Stjórnarráðsreitur Fornleifarannsókn stendur nú yfir við Stjórnarráðshúsið og þar verður unnið til loka sumarsins. Mannvirki hafa komið þarna í ljós.
Stjórnarráðsreitur Fornleifarannsókn stendur nú yfir við Stjórnarráðshúsið og þar verður unnið til loka sumarsins. Mannvirki hafa komið þarna í ljós. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Fornleifarannsókn á Stjórnarráðsreitnum hófst á ný 1. apríl. Vala Garðarsdóttir fornleifafræðingur, sem stjórnar rannsókninni, sagði stefnt að því að nýta sumarið og vinna að uppgreftrinum til loka ágúst.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Fornleifarannsókn á Stjórnarráðsreitnum hófst á ný 1. apríl. Vala Garðarsdóttir fornleifafræðingur, sem stjórnar rannsókninni, sagði stefnt að því að nýta sumarið og vinna að uppgreftrinum til loka ágúst. „Svæðið er um 1.300 fermetrar og við erum búin með um það bil 500 fermetra,“ sagði Vala. Til þessa hafa verið rannsakaðar minjar frá 18., 19. og byrjun 20. aldar. Sjö vinna að rannsókninni á vettvangi og einn starfsmaður er í skráningu og gagnaöflun.

Eins og sjá má á myndinni er komið í ljós mannvirki frá fyrri tíð. Vala sagði að þarna væri um að ræða drenlögn, þ.e. frárennsli fyrir jarðvatn, sem er hlaðin úr grjóti og lítur út eins og lágur veggur. Undir er skurður. Drenið nær frá Hverfisgötu, utan við þetta svæði, og alveg að Stjórnarráðshúsinu. Svo er önnur alveg eins lögn nær Bankastræti.

„Það er til mynd af þessu dreni frá 1905. Steyptur grunnur sem sést einnig á myndinni er af húsi sem var reist 1904. Það var byggt við það 1915 og húsið rifið 1967. Það þjónaði sem geymsluhús og íveruhús seinna meir,“ sagði Vala.

Stjórnarráðshúsið var reist á árunum 1765-1770 og hefur líklega verið reist ofan á eldri mannvirkjum, að sögn Völu. „Við erum ekki komin það langt niður en vonandi kemur það í ljós í byrjun júní hvort svo er,“ sagði Vala. Hún sagði að þarna undir gætu leynst eldri leifar frá 14.-15. öld eða þar um bil. Eftir er að sjá hvort eldri minjarnar hafa verið fjarlægðar eða skildar eftir.

„Eins og oft er um Reykjavík þá eru engar heimildir, hvorki frá miðöldum né fyrr. Nú er orðið ljóst að Reykjavík var stærra landnám en áður var talið. Það hefur fundist töluvert mikið af minjum í Kvosinni, við Lækinn, á Alþingisreitnum og Landsímareitnum. Maður er viðbúinn öllu,“ sagði Vala.