[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég stofnaði bókaklúbb ásamt nokkrum vinkonum í vinnunni og við áttum sameiginlegan draum að lesa fleiri bækur. Þessi klúbbur fékk heitið „Ferðab(r)ækurnar“.

Ég stofnaði bókaklúbb ásamt nokkrum vinkonum í vinnunni og við áttum sameiginlegan draum að lesa fleiri bækur. Þessi klúbbur fékk heitið „Ferðab(r)ækurnar“. Við setjum okkur markmið um hvaða bók skal lesa, áætlum hversu langan tíma þarf í lesturinn og síðan hittumst við á kaffihúsi til að ræða bókina. Það er metnaður og algjör nördaskapur í hópnum.

Það er ár síðan við lásum bók Sigríðar Hagalín Björnsdóttur, Eyland . Mér finnst merkilegt hvað bókin rímar við aðstæður samfélagsins í dag því Sigríður varpar fram mynd af því hvernig Íslendingar bregðast við skyndilegum og stórvægilegum breytingum í samfélaginu.

Við upphaf samkomubannsins ákváðum við að líta djúpt í eigin barm og lesa bókina Man's Search for a Meaning eftir Viktor E. Frankl. Þrátt fyrir sorgmæta upplifun Viktors í útrýmingarbúðum nasista í seinni heimstyrjöldinni svarar hann stórum spurningum um ástæðu þess að lifa. Fyrri hluti bókarinnar er stórmerkilegur og fyrir alla lesendur.

Þegar ég vel bækur finnst mér áhugavert að lesa sjálfsævisögur frá mismunandi heimshornum. Á þennan hátt kynnist maður nýjum slóðum og menningu. Það eru nokkrar sögur sem hafa verið mér eftirminnilegar, Dóttirin eftir Hannah Shah, Ég er Malala eftir Malala Yousafzai og Með lífið að veði eftir Yeonmi Park. Þetta eru sögur kvenna sem lifðu af átök á heimaslóðum sínum. Trú, menning og pólitík neyddu þær til að flýja heimili sín í leit að betra lífi.

Síðasta sjálfsævisaga sem ég las var þó af öðrum toga, Shoe Dog eftir Phil Knight, stofnanda Nike. Sú bók er skemmtileg fyrir íþrótta- og viðskiptaáhugamenn.

Rithöfundur sem ég hef leitað til í gegnum tíðina er Cecelia Ahern. Hún skrifar hugljúfar bækur og hefur frjótt ímyndunarafl. Sú bók sem er í uppáhaldi eftir hana er Lyrebird . Henni svipar til vinsælu bókarinnar Where the Crawdads Sing eftir Delia Owens. Í báðum bókunum verða einstaklingar félagslega einangraðir og alast, á magnaðan hátt, upp í nánum tengslum við náttúruna.

Nú þegar búið er að létta á samkomubanninu mæli ég með að gera lífið á vinnustaðnum skemmtilegra. Bókin Fish! Tales er stutt og gaf mér margar góðar hugmyndir til að verða besta útgáfan af sjálfum mér!