Fróði Ploder fæddist 27. febrúar 1992. Hann lést af slysförum 7. apríl 2020.

Útförin fór fram í kyrrþey.

Mig setti hljóða þegar ég frétti af andláti Fróða Ploder. Sárt var að hlusta á sársaukann hjá elsta syninum og að vinasamband þeirra væri bara á svipstundu orðið minning ein. Svo sannarlega falleg minning sem á eftir að fylgja okkur alla tíð.

Leiðir þeirra lágu saman í Skerjafirði sem litlir guttar og það var strax frá fyrsta degi fallegt vinasamband. Skerjafjörðurinn var fyrir þeim eins og ein stór ævintýraeyja eða með öðrum orðum: þorp í borginni. Fyrir börn voru það forréttindi að fá að alast upp á stað sem þessum. Það þarf heilt þorp til að ala upp barn og ekki veitti af með svona uppátækjasöm börn eins og þeir voru. Það var fljótt ljóst að Fróði var hæfileikaríkur af guðsnáð. Það var alveg sama hvað hann tók sér fyrir hendur; hann varð færastur í öllu. Hann hafði alveg ótrúlega færni hvort sem var á hjóli, hjólabretti, línuskautum, trampólíni, söng, hljóðfæraspili og seinna á mótorhjólum. Hans náttúrulegu hæfileikar voru magnaðir og hann var aldrei hræddur við að prófa eitthvað nýtt. Það voru ekki bara hæfileikarnir, hann var einnig fallegasta barnið í hverfinu með sinn gullbrúna húðlit og mjallahvítu tennur.

Þegar ég heyri í hjólabretti vekur það ljúfsárar minningar um góða tíma þar sem tveir uppátækjasamir vinir léku sér saman og munduðu brettin frá morgni og fram á kvöld, eða alveg þangað til Þóra nágrannakona birtist í glugganum og sagði að nú væri alveg komið nóg!

Við áttum margar fallegar stundir saman við eldhúsborðið þar sem þeir hámuðu í sig pönnukökur eða eitthvað orkuríkt til að fylla á orkuforðann, til að halda út í daginn og leika meira.

Hann ávarpaði mig alltaf þegar hann kom inn: „sæl Kaja mín, hvað segir þú gott?“ og umræðurnar við borðið voru alltaf mjög eftirminnilegar.

Hann var verkalýðsfulltrúi hverfisins og passaði upp á að ekki væri brotið á neinum á neinn hátt eða reglugerðir ekki virtar í árlega kassabílarallinu. Hann var alveg óhræddur við að láta í sér heyra.

Þau voru ófá símtölin sem við mæðurnar áttum saman um uppátæki pörupiltanna, en við áttum oftast krók á móti bragði sem kom þeim oftar en ekki í opna skjöldu. Þá voru góð ráð dýr eins og sonur minn sagði einu sinni ógleymanlega í spjalli við Fróða þegar upp komst að þeir hefðu verið hjálmlausir á skellinöðrum: „Þær finna það á lyktinni ef maður gerir eitthvað af sér.“ Já við þekktum okkar heimafólk.

Síðast þegar ég hitti Fróða þá vatt hann sér að mér, þessi fallegi ungi maður, og tók með hlýjum faðmi utan um háls mér þéttingsfast og sagði: „Sæl Kaja mín, hvað segir þú gott, mikið er gott að sjá þig.“ Það fór ekki á milli mála í hjarta mínu hversu stóran þátt í lífi okkar þessi drengur átti og hversu fallegt og gott uppeldi hann fékk frá dásamlegum foreldrum.

Þessir erfiðu tímar sem herja á heiminn núna fá mann til að staldra við og hugsa um það sem virkilega skiptir máli í lífinu og að við fáum ekki marga sénsa. Þess vegna eigum við að nýta tímann vel og vera dugleg að minna þá á sem við elskum hversu mikils virði þeir eru.

Hjörtu okkar eru hjá fjölskyldu Fróða, ástvinum, vinum og öllum sem áttu eitthvað í þessum stórkostlega dreng. Megi minning hans lifa um ókomin ár.

Þótt sólin nú skíni á grænni grundu

er hjarta mitt þungt sem blý.

Því burt varst þú kölluð á örskammri stundu,

í huganum hrannast upp sorgarský.

Fyrir mér varst þú ímynd hins göfuga og góða,

svo gestrisin, einlæg og hlý.

En örlög þín ráðin - mig setur hljóða,

við hittumst ei framar á ný.

Megi algóður Guð þína sálu nú geyma,

gæta að sorgmæddum, græða djúp sár.

Þó komin sért yfir í aðra heima

mun minning þín lifa um ókomin ár.

(Höf. ók.)

Sigrún Kaja Eyfjörð

og fjölskylda.