Teymi Starfsmenn Getlocal: Standandi eru Sigmundur Halldórsson, Egill Erlendsson, Fannar Snær Harðarson og Sam Daniels. Sitjandi eru Emil Emilsson, Einar Þór Gústafsson og Finnur Magnússon.
Teymi Starfsmenn Getlocal: Standandi eru Sigmundur Halldórsson, Egill Erlendsson, Fannar Snær Harðarson og Sam Daniels. Sitjandi eru Emil Emilsson, Einar Þór Gústafsson og Finnur Magnússon. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Nýr vefur, ferdalandid.is, sem á að hjálpa Íslendingum að finna áhugaverða áfangastaði og afþreyingu innanlands í sumar, er kominn í loftið.

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Nýr vefur, ferdalandid.is, sem á að hjálpa Íslendingum að finna áhugaverða áfangastaði og afþreyingu innanlands í sumar, er kominn í loftið. Verkefnið er unnið af nýsköpunarfyrirtækinu Getlocal, og er notkun vefjarins öllum að kostnaðarlausu, bæði þeim ferðaþjónustufyrirtækjum sem þar kynna þjónustu sína sem og almennum notendum. Allar bókanir og greiðslur fara beint og milliliðalaust til fyrirtækjanna án aðkomu þriðja aðila.

Hugmynd kviknaði í mars

Einar Þór Gústafsson, einn stofnenda Getlocal, segir í samtali við Morgunblaðið að hugmyndin hafi kviknað stuttu áður en stjórnvöld kynntu til sögunnar ferðaávísun fyrir ferðir innanlands í lok mars. „Við sáum fljótt í hvað stefndi og fengum þá hugmynd að búa til vef sem væri eingöngu fyrir Ísland og Íslendinga. Jafnframt ákváðum við að vefurinn yrði ekki gerður í hagnaðarsjónarmiði. Í staðinn gætu ferðaþjónustufyrirtæki sem kynntu þjónustu sína frítt á vefnum lækkað hjá sér verðið á móti og hvatt þannig fólk enn frekar til ferðalaga innanlands,“ segir Einar Þór í samtali við Morgunblaðið.

Einar Þór segist hafa byrjað að tala við nokkur fyrirtæki sem Getlocal hafði verið að vinna með áður, og viðbrögð voru mjög góð að hans sögn. „Það kom fljótlega í ljós að tugir fyrirtækja vildu vera með. Þessi mikli áhugi og stuðningur hefur hvatt okkur áfram.“

Fyrst hét verkefnið „Heima er best“ en breyttist svo að sögn Einars Þórs yfir í Ferðalandið. „Vefurinn fór í loftið um páskana en nánast daglega bætast við ný fyrirtæki á vefinn og úrval ferða og afþreyingar sem í boði eru eykst hratt.“

Fjölbreyttir valkostir

Þegar vefurinn er skoðaður kemur á óvart hve fjölbreytta og áhugaverða afþreyingu og ferðir er hægt að finna á Íslandi. „Fólk áttar sig almennt ekki á því hvað það er mikið af upplifunum í boði um land allt. Sem dæmi má nefna kajakferðir í Ísafjarðardjúpi og Stykkishólmi, hundasleðaferðir við Mývatn og fjórhjólaferðir í Reynisfjöru.“

Einar Þór bætir við að mögulega sé eftir töluverðu að slægjast fyrir íslensk ferðaþjónustufyrirtæki í sumar. „Samkvæmt rannsóknarsviði Ferðamálastofu eyddu Íslendingar tæpum 200 milljörðum króna á ferðalögum erlendis í fyrra. Það eru 60% þess sem erlendir ferðamenn eyddu hér á landi á sama tíma.“

Einar Þór ítrekar að verkefnið sé hugsað sem átaksverkefni. „Við erum ekki að fara í samkeppni við ferðaskrifstofur. Hugsunin er sú að við verðum með upplýsingar fyrir fólk á Íslandi á íslensku. Þegar alheimsfaraldurinn er genginn yfir getur vel verið að vefurinn hafi engan tilgang lengur og honum verði lokað. En það kemur í ljós síðar.“

Tekur tíma að matreiða

Á Íslandi eru hundruð fyrirtækja í ferðaþjónustu, hvort sem það eru upplifunarfyrirtæki, gistihús, hótel eða annað. Yfir 100 fyrirtæki hafa nú þegar sótt um að komast inn á ferdalandid.is að sögn Einars Þórs. „Nokkur fjöldi fyrirtækja er þegar kominn inn á vefinn. Það tekur smá tíma að matreiða upplýsingarnar til birtingar á vefnum en ég hef bent á að núna sé ef til vill besti tíminn fyrir fyrirtækin að vinna svona vinnu.“

Ferdalandid.is er byggt á vefsölukerfi Getlocal, en nú þegar eru fyrirtæki í yfir tuttugu löndum að nota kerfið til að selja ferðir og afþreyingu á eigin vefjum. Kerfið er sérstaklega hannað með ferðaþjónustuna í huga og mörg af stærstu ferðaþjónustufyrirtækjum Íslands nota kerfið í dag. Getlocal-kerfið tengist síðan beint við miðlæg birgðastöðukerfi eins og Bókun. „Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu að vera með góðan vef fyrir eigin sölu á netinu. Þannig eru fyrirtækin ekki eins bundin sölu í gegnum milliliði, sem taka oft tugi prósenta í þóknun. Getlocal-kerfið hefur verið í þróun í tæp fimm ár og hefur þá sérstöðu að það er nánast enginn stofnkostnaður og hægt er að setja nýjan vef í loftið á mjög skömmum tíma. Dæmi eru um að viðskiptavinir hér á landi hafi séð hátt í tvöföldun á sölu í gegnum eigin vef eftir að hafa tekið kerfið í notkun,“ segir Einar Þór og bendir á í lokin að hægt sé að prófa Getlocal-kerfið ókeypis með því að sækja um á vefsíðunni getlocal.com.

Ferðaþjónusta
» Kerfið er sérstaklega hannað með ferðaþjónustuna í huga.
» Ferðalandið.is verður starfrækt a.m.k. þar til kórónufaraldurinn er genginn yfir.
» Íslendingar eyddu tæpum 200 milljörðum króna á ferðalögum erlendis í fyrra.