Hvíldu í friði, elsku amma mín, og skilaðu kveðju til afa og Jonna.

Helgi Rafn Bergþórsson