Guðni Björgólfsson
Guðni Björgólfsson
Eftir Guðna Björgólfsson: "... seilst er langt um hurð til lokunnar til útskýringa á því þegar flest liggur nokkuð ljóst fyrir ef að er gáð."

Eilífur snjór í augu mín

út og suður og vestur

skín,

samur og samur út og

austur,

einstaklingur! vertu nú

hraustur.

Dauðinn er hreinn og

hvítur snjór,

hjartavörðurinn gengur

rór

og stendur sig á blæju breiðri,

býr þar nú undir jörð í heiðri.

Víst er þér, móðir! annt um oss;

aumingja jörð með þungan kross

ber sig það allt í ljósi lita

lífið og dauðann, kulda' og hita.

Rétt er að taka strax fram að tvö eiginhandrit eru að ljóði þessu: KG 31 b V og JS 129.

Hér er kvæðið birt eins og best fer á samkvæmt handritum þessum. Um þau verður ekki fjallað að þessu sinni.

Það er ekki annað en satt sem sagt hefur verið að kvæði Jónasar eru flest auðskiljanleg en svo bregður undarlega við með það sem birtist hér og er eitt af hans síðustu ljóðum að seilst er langt um hurð til lokunnar til útskýringa á því þegar flest liggur nokkuð ljóst fyrir ef að er gáð.

Vissulega er snjór tákn dauðans en á einnig við um erfiðleika sem við er að etja, leiða og bölsýni auk þess að vera einhver skýrasta táknmynd kókaíns.

1. erindi. Endurtekningar út og samur og nokkuð óvænt notkun upphrópunarmerkis og úr takti. Það sama gildir um upphrópunarmerki önnur í textanum. Þau kunna þó að vísa til hugtaka um nokkuð almennt og hugstætt hlutskipti flestra og þá jafnvel Íslendinga í Danmörku. Orðið einstaklingur vísar sennilega til þess að menn skyldu reiða sig á sjálfa sig, þeir standa einir og sér og þeim eins gott að sýna hvað í þeim býr.

Merking: Hvert sem litið er þá blasa við erfiðleikar sem ekki sér út úr, engu virðist hafa verið áorkað af því sem uppsprettuna dreymdi um; bölsýni og leiði virðist grafa um sig við sífellda endurtekningu hlutanna þar sem gáski og gaman er nú að baki en dagleg rútína tekur við þar sem allt endurtekur sig upp aftur og aftur.

2. erindi. Dauðinn er endir þessa alls og þá fyrst fær hugur og sál gengið frjáls af þeim fjötrum sem hún hefur mátt þola svo lengi. Líkið er lagt á líkklæði (blæju) og hvílir jörðu undir í grafarhelgi sinni.

3. erindi. Móðir náttúra er ávörpuð og á það minnt að maðurinn er af jörðu fæddur og hverfur þangað til við lok æviskeiðs. Til þess er einnig vísað að ævin er ósjaldan barátta við grimm og ill örlög og jörðin að nokkru guðlegrar náttúru í þessu tilliti þar sem hún stynur undan slíku álagi, harmur mannsins er hennar líka. Þá er vísað til litbrigða allra í þessu sambandi og það knýtt lífi og dauða sem og þeirri velgengni sem varir um stund sem og þegar napur veruleikinn blasir við.

Þó svo að ég hafi kosið að skýra kvæðið út án þess að gera ráð fyrir kókaíni eða neinu slíku enda stenst það þannig þá er grunur minn sá að undir liggi vísun til kókaíns enda notkun embættismanna og annarra á slíku efni alkunn og nokkuð jöfn þeirri vitneskju sem menn þykjast búa yfir varðandi notkun rithöfunda ósjaldan af amfetamíni til að andinn kæmi frekar yfir þá og í báðum tilvikum eru staðfest tilfelli sem ekki virðist ástæða til að efast um.

Höfundur er fyrrverandi skólastjóri og kennari.