Ragnhildur Þrastardóttir ragnhildur@mbl.is Til greina kemur að Vinnumálastofnun krefji fyrirtæki sem ekki eru í rekstrarvanda en hafa samt sótt um hlutabætur fyrir starfsfólk sitt um að endurgreiða Vinnumálastofnun bæturnar.

Ragnhildur Þrastardóttir

ragnhildur@mbl.is

Til greina kemur að Vinnumálastofnun krefji fyrirtæki sem ekki eru í rekstrarvanda en hafa samt sótt um hlutabætur fyrir starfsfólk sitt um að endurgreiða Vinnumálastofnun bæturnar. Þetta segir Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar.

Dæmi eru um að stöndug fyrirtæki, til dæmis Össur, Skeljungur, Festi og Hagar, hafi nýtt sér hlutabótaleiðina þó hún sé einungis ætluð fyrirtækjum í rekstrarvanda.

Eftir fréttaflutning af því hafa Skeljungur og Hagar ákveðið að endurgreiða hlutabæturnar og Festi ákveðið að hætta að nýta sér hlutabótaleiðina.

Unnur segir að í ljósi umræðunnar um málið verði nánari skoðun Vinnumálastofnunar á þeim fyrirtækjum sem hafa nýtt sér hlutabótaleiðina flýtt en hingað til hefur Vinnumálastofnun ekki haft tök á að kanna hvort þau fyrirtæki sem sótt hafa um séu í rekstrarvanda. Því hefur stofnunin almennt greitt bæturnar út til þeirra fyrirtækja sem sótt hafa um án þess að kanna hver staða þeirra sé.

„Það stóð til að gera þetta þegar rykið væri aðeins sest en við flýtum því í ljósi umræðunnar. Við erum ekki að falla á tíma,“ segir Unnur og bætir því við að strax í næstu viku muni Vinnumálastofnun ráðast í þessa úttekt.

„Það hefur í raun ekki gefist tími til að ganga úr skugga um það að fyrirtækin séu raunverulega í rekstrarvanda.“

Gera má ráð fyrir því að heildaratvinnuleysi verði nálægt 18% í apríl en það er rúmu prósenti hærra en spáð var í upphafi apríl, samkvæmt nýju minnisblaði Vinnumálastofnunar. Í lok aprílmánaðar var heildarfjöldi þeirra sem voru í þjónustu Vinnumálastofnunar vegna atvinnuleysistrygginga um 52.500.

Í sama minnisblaði segir að erfitt sé að spá um þróun atvinnuleysis í maí. Gert er ráð fyrir því að fjölmargir muni afskrá sig úr hlutabótaleiðinni en töluverður fjöldi nýskráninga muni berast vegna almenna bótakerfisins.