Guðmundur F. Jónsson
Guðmundur F. Jónsson
Eftir Guðmund Franklín Jónsson: "Markmiðið með þessum tillögum var að opna augu þingsins fyrir öðrum leiðum til að leysa vandamálið og stuðla þannig að jákvæðum áhrifum fyrir þjóðina."

Ég hóf máls á spillingu í síðasta pistli mínum í Morgunblaðinu en mig langar nú að fjalla örlítið nánar um hvað forseti getur gert til að vinna gegn spillingu. Spillingin er því miður landlæg á Íslandi og teygir hún anga sína inn um allt stjórnkerfið og setur sínar ljótu krumlur í kökukrúsina á ólíklegustu stöðum. Ég hef heitið því að vinna gegn henni og það mun ég gera, verði ég kosinn forseti.

Málskotsrétturinn

Það fyrsta sem þarf að gera til að vinna gegn spillingu er að nýta málskotsréttinn til að setja hver þau lög í þjóðaratkvæðagreiðslu sem vafi leikur á að séu til hagsbóta fyrir þjóðina. Í því samhengi er augljóst að hnýta slíkum þjóðaratkvæðagreiðslum saman við boðaðar kosningar svo þær þurfi ekki að kosta ríkissjóð mikið. Með þessi móti veitir þjóðin, í samvinnu við forseta, ríkisstjórninni og þinginu aðhald og mun hún jafnframt hafa mun meira um málefni er hana varðar að segja.

Þetta er að mínu mati fyrsta skrefið í að koma á beinu lýðræði á Íslandi en ég vonast til að þingið myndi í kjölfarið velta fyrir sér möguleikum á að nýta rafrænu skilríkin til að setja sem flest mál í þjóðaratkvæðagreiðslu að svissneskri fyrirmynd. Því yrði að sjálfsögðu að fylgja að þingið leitaði leiða við að kynna þau málefni og gera upplýsingarnar sem aðgengilegastar sem og hlutlausastar fyrir þjóðina.

Aukið upplýsingaflæði

Það næsta víkur að upplýsingum til fólksins en forseti á að nýta sér þann vettvang sem hann hefur til að upplýsa þjóðina ef þingið stendur ekki í stykkinu hvað þann hluta varðar. Er mér sérstaklega hugsað til þriðja orkupakkans í því samhengi en sárlega vantaði á upplýsingaflæðið frá þinginu til þjóðarinnar og stóð RÚV sig hreint út sagt hræðilega í því máli. Þar vísa ég til þess þegar afstaða ríkisstjórnarinnar bergmálaði dag eftir dag á ríkisfjölmiðlinum og þjóðinni var ekki gefinn kostur á að kynna sér málið frá öllum hliðum.

Nytsamlegar tillögur

Þegar ég bauð mig fram til embættis forseta hafði ég sett saman tillögu að aðgerðaáætlun til að bregðast við þeim efnahagsvandræðum sem fylgja veirunni. Sumum fannst ég þar stíga út fyrir ramma forsetaembættisins en ég er því alfarið ósammála enda hyggst ég efla embættið. Markmiðið með þessum tillögum var að opna augu þingsins fyrir öðrum leiðum til að leysa vandamálið og stuðla þannig að jákvæðum áhrifum fyrir þjóðina.

Nú eru ekki margir dagar liðnir frá því að ég bauð mig fram og sá ég í dag að bæði ríkisstjórnin sem og stjórnarandstaðan hafa nýtt sér atriði úr aðgerðáætlun minni fyrir sínar eigin hugmyndir um hvernig hjálpa megi þjóðinni og notast meira við almennari aðgerðir. Þarna er gott dæmi um hvernig forseti getur lagt sitt lóð á vogarskálarnar án þess að þurfa að grípa til stærri aðgerða en að setja fram tillögur í ræðu eða riti.

Alvarlegri málefni

Eins og við höfum ítrekað séð þá kemur upp sú staða að grípa þurfi til harðari aðgerða til að opna augu ríkisstjórnarinnar fyrir þeim axarsköftum sem hún hyggst framkvæma og kemur Icesave þar fyrst upp í hugann. Nú var hægt að stöðva Icesave með málskotsréttinum, þar sem um lagafrumvarp var að ræða, en það er því miður ekki alltaf sem sú er raunin og mistökin hafa t.d. átt sér stað í formi þingsályktunartillagna. Í því tilfelli getur forseti ekki vísað málinu til þjóðarinnar.

Í þessu tilfelli þarf forsetinn að nýta sér önnur ákvæði í stjórnarskránni til að setja ríkisstjórninni stólinn fyrir dyrnar og vekja hana til umhugsunar. Forsetaembættið er nefnilega vannýtt eins og sakir standa og væri hægt að nota það mun betur í þágu þjóðarinnar en hefur verið gert. Þar er ég ekki að tala um að forsetinn setji sig á háan hest og þykist vera einvaldur heldur að hann reyni að spyrna við og gera það sem hann getur til að hvetja þingið til umhugsunar ef það er það sem þjóðin vill. Hlutverk hans er nefnilega ávallt að vinna fyrir hana og í hennar þágu.

Höfundur er viðskipta- og hagfræðingur. gundi.jonsson@gmail.com